Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 12:23:52 (8184)

2004-05-14 12:23:52# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KJúl
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[12:23]

Katrín Júlíusdóttir:

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar flutt mál sitt í sölum Alþingis og fjallað um svokallað fjölmiðlafrumvarp frá hinum ýmsu sjónarhornum, enda er um grundvallarspurningar að ræða fyrir íslenskt samfélag nútímans. Á meðan hafa stjórnarliðar lítið sést í sölum eða blandað sér í umræðuna. Það eina sem maður heyrir frá stjórnarliðum er kvart og kvein í fjölmiðlum og stuttum andsvörum yfir því að hér vanti efnislega umræðu um málið, stjórnarandstaðan sé eingöngu í málþófi og bulli bara, eins og hæstv. menntmrh. orðaði það svo smekklega í andsvari við umræður í fyrrakvöld.

Nú hefur leiðari Morgunblaðsins einnig tekið undir það að hér vanti alla efnislega umræðu. Virðulegi forseti. Ég er algerlega ósammála því að hér sé ekki fjallað efnislega um málið þegar hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur komið upp og fjallað ítarlega um grundvallaratriði málsins eins og frelsi og eignarrétt. Við erum að tala um fjölbreytileikann, tjáningarfrelsið, atvinnufrelsið og önnur almenn mannréttindi. Þetta mál snýst um slík grundvallaratriði. Ef stjórnarliðar, og leiðarahöfundur Morgunblaðsins, telja eignarréttinn, fjölbreytileika, tjáningarfrelsi og atvinnufrelsi ásamt öðru ekki til efnislegar umræðu, að ræða slík grundvallaratriði, þá tel ég að þeim hefði ekki veitt af því að sitja og hlýða á hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson lesa myndarlega úr Frelsinu eftir John Stuart Mill. Andi frelsisins svífur aldeilis ekki yfir vötnum stjórnarliðsins.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hefur verið kallað eftir efnislegri umræðu um málið af hálfu stjórnarliðsins. Það hafa þeir reyndar ekki gert í ræðum í þinginu. Eins og allir vita hafa þeir ekki lagt í þá umræðu heldur kallað eftir því í fjölmiðlum og stuttum andsvörum. Ég vil í upphafi máls míns vitna til ummæla nokkurra ráðherra sem fallið hafa undanfarna daga og vikur sem hafa vakið furðu mína. Þau ummæli mynda athyglisverða samantekt, sér í lagi þar sem þeir hafa ekki fyrir því að mæta í þingsalinn þegar þetta stóra og umdeilda mál er rætt.

Í fyrsta lagi hefur hæstv. forsrh., bæði úr ræðustól Alþingis og í fjölmiðlum undanfarið, látið þau orð falla að fréttamenn fréttamiðla Norðurljósa hefðu ekkert frelsi og þeir gengju algerlega og eingöngu erinda eigendanna. Þá sagði forsrh. einnig að þessu frv. væri beitt gegn samþjöppun í fjölmiðlun og hafnaði því ekki að þessu frv. væri beint gegn Norðurljósum heldur sagði fréttamanni Ríkisútvarpsins sem um það spurði, með leyfi forseta:

,,Ég tel að þetta sýni hins vegar mjög vel að það er ekkert frelsi blaðamanna á þessum fjölmiðlum. Það er algjörlega og eingöngu gengið erinda eigendanna. Skoðum nú bara þessa fjölmiðla í dag.``

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti.

Í öðru lagi kom hæstv. félmrh. og veifaði DV í umræðu um fjölmiðlaskýrsluna og gekk svo langt að fullyrða að blaðamenn Fréttar hf. semdu ekki fyrirsagnir að fréttum sínum. Einnig mátti túlka orð hans þannig að umfjöllun DV um Davíð Oddsson væri sönnun þess að blaðamenn þar gengju erinda eigenda sinna.

Í þriðja lagi sagði hæstv. menntmrh. í Kastljósi fyrir skömmu, með leyfi forseta:

,,... ef þú ætlar að reka fjölmiðil þá verðurðu að einbeita þér að þeim rekstri. Þú getur ekki verið að hafa fjölmiðil sem einhverja hliðargrein, þá er þetta bara orðið málpípa fyrir aðalgreinarnar.``

Hæstv. dómsmrh. fjallar sjaldan ef nokkurn tíma um hina frjálsu fjölmiðla, aðra en Skjá 1, sem Baugstíðindi eins og þekkt er af vefriti hans. Þeir sem það hafa lesið þekkja hug hans að baki þessum nafngiftum. Hæstv. fjmrh. sagði þessa fjölmiðla stunda sjúklegar árásir á forsrh. og hæstv. menntmrh. tók í svipaðan streng. Hún notaði ekki hugtakið sjúklegt en árásir voru það svo sannarlega.

Ekki hafa einungis ráðherrar látið slík orð falla um blaðamannastéttina og í tengslum við þetta frv. heldur einnig forseti Alþingis. Hann sagði í umræðum á Alþingi í síðustu viku að blaða- og fréttamenn fjölmiðla Norðurljósa stunduðu óheiðarleg vinnubrögð. Bónus-fjölmiðlar og önnur slík nöfn voru notuð af hæstv. forseta í þeirri sömu ræðu.

Í ljósi þessa hlýt ég að spyrja t.d. hv. þm. Hjálmar Árnason og hæstv. menntmrh., sem eru meðal þeirra sem hafa kallað eftir efnislegri umræðu um þetta mál úr þessum ræðustól, hvort þessi ummæli hæstv. ráðherra og forseta Alþingis séu efnislegur þáttur þessa máls. Þetta eru ummæli fimm ráðherra í ríkisstjórninni og forseta Alþingis að auki. Þetta er að mínu mati vísir að vilja til ritskoðunar og ekkert annað. Ef fólk tekur ekki undir með forsrh. og ríkisstjórn í þessu máli þá er það kallað málpípur fyrirtækja hér í bæ. Það hefur verið algerlega óþolandi að þurfa að sitja undir því á hinu háa Alþingi að þingmenn sem hafa lýst sig andvíga þessu frv. séu úthrópaðir blaðafulltrúar fyrirtækja vegna þess eins að þeir eru ekki sammála forsætisráðherra í málinu. Svona málflutningur er ekki boðlegur, virðulegur forseti, sér í lagi þegar menn hafa ekki manndóm í sér til að koma upp í ræðustól, horfa í augun á okkur hinum og lýsa skoðun sinni.

[12:30]

Ég tel að áðurnefnd ummæli ráðherra Framsóknar og Sjálfstfl. lýsi vel hinum títtnefnda anda frv. eða hinum raunverulega ásetningi ríkisstjórnarinnar. Ég hef, virðulegur forseti, áhyggjur af þessu vegna þess að ég tel að fari málið fyrir dómstóla eins og nefnt hefur verið þá verði sá andi laganna, sem kristallast í opinberum ummælum þeirra sem að þessari lagasetningu standa, til þess að íslenskir skattgreiðendur þurfi að standa straum af milljarða skaðabótum.

Jón Steinar Gunnlaugsson, líklega eini lögfræðingurinn og prófessorinn, a.m.k. einn af fáum, sem hefur haldið því fram að þetta frv. fari ekki gegn stjórnarskránni, hefur þó sagt að mjög líklega verði ríkið skaðabótaskylt vegna þessa lagagernings vegna þess að þessi lagagerningur hafi meiri áhrif á eitt fyrirtæki umfram önnur á þessum markaði. Hann nefndi Norðurljós í þessu samhengi. Ég hef ekki heyrt einn einasta lögspeking taka af allan vafa um að ríkið verði ekki skaðabótaskylt verði þetta frv. að lögum.

Ekki hafa komið fram neinar slíkar áhyggjur af hálfu ríkisstjórnarinnar eða þingmanna stjórnarliðsins. Hugsanlega verður þessi lagasetning til þess að skattgreiðendur þurfa að greiða umræddu fyrirtæki skaðabætur. Við skulum segja það eins og það er, að þetta frv. miðar sérstaklega að því að brjóta upp fjölmiðlafyrirtækið Norðurljós, fyrirtæki með 2000 starfsmenn. Frv. hefur því, virðulegi forseti, gríðarleg áhrif á afkomu og líf fólks.

Virðulegi forseti. Ég vil koma inn á nokkur atriði varðandi þetta frv., nokkur efnisatriði sem ég tel að snerti grundvallaratriði í þessari umræðu. Sá markaður sem hér um ræðir er sá biti fjölmiðlakökunnar sem tilheyrir hinum frjálsa markaði. Þetta finnst mér mikilvægt að koma inn á vegna þess að Ríkisútvarpið er mjög stór aðili á ljósvakamarkaði, auk þess að reka einn stærsta og mest sótta vefmiðil landsins, þar sem reyndar eru einnig stundum seldir svokallaðir T-bolir. Það er útúrdúr en hvers vegna ríkisfyrirtæki selur T-boli get ég ekki skilið.

Ríkisútvarpið er svo sannarlega risi á íslenskum fjölmiðlamarkaði með 43% hlutdeild í sjónvarpi og 52% hlutdeild í útvarpi auk þess að reka einn mest sótta vefmiðil í landinu. Ríkisútvarpið fær fjármuni frá ríkinu, auglýsingatekjur og afnotagjöld. Aðrir miðlar þurfa að berjast um hylli áhorfenda og treysta á áskriftagjöld og auglýsingatekjur en enga ríkisstyrki því til viðbótar né heldur skylduáskrift. Við skulum halda því til haga við þessa umræðu að um er að ræða restina af þeirri köku sem til skipta kemur á hinum frjálsa markaði þegar ríkið hefur tekið sinn bita. Mér finnst menn stundum gleyma því í þessari umræðu, þegar fullyrt er að hér séu allir fjölmiðlar að safnast á eina hönd. Ríkið á helming af þessum markaði og rúmlega það.

Ísland er örmarkaður fyrir fjölmiðla. Ég tel okkur heppin að hafa þó þetta marga fjölmiðla. Ég tel að hér ríki mikil fjölbreytni í framboði á efni á vegum fjölmiðlanna. Hæstv. menntmrh. hefur sjálf sagt að hér ríki ekki fábreytni í útgáfu á fjölmiðlum. Með leyfi forseta, sagði hæstv. menntmrh. í áðurnefndum Kastljóssþætti:

,,... ég get ekki sagt að það ríki fábreytni í útgáfu á fjölmiðlum. Ég held að það séu allir sammála um að það er svona þokkaleg fjölbreytni varðandi fjölda rása og stöðva sem eru að senda út á ljósvakamiðlum og fjölda dagblaða.``

Virðulegi forseti. Þetta voru orð hæstv. menntmrh. um framboð á fjölmiðlum. Ég get ekki annað en tekið undir þau orð en á sama tíma klóra ég mér í hausnum yfir því hvers vegna hér er hlaupið upp til handa og fóta, lagt fram vont frv. sem hefur sett þjóðfélagið á annan endann og vakin upp allt of mörg álitamál til að hægt sé að keyra það í gegn með góðri samvisku.

Virðulegi forseti. Ég á sæti í menntmn. Alþingis sem fékk þetta frv. til umsagnar. Ég ætla ekki að fara í smáatriðum yfir þann skrípaleik sem þar átti sér stað og þá niðurlægingu sem nefndin varð fyrir, enda hefur verið farið vel yfir það undir hinum sívinsælu dagskrárliðum um störf þingsins og um fundarstjórn forseta. Hins vegar vorum við þó það heppin að fá fund þar sem stefnt var saman nokkrum valinkunnum einstaklingum úr fjölmiðlaheiminum sem og fræðimönnum sem eru sérfróðir um þessi mál. Eftir þann fund, virðulegi forseti, var ég enn sannfærðari um það hve vond lög þetta yrðu. Þarna hlýddum við á mál þeirra Gunnars Smára Egilssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, Sigurðar G. Guðjónssonar, forstjóra Íslenska útvarpsfélagsins, Magnúsar Ragnarssonar, framkvæmdastjóra Íslenska sjónvarpsfélagsins, Sigurðar Líndals, fyrrum lagaprófessors, og Herdísar Þorgeirsdóttur, lögfræðings og sérfræðings í Viðskiptaháskólanum á Bifröst.

Þessi valinkunni hópur setti fram gagnrýni og sjónarmið um álitaefni í frv. Ég tel að þingheimur hefði allur haft gott af því að sitja þann fund og hlýða á þeirra mál. Fjölmargar hættur eru fyrir hendi, verði þetta frv. að lögum. Mun ég vitna til nokkurra athugasemda og gagnrýnisradda sem komið hafa fram í máli áðurgreindra aðila í umfjöllun um einstaka þætti málsins.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að gera má ráð fyrir að fjölmiðlarekstur verði mun þyngri á þessum örmarkaði og fjölmiðlar á hinum frjálsa markaði verði fjársveltir vegna þeirra miklu takmarkana á fjármögnunarleiðum sem settar eru fram í frv. Þetta veldur mér verulegum áhyggjum vegna þess að ég tel fjársvelta fjölmiðla verri en enga. Ritstjórnarlegt frelsi er betur tryggt með alvöru kínamúr á milli fjármagns og ritstjórna, sem ég tel að hætta verði á að verði býsna þokukenndur múr, hangi fjölmiðillinn á horriminni og eigi allt sitt undir auglýsendum eða öflum annars staðar frá.

Í þessu samhengi vil ég nefna að þessi markaður er mjög skakkur fyrir vegna stærðar ríkisins á honum. Það er ekki mikið til skiptanna fyrir hina fjölmiðlana, sem ekki eru á forræði ríkisins.

Í þessu sambandi vil ég nefna að ekki er snert við netmiðlum í þessu frv. Ekki er snert við sjónvarpsstöðvum þeim sem Landssíminn miðlar gegnum breiðbandið. Ekki er heldur gert ráð fyrir sjónvarpi sem sent er í gegnum gervihnött frá sendum úti í heimi. Ekki er heldur gert ráð fyrir stafrænum pökkum sem hægt er að senda í gegnum netið. Erlendir fjölmiðlar veita íslenskum ljósvakamiðlum nú þegar mikla samkeppni. Báðir forstjórar hinna frjálsu ljósvakamiðla, þ.e. Íslenska sjónvarpsfélagsins og Íslenska útvarpsfélagsins, virtust hafa miklar áhyggjur af þessari samkeppni. Á þeim stöðvum sem koma í gegnum breiðbandið og gervihnetti eru sýndir sömu þættir og á íslensku miðlunum. Eini munurinn er sá að á íslensku miðlunum er efnið textað en ekki það efni sem kemur í gegnum gervihnött. Á máli þeirra beggja var að heyra að þetta væri þeim mikið áhyggjuefni.

Virðulegi forseti. Slíkur er flýtirinn í öllu þessu máli við að brjóta upp fjölmiðlafyrirtækið Norðurljós, eins og það er nú, að það er ekki litið heildrænt á málin, nema að menn hafi ekki áttað sig á því að til eru fleiri leiðir til að senda út og dreifa lifandi efni en bylgjur útvarps og sjónvarps.

Hæstv. samgrh. kom reyndar inn á þetta í ágætri yfirferð um breytingar á markaðnum í ræðu í þessum stól í síðustu viku. Hann sagði einnig í þeirri umræðu að ekki væri tekið á öllum þáttum í frv. sem fjallað er um í skýrslunni.

Virðulegi forseti. Ég tel að frv. beri þess merki að ekki hafi verið hugað að tækniþróun á sviði fjölmiðlunar við samningu þess.

Annar efnisþáttur sem ég vil koma inn á er að ég tel mikla hættu á að þetta frv. valdi því að fjölmiðlaflóran verði einsleitari. Í umræðum um málið má ekki gleyma því að Stöð 2 hefur verið ötull framleiðandi á íslensku efni í menningariðnaðinum, sem margar stéttir koma að. Verði starfsemi þessa félags stefnt í hættu er líklegt að fyrst verði dregið saman á þessu sviði, enda þekkt að fyrirtækin byrja samdrátt á því að segja upp starfsfólki. Það kostar minna að spila spólur og varpa þeim út en að hafa fólk í vinnu við að framleiða efni. Ég tel því að þetta frv. muni ekki ná markmiðum sínum um fjölbreytni heldur muni það þvert á móti draga úr fjölbreytileika í menningu og afþreyingu í gegnum fjölmiðlana.

Íslensk dagskrárgerð hefur verið afar fjölbreytt á undanförnum árum og ekki síður hjá hinum frjálsu sjónvarpsstöðvum en hjá Ríkisútvarpinu. Ég hef verulegar áhyggjur af því að íslensk dagskrárgerð muni koma afar illa út úr breytingunni og fjölbreytileika í framboði efnis verið stefnt í hættu. Hið sama á við um talsett efni og textað. Eins og við vitum flest hefur t.d. barnaefni á Stöð 2 verið vandlega talsett. Í raun má segja að Stöð 2 hafi verið brautryðjandi í þeim efnum. Þess vegna hljótum við að hafa áhyggjur af því að börnin okkar alast í meiri mæli upp við að horfa á efni frá stöðvum utan úr heimi sem ekki er textað eða talsett. Ég kem inn á þennan menningarlega þátt, hinn menningarlega fjölbreytileika, vegna þess að mælingar benda eindregið til aukinnar notkunar á fjölmiðlum og aukins lesturs á dagblöðum og þótt miðlar Norðurljósa fari af markaðnum verður eftirspurnin eftir því efni sem þar er sýnt áfram til staðar. Með nýrri tækni kemur betra aðgengi að gervihnattastöðvum, sem engin lög virðast beinlínis ná yfir, a.m.k. ekki læstar stöðvar sem fólk hefur keypt afruglara að, sem koma í gegnum gervihnetti eins og Sky og fleiri ágætar stöðvar.

Virðulegi forseti. Með aukinni uppbyggingu breiðbands Landssímans og fleiri gervihnattamóttökurum utan á húsum verður erlent efni æ algengara. Þetta verðum við að hafa til hliðsjónar við þessa umræðu því að þetta snertir klárlega íslenska menningu og íslenska tungu. Við hljótum að vilja bjóða neytendum upp á íslenskt efni áfram í bland við hina erlendu samkeppi sem fer sívaxandi.

Áðurnefndar mælingar sýna okkur einnig að það er ekki einsleitni á þessum markaði sem stendur. Öllu heldur er um fjölbreyttara framboð að ræða en fyrir örfáum árum síðan. Þessu á að fagna í okkar lýðræðislega samfélagi en ekki setja lög á þá þróun. Ég hef áður sagt að fullyrðingum um að hér ríki ekki fjölbreytni verði að fylgja mælingar en ekki persónulegt mat stjórnmálamanna. Það hafa ekki verið gerðar rannsóknir á því. Engar rannsóknir, athuganir og mælingar liggja á bak við framlagningu þessa frv. Hafi ríkisstjórnin eitthvað annað undir höndum en við hin þá tel ég brýnt að það komi fram.

Samhliða þessu, virðulegi forseti, er einnig hætta á að með frv. fækki eftirsóknarverðum störfum fyrir blaðamenn, tæknifólk, dagskrárgerðarmenn og aðra sem starfa við þennan iðnað. Þetta er stór iðnaður hér á landi og mörg störf í húfi.

Þriðja efnisatriðið sem ég ætla að koma inn á er að það má ekki gleyma því að á bak við þessi fyrirtæki er fjöldinn allur af fólki og fjölskyldum. Sú tala hleypur á hundruðum. Við erum að tala um fjölskyldur sem eiga allt sitt undir störfum hjá þessu fyrirtæki eða í menningariðnaði sem selur t.d. talsett barnaefni, framleiðslu á íslensku sjónvarpsefni o.s.frv. Þetta starfsfólk hefur undanfarnar vikur sent okkur þingmönnum tölvuskeyti og lýst áhyggjum af störfum sínum og framtíð sinni. Bréfin voru, virðulegi forseti, mjög erfið lesning, erfið vegna þess að tilfinningin og hræðslan, sem á fullkomlega rétt á sér, var afar einlæg og snerti mann mjög. Hún skein sterkt úr þessum bréfum. Margt þessa starfsfólks hefur verið í mikilli óvissu um störf sín um langt skeið, enda hafa þeir fjölmiðlar sem nú hafa verið reistir við með stabílum eigendum hangið á horriminni um mjög langt skeið, laun hafa ekki verið greidd á réttum tíma o.s.frv. Þá hafa margir þessara starfsmanna lent í gjaldþrotum fjölmiðlafyrirtækja, bara á umliðnum 2--3 árum eða þá að umræða um yfirvofandi gjaldþrot hefur skekið líf þessa fólks. Ég hef mikla samúð með þeim enda sjálf staðið í þeim sporum að vera einstæð móðir og vita ekki hvort fyrirtækið sem ég vann hjá gæti greitt mér laun um næstu mánaðamót. Þetta er reyndin víða á hinum frjálsa markaði, virðulegi forseti, og mjög erfitt að standa í þeim sporum.

[12:45]

Enn á ný eru störf þessa fólks í uppnámi. Það er ekki vegna þess að það vanti fjármagn inn í fyrirtækin, eins og var áður, heldur vegna þess að fjármagnið sem reisti þá við var ekki þóknanlegt ríkisvaldinu. Er nema von að stærsti hluti þjóðarinnar sé furðu lostinn vegna þessa máls og lýsi sig andvígan þessu frv. Því laust hér niður eins og þrumu úr heiðskíru lofti um leið og skýrsla fjölmiðlanefndar menntmrh. kom fram, skýrsla sem átti að marka upphafið á umræðunni um fjölmiðlana í samfélaginu.

Þetta frv. snýst einnig um afkomu fólks og fjölskyldna þess. Því megum við ekki gleyma í öllum þessum flýti við að setja svo umdeild lög. Ég verð að spyrja hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn hvort þessi flýtir sé nauðsynlegur og lagasetningin svo aðkallandi að það sé þess virði að störf þúsunda séu í uppnámi og óöryggi svífi yfir vötnum hjá stóru fyrirtæki hér í landi og starfsmönnum þess. Eitthvað held ég, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra byggðamála, sem einnig er ráðherra viðskipta og iðnaðar, mundi segja ef um væri að ræða frystihús úti á landi í litlu samfélagi í sjávarplássi, sér í lagi ef um væri að ræða frystihús í hennar eigin kjördæmi. En nú heyrist ekkert frá henni.

Virðulegi forseti. Ekki er nóg með það að yfir þessu starfsfólki vofi uppsagnir heldur þarf starfsfólk Norðurljósa að sitja undir gríðarlegum ávirðingum af hálfu ráðamanna, ávirðingum sem það á á engan hátt skilið. Harkalega hefur verið vegið að starfsheiðri frétta- og blaðamanna bæði úr þessum stól og í fjölmiðlum.

Hæstv. forsrh. hefur farið fyrir þeim hópi ráðamanna sem úthrópað hefur starfsmenn hjá frjálsu miðlunum, nema hjá Skjá 1. Hann hefur úthrópað þá sem málpípur eigenda sinna og ótrúverðuga. Stór orð hafa verið látin falla um fjölda manns og mjög ómaklega vegið að þessu fólki og störfum þess. Menn hafa talað eins og það sé lögmál að starfsmenn gangi ávallt erinda eigenda sinna. Með því er verið að dæma heila stétt, virðulegi forseti, og ég lít svo á að Ríkisútvarpið sé þar ekki undanskilið. Það er talað eins og það sé lögmál, að menn gangi ávallt erinda eigenda sinna og séu ekki faglegir í störfum sínum, sama hvar þeir starfa. Þessu hlýt ég og hljótum við að vera ósammála og mótmæla. Við eigum að bera virðingu fyrir blaðamannastéttinni sem hefur verið stór partur af lýðræðinu undanfarna áratugi og aldir.

Fjórða efnisatriðið sem ég vil koma inn á varðar það hve undarlegt er að í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram af hálfu stjórnarliða um frv. er allt kapp lagt á að banna með lagasetningu og brjóta upp eignarhald stærstu fyrirtækja landsins í fjölmiðlun en ekki minnst einu einasta orði á gagnsæi eignarhaldsins. Gagnsæi, virðulegi forseti, er miklu mikilvægara en lagasetning á borð við þá sem ríkisstjórnin hefur sett fram í þessu frv.

Stjórnarþingmenn, þeir fáu sem hafa tjáð sig um málið, hafa reynt að slá ryki í augu fólks með því að japla sífellt á þeirri tuggu að kalla eftir stefnu Samf. Þetta virðist vera línan úr Valhöll þessa dagana, virðulegi forseti. Til að svara þessu hafa þingmenn Samf. lagt fram þáltill. á þessu þingi, sem lýtur að því að auka gagnsæi í eignarhaldi á fjölmiðlum til að skapa traust milli neytenda og fjölmiðlanna. Sú þáltill. fjallar einnig um hið mikilvæga mál sjálfstæði ritstjórna. Í þeirri þáltill., eins og í frv. þingmanna Samf. um vernd heimildarmanna sem lagt var fram fyrir jól, kemur stefna okkar í þessum efnum skýrt fram. Stefna okkar er ekki í samræmi við frv. sem ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstfl. hefur lagt fram.

Virðulegi forseti. Ólíkt ríkisstjórninni teljum við neytandann nokkuð skynsaman, að hann láti ekki bjóða sér fréttir sem bornar eru fram af eigendum fjölmiðlanna. Ég tel að neytendur sjái með einföldum hætti í gegnum slíkt og eftirspurnin tryggi þannig hið ritstjórnarlega frelsi blaðamanna frá eigendum sínum. Neytandinn er gagnrýninn og nokkuð vel með á nótunum. Það þarf ekki að hafa vit fyrir neytendum með ritskoðun, eins og skein í gegn í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar í gær þegar hann kallaði þennan gjörning neytendavernd. Aðhald frá neytendum með kaupum þeirra á miðlunum ásamt gagnsæi í eignarhaldi og lög eða reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði mundu að mínu mati skila tilætluðum árangri. Ríkisvaldið þarf ekki að ritskoða ofan í neytendur efni með því að dæma ákveðna fjölmiðla og starfsmenn þeirra góða eða vonda, eins og gert hefur verið í þessari umræðu. Það er ekki hlutverk ríkisins að gera slíkt.

Með þessu frv. er gagnsæi alls ekki tryggt. Öllu heldur og þvert á móti tel ég auknar líkur og hættu á því að fjármagnið geti farið neðan jarðar og komið með krókaleiðum inn í fyrirtækin vegna þess að það er verið að setja óeðlilegar hömlur á markaðinn. Það er mikil hætta á að ekki verði nægilega ljóst fyrir neytandanum hverjir eigi miðlana. Varla viljum við sjá hér einhvers konar neðanjarðareignarhald eða krókaleiðir fram hjá lögum þessum. Þetta eru, virðulegi forseti, vond lög sem ganga allt of langt og eru allt of harkalegt inngrip inn í markaðinn. Þess vegna er hætta á að við munum sjá ýmsar leiðir sem notaðar verða til að komast fram hjá þessum lögum. Það eru margar leiðir til að komast fram hjá þeim af því að frv. er illa unnið og skilur eftir allt of marga lausa enda í öllum þessum asa.

Sjálfstæð ritstjórn verður ekki tryggð með þessu frv. Ég vil í því sambandi vísa í mál Herdísar Þorgeirsdóttur sem kom á fundi hjá menntmn. Hjá henni kom fram að fjölmiðlum megi stýra af öflum annars staðar frá, sé þak sett á eignarhaldið og því þurfi að setja lög um sjálfstæði ritstjórna. Í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði hún jafnframt að hætta verði á því að lögin verði marklaus vegna þess að þau gangi of langt og líklegt sé að farið verði í kringum þau. Lagafrv. er mjög takmarkað, harkalegt og nær ekki utan um allar hliðar málsins. Þetta fannst mér sannfærandi ábending hjá Herdísi, enda er hún einn af okkar helstu sérfræðingum í fjölmiðlum og lagasetningu þeim tengdum.

Virðulegi forseti. Hugtakið fjölbreytileiki hefur mikið borið á góma í þessari umræðu. Ég tel ljóst að hann verði ekki tryggður með þessu frv. eins og ég hef rakið áður. Ég kalla eftir því að stjórnarliðar segi mér hvernig á að tryggja áframhald þess fjölbreytileika í framboði sem sjálfur menntmrh. hefur viðurkennt að er til staðar. Hvernig á að tryggja hann? Hvernig tryggir þetta frv. fjölbreytileika í íslenskri dagskrárgerð? Þessu hefur ekki verið svarað en yfir þeim miðlum sem fyrir eru vofir bullandi samkeppni frá erlendum stöðvum sem lítið eða ekkert eftirlit er með.

Vegna samkeppninnar utan frá verða mörg fyrirtæki hér á landi stór. Hér er örmarkaður og þetta einkenni er þekkt og viðurkennt. Ég tel að hér sé byrjað á kolvitlausum enda, ætli menn að auka eða verja fjölbreytni. Virðulegi forseti. Ef einhver fjölbreytileiki kemur út úr þessu tel ég að það verði frekast fjölbreytileiki í leiðum fram hjá lögunum eða fjölbreytileiki í stefnum á hendur ríkinu vegna þess að þessi lög ganga allt of langt. Þetta yrðu hálfsúrrealísk lög, verð ég eiginlega að segja og ekki í takti við nokkuð það sem gerst hefur í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Mér þykir þetta frv. ganga allt of nærri tjáningarfrelsinu og lykta af ritskoðun þegar ummæli ráðamanna um þá fjölmiðla sem frv. snertir eru skoðuð. Lögspekingar, nánast allir nema einn, hafa sagt frv. brjóta í bága við stjórnarskrá, brjóta gegn eignarrétti því að gildistökuákvæðið muni leiða til þess að leyfi verði afturkölluð eða tekin af einu fyrirtæki. Sum leyfin renna ekki út fyrr en 2009 en lögin eiga að taka gildi 2006. Það er því klingjandi klárt að frv. er afturvirkt að því leyti.

Svo ég vitni aftur til máls Herdísar Þorgeirsdóttur á fundi menntmn. þá kom fram að leyfi er eign, samkvæmt mannréttindasáttmála sem við erum aðilar að. Það kom einnig fram í máli Sigurðar Líndals á sama fundi að þetta ákvæði væri klárt brot á atvinnufrelsi. Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að hlusta á þessa fróðu einstaklinga þegar svo mikið er í húfi. Það hefur ekki verið gert heldur á að halda áfram að keyra þetta mál í gegn á leifturhraða.

Virðulegi forseti. Það er einnig ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif á hagsmuni hluthafanna í þessu fyrirtæki sem eru nota bene fleiri en bara Baugur. Það hafa komið upp álitamál um að verði frv. að lögum við núverandi aðstæður verði þetta fyrirtæki ekki tækt til að fara á markað í Kauphöllinni eins og stefnt var að. Það er því klárlega, virðulegi forseti, verið að rýra eignir þessa fólks og málið snýst því að einhverju leyti um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Fleiri stór álitamál eru uppi vegna þessa frv. Vil ég þar nefna að ekki var tekið tillit til EES-samningsins og ákvæða hans við samningu þessa frv. Það finnst mér vera mikið gáleysi. Með leyfi forseta vil ég vitna til umsagnar Stefáns G. Þórissonar hæstaréttarlögmanns þar sem hann fjallar um frv. og EES-samninginn, sem mér finnst ,,súmmera`` það ágætlega upp:

,,Frumvarp til laga um eignarhald á fjölmiðlum felur í sér mjög víðtækar takmarkanir á því viðskiptafrelsi sem EES-samningurinn kveður á um samkvæmt ofangreindu. Með vísan til þeirra röksemda sem fram koma hér að ofan, fela þær í sér takmarkanir sem telja verður að brjóti gegn ákvæðum ESS-samningsins um stofnsetningarrétt, jafnvel þótt þær feli ekki í sér mismunun á grundvelli þjóðernis. Ýmis sjónarmið almannahagsmuna geta síðan mögulega réttlætt takmarkanir af þessu tagi, svo sem samkeppnissjónarmið, menningarsjónarmið og þörfina á að viðhalda fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Þegar slík sjónarmið eru metin verður þó að hafa í huga meðalhófsregluna, þ.e. takmarkanirnar mega ekki ganga lengra en nauðsyn ber til. Vart fæst séð að þær takmarkanir sem frumvarpið kveður á um þurfi að ganga jafnlangt og raun ber vitni, til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með lögunum.``

Virðulegi forseti. Allt of margt hefur komið fram sem kallar á ítarlegri skoðun málsins. Það er ljóst að ríkisstjórnin er að keyra þetta mál í gegn án þess að freista þess að ná samstöðu eða eiga samræðu við þjóðina og umsagnaraðila um málið. Meira að segja heil flokksfélög stjórnarflokkanna, Framsóknar og Sjálfstfl., hafa ályktað gegn þessari málsmeðferð og má þar nefna stjórn Framsóknarfélags Garðabæjar og Bessastaðahrepps. Ungir framsóknarmenn hafa mótmælt þessu, ungir sjálfstæðismenn, Sjálfstæðisfélag Hlíða- og Holtahverfis og Heimdallur svo einhverjir séu nefndir. Stjórnarherrarnir tala ekki einu sinni við sína eigin flokka um þetta mál. Það logar allt, virðulegi forseti, í ágreiningi og mótmælum. Umsagnir og ályktanir gegn þessu máli hafa borist víða að, enda ekki að undra að fólki ofbjóði bæði vinnulagið, aðdragandinn og ekki síður hversu langt er gengið. Hér er harkalega vegið að grundvallarþáttum í tilveru okkar, t.d. tjáningarfrelsinu.

Ég vil hvetja ríkisstjórnina til að láta af þessu stríði sem hún hefur hafið í okkar litla samfélagi og draga málið til baka. Ef menn hefðu viljað gera þetta vel þá lægju til grundvallar rannsóknir í blaðamennsku og lægju heildrænar úttektir, t.d. með tilliti til tækniþróunar og fleiri þátta. Það væri búið að ganga úr skugga um að þetta frv. bryti ekki í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Fleiri atriði mætti telja til. Þetta hefðu menn gert ef gera hefði átt vel. Það hefði verið tekið tillit til EES-samningsins og gerð úttekt á frv. með tilliti til hans. Ekkert af þessu höfum við fengið frá hæstv. ríkisstjórn, ekkert. Við höfum hins vegar umsagnir málsmetandi aðila í þjóðfélaginu, t.d. Alþýðusambands Íslands, Samkeppnisstofnunar, Verslunarráðsins og annarra þar sem þessu frv. er mótmælt í þeirri mynd sem það er.

Virðulegi forseti. Ég tel að ríkar ástæður þurfi til að grípa inn í markaðinn með svo afgerandi hætti. Ég sé ekki neina hættu til staðar sem krefjist þess að málið sé keyrt áfram með þeim látum sem gert er. Þetta hefur líka verið gert á svo grófan hátt. Nefndastörf þingsins hafa verið vanvirt, ekkert samráð haft við fagaðila, gróflega hefur verið vegið að starfsheiðri manna, ekkert tillit tekið til umsagna og mótmæla og meðalhófsreglunni hent fyrir róða. Þetta er aldeilis árangur. Málið hefur alls ekki fengið eðlilega meðferð og umfjöllun og alls verið ekki unnið í sátt og friði. Ég tel að fórnarkostaður þessa frv. sé allt of hár og hann geti haft áhrif á störf fjölda manna og gert fjölmiðlamarkaðinn einsleitan. Ég tel að gengið sé of nálægt tjáningarfrelsinu, atvinnufrelsinu, eignarréttinum og öðrum almennum mannréttindum, virðulegi forseti.

Hér gengur ríkisvaldið allt of langt í inngripum í markað sem er þegar skekktur vegna starfsemi Ríkisútvarpsins, markað sem hefur ekki möguleika til útrásar út fyrir landsteinana og hefur litla möguleika á að svara samkeppni utan frá og takmarkaða möguleika til að stækka. Markaðurinn er til þess allt of lítill, íslenskur markaður er örmarkaður.

Í lokin vil ég enn og aftur minna á að fjöldi starfa er settur í uppnám. Þetta frv. getur riðið frjálsum fjölmiðlum að fullu og við skulum ekki gleyma því að fjölmiðlar eru það fólk sem á þeim starfar. Hjá fyrirtækinu sem á að brjóta upp með þessu frv. starfar fólk sem hefur sérhæft sig á fjölbreyttum sviðum, fjölbreyttum sviðum í iðnaði, menningariðnaði.

Að lokum, virðulegur forseti. Ég tel að það verði myrkur dagur í Íslandssögunni verði þessi lög að veruleika því að þetta mál lyktar allt af ritskoðun og einbeittum vilja ríkisvaldsins til að hafa áhrif á það hvaða fjölmiðlar lifa eða deyja. Það getur ekki boðað gott.