Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 14:51:12 (8187)

2004-05-14 14:51:12# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EMS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Málið sem við fjöllum um hér fjallar um grundvallarréttindi, sjálft tjáningarfrelsið, tjáningarfrelsi sem við höfum býsna lengi litið á sem heilagan rétt hvers íbúa þessa lands. Þó hafa sumir viljað eigna sér a.m.k. seinni hluta orðsins, þ.e. frelsið, m.a. sumir þeirra sem nú fara fremstir í flokki og styðja þetta frv. Þeir hafa verið hvað drýgstir í að reyna að eigna sér þetta merka orð. Þetta hugtak hefur verið viðfangsefni mjög margra mjög lengi.

Áður í umræðunni hefur hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni verið nokkuð tíðrætt um bókina Frelsið eftir John Stuart Mill. Hann hefur lesið drjúga kafla úr þeirri ágætu bók enda full ástæða til að það ágæta rit sé vel kynnt fyrir þingheimi. (Gripið fram í.) Hv. þm. Pétur Blöndal telur sig þurfa á allri bókinni að halda. (PHB: Hann var búinn að lofa að lesa hana alla.) Ég býst við að verða megi við því áður en allri umræðunni lýkur. En vegna þess að ég hef fengið upplýsingar um að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn., telur þörf á að málið fari aftur inn til allshn. á milli 2. og 3. umr. þá verð ég að hryggja hv. þm. Pétur H. Blöndal með því að hann fær ekki að njóta þess ágæta rits í heild við 2. umr.

Hins vegar finnst mér ástæða til þess, vegna þess að hv. þm. biður um skammt, að ég lesi örlítinn kafla úr hinu ágæta riti þar sem m.a. er fjallað um skoðanir. Eins og við vitum þá tengist tjáningarfrelsið mjög því að fólk fái að hafa skoðanir og tjá þær. Ég veit að hv. þm. hefur lengst af verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að verja það frelsi að allir fái að tjá skoðanir sínar.

John Stuart Mill segir m.a., með leyfi forseta, í bókinni Frelsið:

,,En skoðanir eru ekki einkaeign. Ef skoðun er meinað að njóta sín, þá er gervallt mannkyn rænt eign sinni. Komandi kynslóðir bíða tjón ekki síður en þær, sem nú lifa, og þeir, sem öndverðir eru skoðuninni, bíða meira tjón en hinir sem aðhyllast hana. Sé skoðunin rétt, glata menn færi á að hverfa frá villu síns vegar. Sé hún röng, missa menn næstum jafnmikils, þeirrar skýrari skynjunar og fjörmeiri myndar af sannleikanum, sem birtist, þegar sönnu og lognu lýstur saman.

Rétt er að hugleiða hvora þessa staðhæfinga um sig, því að hvor þeirra svarar til sérstakrar greinar rökfærslunnar. Við getum aldrei verið viss um, að skoðun, sem við viljum kveða niður, sé röng. Og jafnvel þótt við værum viss, væri bannsetning mesta böl.

Fyrst er að hyggja að því, að skoðun, sem reynt er að bæla niður með valdi, getur verið rétt. Vitaskuld neita bannsetningamennirnir þessu, en þeir eru ekki óskeikulir. Þeir hafa ekki umboð til að skera úr ágreiningsmálum fyrir allt mannkyn og meina öllum meðbræðrum sínum sjálfdæmi. Þeir, sem bannfæra skoðun, af því að þeir þykjast vita, að hún sé röng, ganga að því vísu, að eigin vissa sé algild vissa. Öll bannfæring rökræðna gerir ráð fyrir óskeikulleika. Svo gamalkunn eru rökin, sem hníga að fordæmingu slíks framferðis. En þau eru ekki verri fyrir það.

Þótt flestir viðurkenni skeikulleika mannsins í orði, þá taka fæstir tillit til hans á borði --- því er nú verr fyrir heilbrigða skynsemi mannkyns. Hver einasti maður veit, að honum getur skjátlast, en fáir telja nauðsynlegt að viðhafa nokkra varúð gegn skeikulleika sínum. Menn viðurkenna ekki heldur, að bjargföst skoðun þeirra kunni að vera ein af þeim villum, sem þeir játa sjálfir, að þeim geti orðið á. Einvaldar og aðrir, sem vanist hafa blindri hlýðni, hafa að jafnaði takmarkalausa trú á eigin sannfæringu í næstum hverju máli. Öðru fólki og lánsamara er stundum andæft, og það er ekki alls óvant því að hlíta leiðsögn, er það hefur á röngu að standa. Og þetta fólk hefur ekki sömu tröllatrú á öðrum skoðunum en þeim, sem ríkjandi eru í umhverfi þess eða meðal þeirra, sem það er vant að treysta. Því að sama skapi, sem maður vantreystir eigin dómgreind, setur hann oftast allt sitt traust á óskeikulleika ,,heimsins``. Og heimurinn er hverjum manni sá hluti heimsins, sem hann á við að sælda: flokkur hans, söfnuður, kirkja eða stétt. Ef heimur manns er svo víðáttumikill, að hann taki til alls föðurlandsins eða samtímans, þá liggur við, að þann mann megi telja frjálslynda og víðsýnan.``

Frú forseti. Ég hef lokið lestri mínum úr öðrum kafla Frelsisins eftir John Stuart Mill. Það var sérstaklega gert fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég vona að hv. þm. hafi tekið eftir því að það getur verið býsna hættulegt að festa sig svo við flokk sinn að maður heyri ekki út fyrir hann. (Gripið fram í.) Því miður, hv. þm., ef það er rétt sem frammíkallið hljóðaði upp á, að einn maður stýri ákveðnum flokki, er hættan að sjálfsögðu enn meiri og enn alvarlegri. Þá erum við komnir enn fjær hinni sjálfstæðu hugsun hvers og eins.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan fjallar þetta mál um grundvallarréttindi. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að velta því fyrir sér hvernig þeir sem stýra málinu og leggja það fram hafa háttað málsmeðferðinni. Það er afskaplega athyglisvert að frv. sem hér er til umræðu var í raun ekki undirbúið á nokkurn hátt. Það var að vísu unnið í lokuðum hópi, þ.e. unnin skýrsla í lokuðum hópi sem skipaður var af menntmrh. samkvæmt vali. Að því vali fengu ekki allir aðkomu heldur valdi menntmrh. og hans helstu ráðgjafar. Þess vegna varð hópurinn ekki eins breiður og menn hefðu talið æskilegt sem stefndu að því að ná sem bestum frið um þetta mál og vildu reyna að lesa það með sem mestri sátt.

Hins vegar er ljóst, eins og hér hefur komið fram, að þetta er mál sem eðlilegt er að ræða. Við hefðum kannski átt að ræða það oftar en gert hefur verið, ýmsir hlutir hafa breyst og við viljum fjalla um málið af mikilli skynsemi.

Það var athyglisvert sem fram kom í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í gærkvöldi. Sá hv. þm. er einn af örfáum stjórnarþingmönnum sem hér hefur tjáð sig. Þess vegna var athyglisvert að hlýða á þingmann úr stjórnarflokkunum fjalla sérstaklega um þá meðhöndlun sem þetta frv. fékk í stjórnarflokkunum. Orðaval hv. þm. vakti sérstaka athygli mína, þ.e. að honum sýndist að hér væru foringjar að stytta sér leið --- foringjar að stytta sér leið. Ég held að þessi setning segi okkur ýmislegt um það sem hér er á ferðinni. Hér eru foringjar að stytta sér leið.

Á undanförnum dögum höfum við hins vegar tekið eftir því að ýmsar flokksdeildir í stjórnarflokkunum hafa gert samþykktir. Hv. þm. fullyrti að þessi umræða hefði ekki átt sér stað í flokkunum. Ég get hins vegar upplýst það eða rifjað upp fyrir þingheimi að í mínum flokki, Samf., höfum við verið að ræða þetta býsna mikið og komist að ákveðinni niðurstöðu. Sú niðurstaða birtist hér í frumvarpsformi og var ætlunin með því m.a. sú að við færum í umræðu um málið og reyndum að komast að sameiginlegri niðurstöðu. En hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði að hér væru foringjarnir að stytta sér leið. Það skýrir ýmislegt í þeirri málsmeðferð sem við höfum þurft að fylgjast með í þinginu.

[15:00]

Hér ber allt að sama brunni. Foringjarnir hafa ekki tíma til þess að leyfa þá umræðu sem nauðsynleg er um þetta stóra og mikla mál.

Ég hef á undanförnum vikum notið þeirrar ánægju að sitja í efh.- og viðskn. sem fékk frv. til umsagnar. Sú umræða hefur verið býsna merkileg og mjög fræðandi. Sú umræða sem þar hefur farið fram hefur upplýst málið á margan hátt. Ég hugsa að það sé helst að þakka því að í þeirri ágætu nefnd myndaðist óvæntur meiri hluti, ef við getum orðað það svo. Þar myndaðist öðruvísi meiri hluti en er í öðrum nefndum þingsins. Þess vegna hefur sú nefnd ákveðið að hætta ekki vinnu við málið hálfkarað. Þess vegna er þetta frv. þar enn til umfjöllunar, þrátt fyrir að bæði meiri hluti, sem er myndaður af stjórnarandstöðunni og af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, og minni hluti ... (PHB: Er hann stjórnarsinni?) Hv. þm. spyr mig einhvers sem ég get ómögulega svarað. Það er alveg augljóst mál að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tilheyrir Framsfl., sem stendur að þessari ríkisstjórn. Ég heyrði á ræðu hv. þm. í gærkvöldi, Kristins H. Gunnarssonar, að hann fjallaði um hvernig þessi mál kæmu að sér sem þingmanni stjórnarliðsins.

Ég átta mig ekki alveg á þeim aðdróttunum sem hv. þm. kallar fram í gagnvart fjarstöddum þingmanni. Ég vænti þess að hv. þm. eigi orðastað við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson ef hann heldur hér aftur ræðu og spyrji hann að þessu. Ég á ómögulegt með að svara slíkum spurningum um afstöðuna hjá einstökum þingmönnum í stjórnarliðinu. Það væri frekar að hv. þm. gæti uppfrætt okkur um það á eftir hvort einhver slík veila væri komin innan hans flokks. Ég trúi því að við höfum yfirleitt gleggstar upplýsingar um okkar eigin flokka.

Umsögn efh.- og viðskn. hefur auðvitað á margan hátt verið sérkennileg. Ég held að skipulag og vinnubrögð sé eitthvað sem menn þurfa að velta fyrir sér í þessu samhengi. Þrjár nefndir í þinginu hafa fjallað um þetta mál. Því var vísað til allshn. og allshn. bað síðan um umsögn frá menntmn. og efh.- og viðskn. Svo sérkennilega vildi til að það virtist ekkert samráð á milli nefndanna um hvernig þetta ferli ætti að eiga sér stað. Þess vegna þurftu ýmsir gestir að koma til allra nefndanna og einnig höfðum við í efh.- og viðskn., sem fengum afar seint þetta erindi frá allshn., afar takmarkaðan tíma til að ljúka störfum. Það varð síðan niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að sá tími væri alls ekki nægur. Eins og ég sagði áðan er málið því enn þá í vinnslu nefndarinnar. Nefndin mun væntanlega halda eitthvað áfram. A.m.k. hefur formaður nefndarinnar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, boðað fund í fyrramálið þar sem gestir koma og áfram verður haldið með að ræða innihald þessa frv.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að auðvitað er ekki vel að þessu verki staðið. Það er auðvitað eðlilegt að t.d. formenn nefndanna hittist þegar svona á sér stað og skipuleggi starfið. Frú forseti. Það eru dæmi um að formenn hafi gert þetta. Ef ég man rétt var á síðasta eða næstsíðasta þingi fjallað í einum þremur þingnefndum um afar stórt og mikið mál um Vísindasjóð. Þar komu að þrjár nefndir. Þar voru málin skipulögð í samhengi og engir hnökrar þar á. Það hefði auðvitað verið hægt núna, ef þessi vinnubrögð væru eðlileg, ef það lægi ekki svona mikið á. Ef foringjarnir þyrftu ekki að stytta sér leið þá hefði verið hægt að hafa þetta með allt öðrum hætti. Þá hefði ekki þurft jafnlangar umræður og hér hafa orðið vegna þess að þá hefðu nefndirnar auðvitað getað flýtt mjög fyrir þingstörfum og farið yfir ýmis nauðsynleg álitamál.

Eins og ég sagði áðan virðist sem betur fer nokkuð ljóst að þetta mál fer aftur inn til allshn. milli 2. og 3. umr. Við treystum því að þar verði vönduð vinnubrögð. Við verðum að trúa því að þannig verði að verki staðið þar til við stöndum menn að öðru.

Í umfjöllun efh.- og viðskn. hefur ýmislegt komið fram. Ég ætla ekki að tína þar allt til. Ég verð þó að nefna nokkur atriði. Það hefur m.a. komið fram í ræðu eins hv. þm. stjórnarliðsins, að eitt af markmiðum þessa frv. væri m.a. að tryggja það að fjölmiðlafyrirtæki yrðu skráð á markaði, skráð í Kauphöllinni. Þetta er sérkennilegur misskilningur. Við höfum fengið inn í efh.- og viðskn. bæði frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja ... (MÁ: Hver sagði þetta?) Ef ég man það rétt þá var það hv. þm. Hjálmar Árnason (Gripið fram í.) sem hélt þessu fram og að því er mér skilst færði hann mikil rök fyrir því. Ég trúi því að hv. þm. telji það eina meginröksemdina fyrir frumvarpinu. Því er eðlilegt að hv. þm. hljóti að velta fyrir sér hvort það sé ekki rétt að skoða þetta betur. Eins og ég sagði þá fengum við frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja þá umsögn að allt benti til þess að frumvarpið mundi hindra það að t.d. fyrirtækið Norðurljós gæti skráð sig í Kauphöllina eða a.m.k. að það hefði nokkra ástæðu til þess vegna ýmissa hindrana sem fram koma. Jafnframt væri markmiðið með því brostið, engin ástæða til þess að gera slíkt og bara kostnaður og fyrirhöfn. Með þessu frv., ef af lögum verður, er raunverulega búið að taka út úr því fyrirtæki allt sem gerir það söluvænt. Ég held að hv. þm. hljóti að velta þessu mikið fyrir sér og hafa áhuga á því að þetta mál verði skoðað sérstaklega.

Okkur í efh.- og viðskn. þótti ástæða til að skoða þetta sérstaklega. Þess vegna fengum við á fund nefndarinnar í morgun forstöðumann Kauphallarinnar og hann fór yfir þetta mál. Hann hafði að vísu ekki haft tíma til að glöggva sig á öllum þáttum málsins, enda hafði verið haft samband við þá ágætu gesti okkar í gærkvöldi. Þeir höfðu því ekki mikinn tíma til að fara yfir þessa hluti en ætluðu að skoða þetta mun nánar eftir að þeir hefðu fengið að hlýða á viðhorf Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja.

Hjá forstjóra Kauphallarinnar kom hins vegar fram að það væri alveg rétt, þótt hann sæi ekki í fljótu bragði að það væru endilega lögformlega miklar hindranir í vegi þess að skrá t.d. Norðurljós í Kauphöllina, þá hefði þetta mál þær afleiðingar að það mundi minnka hugsanlegan kaupendahóp verulega frá því sem áður hafði verið. Í því sambandi má benda á að viðræður voru hafnar á milli Norðurljósa og Kauphallarinnar um að skrá Norðurljós í Kauphöllina.

Af hverju skyldu Norðurljós hafa verið að velta því fyrir sér? Jú, vegna þess að þau vildu fara á markað og ákveðnir aðilar, stórir aðilar innan samsteypunnar, vildu minnka sinn hlut. Það var ætlunin að reyna að skapa svokallað almenningshlutafélag, reyna að hafa sem dreifðasta eignaraðild. Þegar við leggjum þetta saman er augljóst mál að það virðist ekki vera markmiðið með þessu frv. að dreifa eignaraðildinni, a.m.k. ekki með þessari leið.

Fleira var nefnt sem yrði hindrun í þessu sambandi, m.a. að frv. gerir ráð fyrir því að takmarka mjög vöxt slíkra fyrirtækja. Samskipti við önnur fyrirtæki eru mjög takmörkuð og allri hagræðingu og samlegðaráhrifum raunverulega ýtt til hliðar. Þannig að þetta hvort tveggja dregur mjög úr ástæðum þess að skrá svona fyrirtæki í Kauphöll.

Í þriðja lagi hefur það eitt að breyta lagaumhverfi þau áhrif að áhugi á greininni minnkar. Það segir sig sjálft að það gerir fyrirtækið að miklu minni söluvöru og gerir ekki praktískt lengur að setja slíkt fyrirtæki á markað. Það er augljóst mál að þeir sem styðja þetta frv. eru á móti því að svona fyrirtæki séu skráð í Kauphöll eða almennt á markaði. Maður er afar hissa á því hvert þeir ágætu herrar eru að fara.

Í þessu samhengi er rétt að vekja athygli á því að einn hv. nefndarmaður í efh.- og viðskn. situr einnig í allshn. og fullyrti að öll þau vafaatriði sem upp hefðu komið í efh.- og viðskn. hefðu verið rædd í allshn. Þar af leiðandi er það frv. sem hér liggur fyrir og afleiðingar þess augljóslega meðvituð niðurstaða meiri hluta allshn. Ég ætla ekki að tíunda allar þær afleiðingar sem hér hafa verið nefndar og farið hefur verið býsna vel yfir í þessari umræðu.

Eitt atriði vil ég þó nefna til viðbótar, þ.e. afleiðingar þessa frv., ef að lögum verður, gagnvart fjölmiðlun á landsbyggðinni. Það kom m.a. fram hjá forstjóra Norðurljósa, þegar hann kom sem gestur til efh.- og viðskn., að eitt af því sem þyrfti að gera, ef Norðurljós ættu að starfa áfram við þær aðstæður sem frv. skapar, er m.a. að draga verður verulega úr þjónustu við landsbyggðina, t.d. að loka öllum útsendingum til þéttbýlis með minna en 1.000 íbúa. Jafnvel, sagði forstjórinn, gæti það þýtt að stöðin yrði eingöngu að vera á höfuðborgarsvæðinu, hugsanlega væri það hið eina sem menn gætu ráðið við í breyttri mynd. Þetta er athyglisvert í samhengi við það þegar menn eru að tala um að eitt af markmiðum frumvarpsins sé að auka fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Ég held að öllum sé ljóst að ef einhvers staðar er fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði á Íslandi þá er það á höfuðborgarsvæðinu.

Ágætur fræðimaður, Birgir Guðmundsson, blaðamaður en um leið kennari við Háskólann á Akureyri, hefur velt þessum hlutum töluvert fyrir sér. Hann hefur notað skemmtileg hugtök um hágróður og lággróður í þessu samhengi og telur hvort tveggja nauðsynlegt samhliða. Hann hefur bent á að víða um Evrópu hafa menn einnig verið að velta þessum hlutum fyrir sér, einmitt í samhengi við fjölbreytni í fjölmiðlum. Ljóst er að mesta hættan sem steðjar að í fjölmiðlun á Íslandi í dag, miðað við óbreytt ástand, beinist líklega að hinum staðbundnu fjölmiðlum, fjölmiðlum landsbyggðarinnar, héraðsfréttablöðum, staðarútvörpum ýmiss konar og staðarsjónvörpum sem hafa átt erfitt uppdráttar.

Ef við höldum okkur við héraðsfréttablöðin, sem ég þekki hvað mest til, þá hefur stöðugt hallað á þar af þeirri einföldu ástæðu að þar hafa kostnaðarliðir þyngst, m.a. hefur dreifingarkostnaður aukist verulega á síðustu árum. Evrópuþjóðir hafa hins vegar talið slíka útgáfu svo mikilvæga að þær hafa sumar hverjar gengið svo langt að veita styrki til þessara útgáfna. Ég vil ekki ganga svo langt en ég hefði talið eðlilegt, ef menn meina eitthvað með því að máli skipti að það sé fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði, að menn hefðu a.m.k. velt fyrir sér hvort ekki væri hægt að koma til móts við þessa fjölmiðla til að tryggja þá fjölbreytni sem nauðsynleg er.

Við gætum farið nánar yfir málefni héraðsfréttablaða og ég mun væntanlega gera það síðar hér í umræðunni. En þeim málum tengist athyglisverður þáttur sem fram kom á fundi í efh.- og viðskn., þ.e. varðandi það sem segir í frumvarpinu um undanþágu til svæðisbundins hljóðvarps. Það er sérkennilegt að árið 2004 skuli menn ganga svo langt að binda sig eingöngu við hljóðvarp í þessu samhengi, en ekki útvarp, þ.e. bæði sjónvarp og hljóðvarp. Við getum tekið dæmi af stöð sem rekin hefur verið um nokkurt skeið á Akureyri og heitir Aksjón. Mér er kunnugt um að menn hafa verið að ræða ýmislegt um framtíð þeirrar stöðvar og rætt margs konar tengingar milli fjölmiðla í Norðaust. og hvernig menn gætu styrkt þá, sem því miður hafa verið að veikjast á undanförnum árum. Það er ekki hægt að sjá annað en að þetta frv., ef að lögum verður, muni koma í veg fyrir ýmsar þær hugmyndir sem þar hafa verið ræddar. Það er augljóst að þetta frv. mun a.m.k., þá er ég líklega mjög hógvær í orðalagi, skapa minni fjölbreytni í fjölmiðlun á landsbyggðinni. Ég tel hins vegar mikla hættu á því að það muni einnig draga úr fjölbreytni fjölmiðla á höfuðborgarsvæðinu. Áhrif þess munu þá ná yfir allt landið þótt augljóslega sé hættan enn meiri í smærri byggðum.

Frú forseti. Hér er bersýnilega um mjög stórt mál að ræða. Það er ekkert óeðlilegt við að hér fari fram mikil umræða og að ýmsir hafi talið sig hafa fulla ástæðu til að halda langar ræður. Ég sagði hins vegar fyrr í ræðu minni að ég hefði heyrt þau gleðitíðindi að formaður allshn. teldi ástæðu til að taka þetta mál aftur inn í nefndina til frekari umfjöllunar. Við treystum því og trúum að með því megi bæta frv. eða, sem mér þætti allra best, að meiri hluti nefndarinnar áttaði sig á því að þetta frv. er ekki tækt til samþykktar og því eðlilegt að gefa okkur frí, a.m.k. fram á haustið, taka málið þá upp aftur og reyna að átta okkur á því hvernig við getum höndlað það og skapað sem mesta samstöðu um málið.

Það er þó nauðsynlegt, frú forseti, áður en ég lýk máli mínu að fara örlítið yfir tvær umsagnir sem bárust efh.- og viðskn. og líklega allshn. líka. Annars vegar er það umsögn frá Samkeppnisstofnun og hins vegar frá Verslunarráði ríkisins ... Verslunarráði Íslands, fyrirgefið. Það heitir ekki Verslunarráð ríkisins en svona geta mismælin verið skemmtileg. Maður hefur náttúrlega á stundum velt því fyrir sér hvort Verslunarráðið tilheyrði a.m.k. ákveðnum þætti ríkisvaldsins. En það er ekki að sjá í þeirri umsögn sem við fengum frá Verslunarráði að þessu sinni.

[15:15]

Frú forseti. Ég hef margsagt að ég muni reyna að stytta mál mitt eins og kostur er og mun því aðeins víkja að örfáum atriðum í umsögn Verslunarráðs.

Frú forseti. Þótt ég ætli ekki að gera neinar athugasemdir við það og sé býsna ánægður með þann forseta sem nú stjórnar fundi þá hefur að vísu orðið breyting á frá því ég ákvað að lesa þennan kafla. Mér þætti vænt um það ef frú forseti gæti kannað það hvort hv. þm. Birgir Ármannsson er í húsinu.

(Forseti (SP): Hv. þm. Birgir Ármannsson er staddur í húsinu og ég geri ráð fyrir að hann fylgist með ræðu hv. þm.)

Frú forseti. Ég þakka fyrir og vona að svo sé. Ég tel fulla ástæðu til að hv. þm. sem hefur setið fundi með mér að undanförnu í efh.- og viðskn. fylgist sérstaklega með lestri mínum úr umsögninni frá Verslunarráði Íslands.

Hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Verslunarráð telur að fjölmiðlafyrirtæki lúti samkeppnisreglum eins og önnur fyrirtæki. Verslunarráð furðar sig á því að eftir síauknar heimildir samkeppnisyfirvalda og ítarlegri samkeppnisreglur þá telji menn nú að þær almennu samkeppnisreglur nái ekki til fyrirtækja í fjölmiðlun.

Verslunarráð telur að með frumvarpinu sé gengið miklu mun lengra en nauðsynlegt er telji menn brýnt að kveða á um eignarhald í fjölmiðlum í löggjöf.``

Hér er býsna skýrt talað, frú forseti. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Verslunarráð telur ekki að fjölbreytni útvarps og sjónvarps stafi ógn af eignarhaldi fyrirtækja í annars konar rekstri. Þvert á móti mætti ætla að aðkoma fyrirtækja á ýmsum sviðum að fjölmiðlun gæti leitt til meiri fjölbreytni.``

Áfram heldur Verslunarráðið, með leyfi forseta:

,,Verslunarráð telur ekki rétt að meina fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu þátttöku í útvarpsrekstri.``

Þá segir, með leyfi forseta, um 25% eignarhlut:

,,Verslunarráð telur þessa reglu afar íþyngjandi og takmarka mjög möguleika á einkarekstri í fjölmiðlun. Þá dregur Verslunarráð í efa að raunhæft sé að einblína svo mjög á eignarhaldið sem slíkt. ... Verslunarráð telur engin rök til þess að takmarka eignarhald á fjölmiðlum með þessum hætti.``

Um útvarpsleyfi og útgáfu dagblaða segir Verslunarráð, með leyfi forseta:

,,Verslunarráð telur að þær takmarkanir sem settar eru á möguleika fyrirtækja til að eiga bæði ljósvakamiðla og dagblöð séu óskynsamlegar og komi í veg fyrir að fyrirtæki á þessum markaði fái að þróast í samræmi við breytta tíma.

Verslunarráð telur að 1. gr. frumvarpsins sé ekki til þess fallin að auka fjölbreytni á fjölmiðalmarkaði en geti hins vegar dregið úr gegnsæi eignarhalds á fjölmiðlum.``

Nokkru síðar í umsögninni segir, með leyfi forseta:

,,Verslunarráð telur að upplýsingar um afleiðingar frumvarpsins séu ófullnægjandi, bæði hvað varðar fyrirkomulag á fjölmiðlamarkaðnum og einnig hvað snertir hugsanlega skaðabótakröfu núverandi fjölmiðlafyrirtækja á hendur ríkinu.``

Frú forseti. Lokasetningin í umsögn Verslunarráðs er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Verslunarráð leggst gegn því að frumvarpið nái fram að ganga.``

Hér er býsna skýrt talað og ég hefði haldið að ýmsir hv. þingmenn stjórnarliðsins tækju örlítið meira mark á Verslunarráði Íslands en virðist vera, miðað við þær skoðanir sem fram hafa komið hjá þeim í umræðunum. Að vísu verður að hafa þann fyrirvara á að afar fáar skoðanir stjórnarliða hafa komið fram í umræðunum. Þessi stytting á leið foringjanna virðist vera allsráðandi. Það er auðvitað mjög alvarlegt fyrir Alþingi að svo skuli vera komið fyrir því að foringjarnir skuli einnig stýra og stjórna störfum þingsins og foringjarnir geti þannig stytt sér leið.

Frú forseti. Ég ætla síðan að fara mjög stuttlega yfir álit Samkeppnisstofnunar. En þá vill svo til að mér kemur í hug viðtal sem ég las fyrir stuttu, sem ég rakst á í býsna skemmtilegu tímariti sem Lagakrókar heitir. Ég verð að spyrja frú forseta hvort hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sé staddur í húsinu.

(Forseti (SP): Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson mun ekki staddur í húsinu.)

Frú forseti. Ég verð að taka því. Ég get ekki gert þá kröfu að hv. þm. sé hér viðstaddur en hv. þm. situr í allshn. og ég mun reyna að bæta úr fjarveru hans með því að lesa stuttlega úr þessu ágæta viðtali við hv. þm. Það er að vísu ekki alveg nýtt en það er heldur ekki mjög fornt. Mér sýnist það tæplega þriggja ára gamalt. En það kemur mér í hug þegar ég lít yfir álit Samkeppnisstofnunar. Í viðtalinu er hv. þm., sem þá er reyndar ekki orðinn þingmaður en varð það skömmu síðar, spurður hvort samkeppnislög eigi rétt á sér.

Sigurður Kári Kristjánsson, núverandi hv. þm., svarar:

,,Nei. Ef aðili á markaði níðist á neytendum eða öðrum aðilum á markaði þá eiga markaðslögmálin að fá að leiðrétta slíkt en ekki eftirlitsstofnun á vegum hins opinbera.``

Áfram er spurt:

,,Hver eiga viðurlög við brotum á samkeppnislögum að vera?``

Þá svarar Sigurður Kári Kristjánsson af krafti:

,,Þar sem ég er mótfallinn samkeppnislögum þá tel ég að viðurlög eigi engin að vera. Viðurlög markaðarins eru nægilega hörð. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að samkeppnisyfirvöld hafi farið langt fram úr sjálfum sér í nýlegum málum þar sem lagðar hafa verið allt of þungar sektir á aðila á markaði sem sakaðir eru um brot á samkeppnislögum.``

Frú forseti. Hér er býsna skýrt talað og ekkert dregið af sér í svörunum. Ég verð hins vegar að segja, frú forseti, að hér finnst mér eins og ungur öfgamaður sé að tala. Við erum flest þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hafa eitthvert eftirlit á markaði. En það er oft þannig með öfgamenn að þeir virðast sveiflast öfganna á milli. Ég held að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi sveiflast öfganna á milli í þessu máli. Nú er hv. þm. orðinn bannmaður, bannmaður númer eitt, tvö og þrjú. Fyrir nokkrum árum síðan átti markaðurinn að sjá um allt en nú þarf að hafa vit fyrir markaðnum á ansi harkalegan hátt, þannig að afleiðingarnar eru ekki einu sinni fyrirséðar.

Frú forseti. Ég ætlaði að lesa úr umsögn Samkeppnisstofnunar. Ég held að ég stytti það enn frekar. Ég hafði lofað því að reyna að vera stuttorður og hef lagt mig fram um það. Ég ætla því að ljúka ræðu minni með tilvitnun í Samkeppnisstofnun og láta eingöngu eina tilvitnun duga. Þá skulum við bera niður þar sem Samkeppnisstofnun fjallar um bann við að fyrirtæki tengt útgefanda dagblaðs sé veitt útvarpsleyfi. En um það segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Samkeppnisstofnun fær ekki séð að svo afdráttarlaus aðgreining eignarhalds á útgáfu dagblaðs annars vegar og fyrirtækis með útvarpsleyfi hins vegar sé nauðsynleg til að tryggja markmið frv. Ná megi markmiðinu með vægari hömlum, svo sem því að óheimilt sé að veita fyrirtæki útvarpsleyfi sem lýtur virkum yfirráðum aðila sem hefur/hafa jafnframt virk yfirráð í útgefanda dagblaðs. Með óbreyttu orðalagi felast í ákvæði frv. aðgangshindranir að markaði sem að mati Samkeppnisstofnunar fara gegn markmiði samkeppnislaga.``

Frú forseti. Það má segja að þetta sé gegnumgangandi í umsögn Samkeppnisstofnunar, að frv. sem hér liggur fyrir gangi gegn markmiðum samkeppnislaga. Þannig er að ýmsu að hyggja í þessu máli en í trausti þess að allshn. muni sinna frv. af vandvirkni milli 2. og 3. umr. þá læt ég máli mínu lokið.