Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 13:32:05 (8185)

2004-05-14 13:32:05# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil byrja seinni ræðu mína í 2. umr. eins og ég hóf fyrri ræðu mína, á því að lýsa því yfir í upphafi máls míns að við í Frjálsl. erum algjörlega andsnúnir fjölmiðlafrumvarpinu. Verði það samþykkt þá munum við vinna að því að afnema það ef við komumst til valda.

Varðandi spurninguna um hvort rétt sé að setja skorður við samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla þá getum við í Frjálsl. stutt það, þ.e. ef reglurnar eru settar með sanngjörnum hætti. Nú vill svo til að einn þingmaður Frjálsfl. lagði til að farið yrði yfir það hvernig setja ætti reglur. Hér var flutt þáltill. þess efnis. Það var sá sanngjarni heiðursmaður, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, sem flutti þá tillögu ásamt hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og hv. þm. Drífu Hjartardóttur frá Sjálfstfl. Hún er á frelsislistanum fræga. Ég ætlaði nú að benda ... (GAK: Hvað er það?) Á frelsislistanum fá þingmenn Sjálfstfl. stig miðað við það hversu þingmál þeirra þykja stefna í frelsisátt. Ég ætlaði einmitt að vekja athygli þeirra sem halda utan um þennan lista. Ég hefði talið að það ætti að telja hv. þingmanni Drífu Hjartardóttur það til tekna að hafa flutt þessa þáltill. ásamt hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, Hjálmari Árnasyni, Steingrími J. Sigfússyni o.fl.

Þess má geta að Hjálmar Árnason er einn af fáum stjórnarliðum sem tekið hefur til máls í þessu máli. Sú ræða var tímamótaræða og fjallaði m.a. um Berlusconi. Ég tel að ef hv. þm. Hjálmar Árnason hefði hlýtt á ræður stjórnarandstæðinga þá hefði sú ræða e.t.v. verið á annan veg. Það hefur komið fram í umræðunni, m.a. í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að frv. sem hér um ræðir leyfir að einstaklingar geti átt stóran eignarhlut í fjölmiðlum. Enginn stjórnarliða hefur borið á móti því. Ég ætla því að svo geti verið. Hvað sem því líður má ætla að hv. þm. Drífa Hjartardóttir ætti nú að færast upp listann og ýmsir sem eru ofarlega á listanum ættu að færast neðar, eftir umræðuna um þetta frumvarp.

Ég ætlaði að byrja á að lesa þessa ágætu þáltill. en áður en ég geri það vil ég gæta sanngirni og geta þess að Samf. flutti einnig tillögu um fjölmiðla. Það er því með ólíkindum að menn hafi ekki tekið saman höndum, allir flokkar þingsins, um einhverja tillögu. Það er ríkur vilji fyrir því að taka á þessum málum og setja sanngjarna og eðlilega umgjörð um starfsemi fjölmiðla. Þá ætti einnig að horfa til ríkisfjölmiðlanna og undanskilja þá ekki. Ég veit ekki betur en að þrátt fyrir ástandið á Ítalíu sé umræddur Berlusconi í miklum vinskap við hæstv. forsrh. og hann hefur einmitt líka tögl og hagldir á ríkisfjölmiðlunum. Ég tel að við verðum að skoða heildarmyndina.

Þáltill. sem umræddir þingmenn fluttu er að finna á þskj. 485. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi. Nefndin kanni m.a. eftirfarandi atriði sérstaklega:

a. hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila,

b. hvort setja beri sérstök ákvæði í lög sem tryggi fullt gegnsæi eignarhalds á fjölmiðlum,

c. hvort ástæða sé til að takmarka sérstaklega möguleika aðila til eignarhalds á fjölmiðlum sem eru markaðsráðandi eða mjög umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskipta, t.d. á sviði fjármálaþjónustu,

d. löggjöf og starfsskilyrði fjölmiðla í nálægum löndum með hliðsjón af markmiði nefndarstarfsins.

Nefndin skal í störfum sínum hafa samráð við Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla eða samtök þeirra, menntamálaráðuneytið og aðra aðila er málið varðar. Nefndin skal hraða vinnu sinni sem kostur er og ljúka störfum með skýrslu og eftir atvikum tillögum til Alþingis. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.``

Samkvæmt þessari tillögu, sem kom fram í haust, var hugmyndin að hafa samráð og koma á sanngjörnum leikreglum. Það er þveröfugt við þau vinnubrögð sem höfð voru uppi við samningu umræddrar fjölmiðlaskýrslu sem þetta frv. hvílir að mestu á.

Varðandi það hvort sé rétt að setja skorður við samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla þá getum við í Frjálsl. stutt það, eins og ég sagði áður. Við teljum rétt að skoða það. Við höfum hins vegar velt fyrir okkur þeirri spurningu hvort eignarhald hafi áhrif á efnistök fjölmiðla. Ég ætla alls ekki að útiloka að svo sé, a.m.k. hefur það komið fram í fjölmiðlum að reynt hafi verið, af eigendum sjónvarpsstöðvarinnar Skjás 1, að hafa áhrif á efnistök þáttarins Silfur Egils.

Ég vil fá að lesa upp grein sem skrifuð var af fjölmiðlamanninum Agli Helgasyni. Ég ætla að grípa niður í greinina þar sem fram kemur að reynt hafi verið að hafa áhrif á efnistök, með leyfi forseta:

,,Svo komu nýir herrar og tóku við Skjá 1. Þeir sem sveima nú eins og hrægammar yfir Stöð 2. Virðast vera stjórnarherrunum svo þóknanlegir að enginn mun amast við því þó þeir taki yfir alla ljósvakaflóruna. Ég hugsa mér af þessu tilefni að birta minnisblað téðum eigendum Skjásins um hvernig þeir sáu fyrir sér Silfur Egils fyrir alþingiskosningarnar í fyrra. Tel að þetta eigi erindi inn í umræðuna.

Þetta eru menn sem þoldu ekki gagnrýnið tal um Landsvirkjun, áttu ekki til nógu háðuleg orð yfir náttúruverndarsinna sem komu í þætti hjá mér. Þeir voru flestir ,,geðveikir``. Mér var seinna tjáð að þeir eigi hagsmuna að gæta í stóriðjuframkvæmdum. Þeim fannst óþolandi ef maður talaði um ríkisstjórnina, forustu Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins í öðru en lotningartóni --- en urðu súrir ef maður kallaði Ingibjörgu Sólrúnu annað en ,,kerlinguna``.

Misstu sig svo alveg rétt fyrir kosningarnar í fyrra. Þá voru reyndar margir að fara á taugum. Héldu kannski að þátturinn minn myndi skipta sköpum um úrslitin.

Að lokum var svo illa komið að þeir ætluðu að setja blaðamann frá DV til höfuðs mér --- einhver náungi þaðan átti að sitja við hlið mér í hverjum einasta þætti, passa upp á að allt færi vel fram. Á þeim tíma voru þessir menn í þann mund að drepa DV með því að leggja ónýta flokkskrumluna á blaðið.

En sem sé --- hafi menn einhvern tíma velt fyrir sér ástæðunum fyrir því að menn kaupa sig inn í fjölmiðla, hvort það er spurning um peninga eða völd, þá er þetta skólabókardæmi. Þetta er fjárfesting sem skilar litlum hagnaði en góð til að raupa af á sjöunda glasi á Rauða ljóninu. Eða kannski á pöbbum í London?

Rétt er að taka fram að þáverandi framkvæmdastjóri varð fokvondur þegar ég vildi ekki taka þessum fyrirmælum. Hótaði þá uppsögn --- sem síðar gekk eftir. Hef ég aldrei átt í öðrum eins samskiptum við yfirmann á fjölmiðli. Læt þess þá getið að ég hef unnið nokkuð lengi og mikið hjá Stöð 2/Bylgjunni og aldrei átt nema stutt kurteisissamtöl við Jón Ólafsson eða Jón Ásgeir Jóhannesson.

Silfur Egils síðastliðið vor átti að vera í formi kynningar á stjórnmálaflokkunum, svona var minnisblaðið:

,,Síðustu þættirnir fyrir kosningar:

10 mínútur: Saga flokksins, hvaðan þeir komu --- gamlir leiðtogar, viðtöl o.s.frv.

10 mínútur: Hvar stendur flokkurinn í tíu stærstu málunum, t.d. ESB? Mismunandi þingmenn svara hverju máli.

30 mínútur: Egill og blaðamaður ræða við formanninn.

2--5 mínútur: Spurningar sendar inn á netinu.

5 mínútur: Af hverju eiga Íslendingar að kjósa flokkinn? Formaðurinn talar í vélina til þjóðarinnar ... Til að gæta fullar sanngirni getum við síðan notað þetta í brot --- þannig fá allir jafnan séns?``

Nú velti ég því fyrir mér hvort ég verði kallaður fyrir allsherjarnefnd Alþingis seinna í dag til að segja þessa litlu sögu af samskiptum fjölmiðlamanns og eigenda? Á 23 ára blaðamennskuferli hef ég ekki kynnst öðru eins.``

Þess bera að geta að þessi tilraun eigenda Skjás 1 mistókst. Þeir náðu ekki að hafa tilætluð áhrif á umræddan þátt, Silfur Egils. Það segir okkur að menn geta ekki gengið að því sem vísu, þótt þeir séu eigendur að fjölmiðli, að hafa áhrif á ábyrga blaðamenn. Vera kann að meint áhrif eigenda séu ofáætluð. A.m.k. láta ekki allir bjóða sér slík vinnubrögð og hafa sagt upp störfum. Ég veit ekki betur en umræddur þáttur hafi flutt sig um set, yfir á aðra sjónvarpsstöð.

Það er hins vegar sérstakt að fram hafa komið ásakanir, m.a. frá stjórnendum Norðurljósa sem fjölmiðlafrumvarpið beinist gegn, um að reglurnar séu sérsniðnar fyrir eigendur Skjás 1. Ég ætla að lesa upp frétt þess efnis sem flutt var í Ríkisútvarpinu. Stjórnendur Norðurljósa segja þar að breytingartillögurnar séu enn í þá átt að vera sérsniðnar að eigendum Skjás 1 þannig að þeir geti mögulega tekið yfir rekstur Norðurljósa. Í fréttum Ríkisútvarpsins 11. maí þá kom fram, og ég ætla að lesa upp fréttina, með leyfi forseta:

[13:45]

,,Stjórnarformaður Norðurljósa segir að breytingar þær sem allsherjarnefnd gerði á fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar séu klæðskerasniðnar fyrir Íslenska sjónvarpsfélagið. Hann segir að fyrirtæki Norðurljósa séu alveg jafnilla sett og þau voru áður en frumvarpinu var breytt. Í engu hafi verið komið til móts við ábendingar félagsins.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður Norðurljósa, segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvernig verði brugðist við verði fjölmiðlafrumvarpið samþykkt í þeirri mynd sem það er nú.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður Norðurljósa: En ef þetta verður að lögum, þá þurfum við að setjast yfir það og ákveða nákvæmlega hvað það er sem tekur við.

Skarphéðinn Berg segir að breytingar þær sem allsherjarnefnd gerði séu sérsniðnar fyrir Íslenska sjónvarpsfélagið sem rekur Skjá 1.``

Síðar í fréttinni segir Skarphéðinn Berg Steinarsson:

,,Þau eru hins vegar sérsniðin að rekstri eða eignarhaldi hjá Íslenska sjónvarpsfélaginu, bæði 5% reglan og 2 milljarða reglan, hentar ágætlega fyrir þeirra hluthafahóp og augljóst að það á henta honum.``

Jóhanna Margrét Einarsdóttir spyr: ,,Geturðu útskýrt það nánar?`` og Skarphéðinn Berg svarar: ,,Ja, 5% er þannig að einn hluthafi í Íslenska sjónvarpsfélaginu er með rétt innan við 5% hlut og er jafnframt í markaðsráðandi stöðu, það er Íslandsbanki. Nú, IKEA, sem er í eigu sömu aðila og á rétt innan við 25% er með veltu sem er aðeins innan við 2 milljarða.``

Jóhanna spyr: ,,Áttu von á því að þeir eignist þá Norðurljós í framhaldinu?``

Skarphéðinn Berg Steinarsson svarar: ,,Ja, eins og fram hefur komið þá hafa hluthafar eða eigendur Íslenska sjónvarpsfélagsins og þeir sem standa að því félagi í mörg, mörg ár, haft áhuga á því að komast yfir Íslenska útvarpsfélagið. Kannski eru þessi lög sérsniðin til þess að það gangi eftir.``

Ég tel að því verði að svara betur hvort svo er. Það eru náttúrlega gerræðisleg vinnubrögð ef þetta reynist rétt. Ég tel að formaður allshn. ætti að koma og skýra frá því hvort þetta sé í raunin. Ég hefði talið eðlilegt, þegar svo miklar ásakanir eru settar fram, að menn greini frá því og segi okkur hvaða málefnalegar ástæður voru fyrir þessari 5% reglu. Ég hef ekki heyrt hana. Aldrei. Hvers vegna ekki 6%? Hvers vegna ekki 7%? Hvers vegna voru mörkin dregin við 5%?

Mér finnst að þeir sem lögðu fram breytingartillögurnar ættu að koma í þingsalinn og skýra það nánar. Ég hef ekki orðið var við það. Menn eru að kvarta yfir að efnislega umræðu skorti. Ég óska eftir því að formaður allshn., hv. þm. Bjarni Benediktsson, greini okkur frá þessu: Hvers vegna 5% og hvers vegna voru mörkin dregin við 2 milljarða?

(Forseti (BÁ): Forseti vill af þessu tilefni geta þess að þeim skilaboðum verður komið til formanns allshn., hv. þm. Bjarna Benediktssonar, að þingmaðurinn hafi í hyggju að beina orðum sérstaklega til hans.)

Það væri gott að hann kæmi og greindi frá þessu. Þetta er mikilsvert í umræðunni og ég fagna því ef stjórnarliðar koma og ræða efnisatriði málsins. Það hefur skort á það. Ég verð að þakka það að þeir komi loksins hingað í ræðustól og ræði þetta.

Það hefur nú samt sem áður komið fram að eigendur Skjás 1 eru í náðinni hjá hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni. Það vekur upp spurningar um raunverulegan tilgang þessa frumvarps. Yfirlýstur tilgangur þess er að auka fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og tryggja að auglýsendur beri ekki skarðan hlut frá borði. Ég hefði talið að menn ættu að reyna að ná því markmiði með eins vægum aðgerðum og mögulegar eru. Menn ættu að gæta meðalhófs. Ég sat í allshn. og hefði viljað fá frekari umræðu um það hvort ekki væri hægt að ná yfirlýstum markmiðum um fjölbreytni með vægara móti.

Ég tel að það skorti á að meiri hluti allshn. greini okkur frá því hvaða úrræði komu til greina. Það kemur fram í umræddri fjölmiðlaskýrslu að fyrsta tillagan var að efla Ríkisútvarpið. Hvers vegna var það ekki þá fyrsta tillagan í frumvarpinu? Hvers vegna var þá ekki þáttur Ríkisútvarpsins skoðaður? (HBl: Þetta fjallar ekki um Ríkisútvarpið.) Þetta fjallar um fjölmiðla og hvernig eigi að auka fjölbreytni fjölmiðla. Ég taldi svo. Kannski staðfesta þessi orð hv. forseta þingsins að þetta fjalli um eitthvað allt annað. (HBl: Ég vona að þingmaðurinn sé læs.) Þessi orð forseta þingsins eru svolítið sérstök. Þetta er náttúrlega ekki í fyrsta skipti sem maður sem á að stjórna fundum og sjá til að allt fari vel fram, er á mörkum þess að vera beinlínis dónalegur. Ég tel það að það verði ekki til framdráttar fyrir stjórn þingsins. Hann fór í fréttum í gær með hrein ósannindi um hvernig störf gengju fyrir sig á þingi. Mér finnst það ámælisvert að maðurinn sem á að gæta að því að allt fari eftir settum reglum, á að vera fyrirmynd okkar, komi og hreyti einhverjum ónotum í menn í ræðustól. Mér finnst þetta með ólíkindum.

Þótt hv. þm. sé með ósannindi og ónot vil ég upplýsa hv. þm. Halldór Blöndal um að ef hann biðst afsökunar þá er ég tilbúinn að taka það til greina. Ég tel að hann yrði meiri maður ef hann gerir það. Ég á hins vegar ekki von á því, eftir samskiptin undanfarna daga, að hv. þm. brjóti odd af oflæti sínu. En það væri ánægjulegt ef svo færi. Lengi skal manninn reyna.

Það var athyglisvert að starfa í allshn. og taka þátt í þeirri vinnu eða leikaraskap sem fram fór í tengslum við þetta mál. Þar voru kallaðir inn fjölmargir sérfræðingar á sviði fjölmiðla og nánast allir sögðu að þetta væri ótækt frumvarp. Eftir því sem ég best veit komu 45 einstaklingar fyrir nefndina fyrir hönd ýmissa hagsmunaaðila, sérfræðingar í stjórnskipunarrétti og hæstaréttarlögmenn. Það var allt á eina bókina lært. Þetta var talið ómögulegt frumvarp og allt of skammur frestur gefinn. Frv. var sent út til 80 aðila og ég er sannfærður um að við hefðum fengið mun fleiri og vandaðri umsagnir ef umsagnaraðilum hefði verið gefinn rýmri tími. Það var undantekningarlaust kvartað yfir því að ótækt væri að fá tvo eða þrjá daga til að skrifa umsögn um svo viðamikið efni. Það má geta þess að það tók fjögur ár í Noregi að vinna slíka löggjöf. Hér tók hún nokkrar vikur. Þetta er náttúrlega með ólíkindum.

Ekki voru þó allar umsagnir neikvæðar, á því voru undantekningar. Það á t.d. við um samkeppnisaðilana. Það má segja að þeir einir hafi verið jákvæðir í garð frumvarpsins. Það segir náttúrlega sína sögu. Allir aðrir sögðu að þetta væri á mörkum þess að vera stjórnarskrárbrot og brot á Evrópureglum, m.a. sendi Evrópuréttarstofnunin við Háskólann í Reykjavík inn erindi. Ég ætla að lesa brot úr því. Það var mjög athyglisverð umsögn. Ég hefði talið að ef þessi leikaraskapur væri ekki í gangi og menn væru ekki eingöngu að þjóna hæstv. forsrh. með því að keyra þetta frv. í gegn þá hefðu menn staldrað við eftir að hafa fengið slíka umsögn. Það er með ólíkindum að í nefndinni skuli starfa löglærðir menn, hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Jónína Bjartmarz, sem keyrðu þetta mál í gegn. Eftir að hafa fengið svo neikvæðar umsagnir varðandi málið er með ólíkindum að menn skyldu ekki staldra við og skoða þau atriði nánar. En í umsögn Evrópuréttarstofnunar segir, með leyfi forseta:

,,Framangreind beiðni allsherjarnefndar Alþingis er dagsett 4. maí 2004 og barst Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík 5. maí. Óskað var svars eigi síðar en 7. maí. Ljóst er að þessi tímarammi hefur sniðið Evrópuréttarstofnun HR mjög þröngan stakk og að á umræddum tíma var ekki hægt að gera viðeigandi efnisréttarlegum álitaefnum Evrópu- og EES-réttarins forsvaranleg skil. Þannig hefur Evrópuréttarstofnunin nálgast málið með þeim hætti að skoða á hvaða reglur Evrópu- og EES-réttarins gæti helst reynt í samhengi framkomins frumvarps. Þær reglur sem helst koma til álita eru eftirfarandi:

1. Reglur ESB- og EES-réttar um staðfesturétt.

2. Reglur ESB- og EES-réttar um þjónustufrelsi.

3. Meginreglur ESB- og EES-réttarins`` --- o.s.frv.

Síðan segir:

,,Niðurstaða könnunar Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík á þeim réttarreglum sem tilgreinar eru hér að ofan er sú að ekki sé hægt að slá því föstu að frumvarp það sem fyrir liggur samræmist að öllu leyti ofangreindum reglum. Áreiðanleikastig niðurstöðunnar er vissulega í samræmi við þann stutta fyrirvara sem stofnunin hefur haft til að skoða málið. Það er engu að síður mat hennar að tvímælis geti orkað, frá sjónarhjóli EES skuldbindinga Íslands, að lögtaka frumvarpið án frekari skoðunar á þessum atriðum.``

Ég hefði talið að eftir að hafa fengið slíka umsögn ættu menn að staldra við og huga að því hvort ekki ætti að fara í enn frekari könnun. Nei, því var algjörlega hafnað, að vísu eftir umhugsunarfrest. Það þurfti að heyra í þeim sem formaður allshn. starfaði í umboði fyrir, eins og hann kallaði það. Mér þótti það afar sérstætt. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en hann þyrfti þó að heyra í hæstv. forsrh. og ef svo hefur ekki verið þá vildi ég að hann skýrði frá því í andsvari á eftir.

Það komu fleiri heldur en sérfræðingar á sviði Evrópuréttar til fundar við nefndina. Þangað komu fjölmargir sérfræðingar á sviði lögfræði og töldu að ýmis ákvæði í frumvarpinu stæðust ekki stjórnarskrá. Einkum var dregið í efa að nokkrar greinar frumvarpsins stæðust 72. gr. stjórnarskrár, varðandi eignarréttarákvæðin. Eignarrétturinn er friðhelgur.

[14:00]

Talið er álitaefni hvort lögin mundu brjóta í bága við 72. gr. Einnig 73. gr., um skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi. Ég hefði talið eðlilegt að skoða það nánar eftir ábendingar um að frv. gæti brotið í bága við tvær og jafnvel þrjár greinar stjórnarskrárinnar, einnig var talað um 75. gr., um atvinnufrelsi, sem er eitthvað á þá leið að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

Ef ég man rétt kom það fram í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að hann talaði um einhverja vá. Ég tel það algjörlega fullvíst að í huga almennings er ekki vá fyrir dyrum. Það sér enginn hvaða almannahagsmunir krefjast þess að fara út í þessar breytingar. Það væri óskandi að hv. þm. Bjarni Benediktsson skýrði okkur frá því. Hann hefur verið krafinn svara um það hvað eftir annað. Mér hafa fundist svörin mjög óskýr hvað það varðar. Ég átta mig ekki á því hvaða almannahagsmunir krefjast þessa, hvaða vá er hér uppi.

Að vísu hefur komið fram, svo maður gæti sanngirni, að menn hafa veifað hér DV. Hæstv. félmrh. gerði það og talaði um að það þyrfti að stöðva þennan fréttaflutning. Ég sé ekki að það sé mikil vá þó DV komi út á hverjum degi. Hins vegar er greinilegt að stjórnarmeirihlutinn er hræddur við DV. Það er eitthvað sem þarf að stöðva með lagasetningu, og ekki lagasetningu sem komið er á eftir yfirvegaða umræðu. Nei, hún er sett í einum spreng. Hún hefði samkvæmt því sem meiri hlutinn vildi átt að vera búin. Er ekki eðlilegt að fara vel yfir lagasetningu um fjölmiðla? Menn tala um þá sem fjórða valdið. Við sjáum að nágrannaþjóðirnar taka mörg ár í slíka lagasetningu og þar eiga allir aðild að slíkri umræðu. Þessi mál eru ekki lokuð af í þröngum hópi stjórnarflokkanna og tveggja lögfræðinga, eins og nefndin var skipuð.

En fyrst við erum að ræða um stjórnarskrána þá vil ég nefna að þegar ég tók sæti á Alþingi sór ég eið að stjórnarskránni. Ég tók það alvarlega en svo virðist sem sumir aðrir þingmenn hafi talið það léttvægan atburð að sverja eið að stjórnarskránni. Þegar farið er fram á það, eftir að svo stórar athugasemdir eru setta fram um hvort þetta frv. standist stjórnarskrána, þá fara menn ekki í yfirlegu og skoða það eða biðja um lögfræðiálit. Nei, því er algjörlega hafnað.

Ég velti því fyrir mér hver ástæðan er fyrir því að skoða ekki rækilega og fara vel yfir það hvort hætta er á að menn séu að brjóta stjórnarskrána, sérstaklega þegar menn hafa svarið eið að henni. Ég átta mig ekki á því. Það hlýtur að vera einhver vá yfirvofandi, og því hefur verið haldið fram. En eina váin sem bent hefur verið á er DV. Það er náttúrlega með ólíkindum ef það er váin. Er það DV sem verður að stöðva? Eða getur hv. þm. Bjarni Benediktsson svarað því?

Við höfum ekkert komist nær því við hvað nákvæmlega er átt. Hvers vegna er þessi hraði? Það botnar enginn í því. Að vísu kom það fram hjá Arnbjörgu Sveinsdóttur að það væri ekki eingöngu þessi vá sem kallaði á að hafa hraðar hendur heldur einskær tillitssemi, ef ég skildi hana rétt. Það kom fram í útvarpsviðtali á Bylgjunni, við starfsfólk Norðurljósa, að fólkið sem ynni hjá Norðurljósum þyrfti að fá að vita fljótt og örugglega hvar það stendur og það væri einnig gott fyrir viðskiptalífið. Mér finnst þetta aum rök, algjörir útúrsnúningar og ekki þingmönnum til sóma að halda slíku fram. Mér finnst lítið gert úr umræðunni með þeim málflutningi og tilraunum til að snúa út úr. Ég get ekki séð að þetta frv. sem við erum að ræða hér verði starfsfólkinu til bóta. Mér finnst í raun að hv. þm. ætti, rétt eins og ég fór fram á að hv. þm. Halldór Blöndal gerði, að koma hér í þennan ræðustól og biðjast afsökunar á orðum sínum.

Menn hafa verið að velta þessu máli fyrir sér í sambandi við það hve mikil ábyrgð hvílir á verkstjóra nefndarinnar, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni allshn., varðandi vinnulagið í kringum þetta mál. Þegar hann hefur verið spurður hvort hann ætli að axla einhverja pólitíska ábyrgð á málinu þá finnst mér ekki vera mikið um svör. Þá er slegið úr og í og talað út og suður. Svarið verður illskiljanlegt. Mér finnst það ekki vera mikill manndómsbragur að geta ekki staðið við verk sín og sagt: Ég ætla að taka ábyrgð. Nei, það er slegið úr og í og svarið verður óskiljanlegt.

Aftur að stjórnarskránni. Ég ætla að lesa 26. gr. stjórnarskrárinnar sem er athyglisverð. Hún fjallar um málskotsréttinn sem svo hefur verið nefndur og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.``

Ég hef velt þessu máli mikið fyrir mér, hvort forseti okkar, herra Ólafur Ragnar Grímsson, eigi að beita þessari heimild. Ég er eiginlega kominn á þá skoðun. Mér finnst hann eigi að beita þessari heimild. Ég held að þetta sé gott mál til að láta reyna á þessi ákvæði. Ég geri þó þann fyrirvara að þetta frv. taki breytingum í skynsamlega átt, sem ég vonast enn til, að mennirnir sjái að sér. Það gæti orðið til þess að hann þurfi ekki að beita þessu ákvæði. Mér finnst hins vegar skynsamlegt að beita þessu ákvæði og skjóta þessu máli til þjóðarinnar vegna þess að vinnan í kringum frv. hefur verið með ólíkindum og hefur verið alger handarbakavinna.

Maður hefur fylgst með fréttaflutningi undanfarið og ég verð að segja að ýmis ummæli sem hæstv. utanrrh. hefur haft um það hvort beina eigi málinu til þjóðarinnar og leggja undir atkvæði hennar hafa í raun verið móðgandi. Þau hafa verið hæstv. utanrrh. til vansa. Það eru ekki einungis stjórnarandstæðingar sem vilja falla frá þessu frv. Það hefur ítrekað komið fram. Mörg flokksfélög beggja stjórnmálaflokka hafa lýst yfir mikilli andstöðu við frumvarpið. Ég hef áður minnst á eina helstu vonarstjörnu Framsóknarflokksins, lögfræðinginn Jón Einarsson á Sauðárkróki. Hann hefur skrifað merka grein um þetta mál í vefritið Maddömuna, sem er vefrit ungra miðjumanna. Það er skemmst frá því að segja að því vefriti hefur verið lokað. Mér tókst samt að komast yfir ritgerð Jóns og á henni er að skilja að þetta sé mjög slæmt frumvarp og mikil ósátt meðal framsóknarmanna um umrætt frumvarp. Jón Einarsson segir þar, með leyfi herra forseta:

,,Samkvæmt fréttum hefur þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkt frumvarpið fyrir sitt leyti. Það verða að teljast ill tíðindi. Frumvarpið er eins og að ofan segir ófrelsisfrumvarp. Undirritaður vill jafnvel taka svo djúpt í árinni að segja að frumvarpið hafi á sér einkenni fasisma. Segir ekki máltækið að vegurinn til vítis sé þakinn góðum áformum. Og þó svo menn segist vera að vernda þjóðina með því að takmarka frelsið þá er það sannast að þjóðin þarf ekki slíka vernd ...``

Þannig kemst vonarstjarna ungra framsóknarmanna á Sauðárkróki að orði. Hann gefur þessu frv. ekki háa einkunn. Það eru fleiri ungliðar sem mæla á móti frumvarpinu. Það er m.a. hægt að sjá af skrifum manna í frelsisdeildinni. Hún gefur þessu ekki háa einkunn. Ég ætla nú að grípa niður í vefsíðuna frelsi.is. Þar segir:

,,Davíð Oddsson sem jafnan hefur reynst fólkinu í landinu vel lagði fram hið vafasama fjölmiðlafrumvarp. Með því er vegið að frelsi manna og fær hann mínus fyrir vikið. Miður er að ekkert gott mál hafi komið ofan úr forsætisráðuneyti á þessu þingi. Eru að verða síðust forvöð á því þar sem brátt tekur nýr maður við embætti forsætisráðherra sem aldrei hefur verið orðaður við frjálslyndi. Líkur eru á því að formaður flokksins muni enda í neðsta sæti verði fjölmiðlafrumvarpið að lögum á þessu þingi.``

Í raun er þetta sérstakt í skrifum ungra sjálfstæðismanna. Ég held að þeir hafi verið með einhverja glýju í augunum og ekki séð hæstv. forsrh. í réttu ljósi hingað til. Ég tel að ýmislegt í stjórnarfarinu síðustu 13 árin sé ekki mikið í frelsisátt. Umsvif hins opinbera hafa t.d. aukist. Við höfum um það tölulegar staðreyndir og í raun þá einkennist stjórnarfar hæstv. forsrh. stöðugt meira af svona ráðstjórnartilburðum og æ minna af frelsi.

Menn hafa stundum mælt hægri stjórnir og vinstri stjórnir út frá hlut hins opinbera og talið það sanngjarna aðferð. Ef hlutur hins opinbera vex eða er mikill þá er það kennt við vinstri menn en ef hlutur hins opinbera dregst saman þá er það stefna hægri manna, að auka hlut einkageirans í þjóðarframleiðslunni. Þess vegna beindi ég fyrirspurn til fjmrh., ekki fyrir löngu, um hvert hlutfallið væri. Ég fékk svör frá hæstv. fjmrh. þar sem fram kom að árið 1991 voru tekjur ríkissjóðs 101 milljarður kr., en í árslok 2003, eða á fjárlögum 2003, voru tekjur ríkissjóðs 271 milljarður kr. Það má því segja það að hlutur ríkisins hafi aukist um 170 milljarða kr. Það er gríðarleg há upphæð.

[14:15]

Verðlagsþróun spilar þar inn í og þjóðarframleiðsla hefur náttúrlega aukist. Ef maður ætlar að vera sanngjarn, sem ég leitast eftir, er rétt að bera saman hver hlutur hins opinbera hefur vaxið, sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. 1991 var hlutur hins opinbera 39,9%, en árið 2002 þá hafði hann vaxið upp í heil 42,1%. Þetta er gríðarlegur vöxtur. Því má segja að út frá þessari skilgreiningu hafi verið við völdin vinstri stjórn. Hún hefur aukið hlut hins opinbera gríðarlega, um heil 5%. Enda sér maður æ meiri ráðstjórnarbrag á stjórnarháttum hæstv. forsrh. Hann eykur hlut ríkisins og svo virðist sem aukningin sé óstöðvandi.

Fleira í stjórnarfarinu virðist svolítið sérstakt og þetta er eitt af því. Það að ná tökum á fjölmiðlum er greinilega mikið atriði núna. Helst að koma þeim út úr fjölmiðlum sem eru hæstv. forsrh. ekki þóknanlegir.

Fleira má nefna. Við höfum séð að hæstv. forsrh. hefur stöðugt orðið gerræðislegri og hefur í raun brotið lög, þ.e. þegar hann tók ákvörðun ásamt hæstv. utanrrh. um að vera á lista yfir hin viljugu og staðföstu ríki. Þá studdist hann ekki við 24. gr. þingskapa sem segir, með leyfi herra forseta:

,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á.`` --- Það er athyglisvert að þetta var ekki gert.

Ýmis eftirlitsstarfsemi er alltaf að aukast. Settar eru á stofn nýjar eftirlitsnefndir og stofnanir, nú er verið að setja nýja nefnd á laggirnar sem á að hafa eftirlit með sölu fasteigna. Það á að vera sérbatterí um eftirlit með sölu fasteigna og skipa. Því er ekki hægt að koma fyrir í annarri stofnun, svo sem eins og Fjármálaeftirlitinu. Nei, það þarf að búa til nýja stofnun eða nýja stjórnskipaða nefnd. Maður veltir þessu fyrir sér og finnst skjóta skökku við að á sama tíma er verið að birta leikrit í sjónvarpinu, í ríkisfjölmiðlinum, Opinberun Hannesar, þar sem slíkar nefndir eru gagnrýndar. Þetta eftirlitsþjóðfélag. Þetta er ákveðin blekking sem ég tel að ungir sjálfstæðismenn lifi í. Þeir telja að hæstv. forsrh. sé frjálshyggjumaður meðan hann er að auka eftirlit. Við höfum dæmi um það á þessu þingi. Hann tekur ákvarðanir um utanríkisstefnu þjóðarinnar án þess að fara eftir lögum sem segja til um hvernig taka eigi slíkar ákvarðanir.

Fleiri gerræðislegar athafnir eiga sér stað undir hans forsæti, sem eru nú reyndar teknar af öðrum ráðherra, hæstv. dómsmrh. Menn hafa lengi leitað eftir skýringum á þessu. Það er ömurlegt að þegar sjálfur Hæstiréttur landsins er dreginn inn í pólitíska umræðu með þeim hætti sem hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. hafa gert. Það er með ólíkindum. Menn hafa leitað með logandi ljósi eftir málefnalegum skýringum á því hvers vegna ákveðinn aðili var skipaður sem dómari við réttinn. Menn hafa ekki fundið neinar málefnalegar skýringar á því, nema þá helst einhver ættartengsl sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Síðan hafa menn fengið ákúrur frá umboðsmanni Alþingis og brugðist illa við þeim í staðinn fyrir að þakka fyrir ábendinguna og segja: Nei, ég ætla ekki að gera þetta aftur. Auðvitað eiga menn að þakka fyrir ef þeir fá ábendingar. Þeir eiga að reyna að leiðrétta mistökin og gera betur næst.

Annað tel ég athyglisvert varðandi umrædda stjórnarsetu síðustu ár en það er að ekki virðist eiga að rannsaka sum mál sem varða verslun og viðskipti. Það er furðulegt að vita til þess að Samkeppnisstofnun hafi verið í fjársvelti. Menn hafa t.d. ekki komið sér saman um hvernig eigi að rannsaka ákveðin mál sem tengjast forustu Sjálfstfl., þá á ég við meint ólöglegt samráð í olíuviðskiptum. Það er með ólíkindum að hæstv. dómsmrh. skuli standa að því. Hann sem vill kenna sig við lög og reglu og hafa mikla sveit í kringum sig, vel þjálfaða sérsveit og kemur henni upp með miklum hraði rétt eins og þessu frumvarpi er komið í gegn með hraði. Slíkt má ekki fara í gegnum fjárlaganefnd. Nei, það verður að fara einn, tveir og þrír í gegnum þingið. Það er með ólíkindum að hins vegar skuli ekki nægir fjármunir til að halda uppi eðlilegum reglum varðandi verslun og viðskipti. Þær stofnanir eru í fjársvelti. Þessi forgangsröðun er með ólíkindum.

Fyrst við erum að ræða um verslun og viðskipti og dreifða eignaraðild er vert að minnast á að það hefur komið til tals að í upphafi var ákveðið að fara út í einkavæðingu bankanna. Þá var talað um dreifða eignaraðild. Síðan gleymdist það. Menn fóru að tala um kjölfestufjárfesta. Það er athyglisvert, þegar menn fara að sjá afleiðingar þess að svo fáir eigna bankana og menn fara að sjá afleiðingar gerða sinna, að þá fara menn eins og hæstv. félmrh. að tala um græðgisvæðingu í þjóðfélaginu, þegar hann sér verk sín koma fram.

Menn hafa talað um að dreifð eignaraðild að bönkunum sé nauðsynleg vegna þess að ákveðin hætta stafi af þröngu eignarhaldi, menn geti notað sér það í viðskiptum og takmarkað aðgang annarra athafnamanna að fjármagni. Þeir noti jafnvel aðstöðuna til að komast yfir fyrirtæki. Menn hafa gagnrýnt þetta, að þetta hafi einmitt gerst. Ég ætla ekki að fara nánar út í það en í þeirri umræðu gekk einn vaskur þingmaður fram og sagði að það væri engin hætta fólgin í slíkum kjölfestufjárfestum. Pétur H. Blöndal sagði í ræðu hér á þingi, með leyfi herra forseta:

,,Ef einhver banki er misnotaður á þennan hátt þá tapar eigandinn og viðskiptamennirnir flýja þann banka. Það sem við verðum því að treysta á er að það ríki samkeppni og við verðum að treysta á að Samkeppnisstofnun og þau tæki sem við höfum sett í gang til að styrkja samkeppni séu virk, þau gæti að því að menn misnoti ekki yfirgnæfandi stöðu sína á markaði. Á það verðum við að treysta að þessir bankar verði þjónustustofnanir og hætti að vera valdastofnanir.``

Í ljósi þessara orða kemur á óvart að hv. þm. Pétur H. Blöndal skuli ekki berjast af meira kappi fyrir Samkeppnisstofnun. Það er líka undarlegt að sjá það að hann leggur áherslu á að skipta upp fjölmiðlafyrirtækjum en telur í lagi að samþjöppun sé í eignaraðild að bönkunum. Það væri athyglisvert að fá skýringar á því.

Að lokum ætla ég að nefna það að ég tel að okkur liggi ekkert á með þetta frumvarp. Það er sjálfsagt að fara yfir þessi mál og taka góðan tíma í það og ræða þau. Í Noregi tók þessi umræða fjögur ár. Ég legg til að þessu máli verði frestað. Það eru engin rök og engin sýnileg vá fyrir því að halda þessu máli áfram að sinni.