Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 15:28:29 (8189)

2004-05-14 15:28:29# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hv. þm. hefur fylgst með ræðu minni og meðtekið ýmislegt. Hins vegar er ljóst að hv. þm. hefur, eins og við þekkjum, verið gjarn á að misskilja hluti. Það er ljóst, miðað við fyrstu spurningu hans, að hann er víðs fjarri því sem ég var að fjalla um, þ.e. ef einn aðili, ef ég hef heyrt rétt, ætti alla fjölmiðla, og hvort ég teldi að John Stuart Mill hefði verið sáttur við það. Ég held að hann hefði ósköp einfaldlega svarað því neitandi, sem ég geri líka. Það getur nú ekki verið ætlunarverk nokkurs manns að fjölmiðlar verði allir í eigu einhvers eins. En við sjáum líka að það er brugðist við því ef hætta er á slíku. Við þekkjum nokkur dæmi um það frá Ítalíu. Þótt forsætisráðherra þess lands hafi ekki átt alla fjölmiðla þar þá var nú býsna langt gengið í þeim efnum. Menn hafa auðvitað brugðist við því og samkeppnislög okkar mundu væntanlega bregðast við því. Ef þau geta það ekki þá þyrftum við væntanlega að gera á þeim einhverjar breytingar.

Ég vona að hv. þm. sé sammála mér um að það væri afar óæskilegt ef einhver einn aðili ætti alla fjölmiðla. Það væri alveg skelfilegur hlutur. Í því væri mikil hætta fólgin og hugsanlega hægt að gera alls konar hluti.

Ég heyrði að hv. þm. var með fremur undarlegan málflutning um Ríkisútvarpið. Hann hefur nálgast þá stofnun á annan hátt en flestir aðrir þótt hann hafi eignast einhverja bandamenn í því efni á þessum vetri, sem væntanlega eru nú búnir að skipta um skoðun miðað við hvernig þeir tala um önnur mál. Ríkisútvarpinu er ætlað, hv. þm., að tryggja ákveðinn fjölbreytileika. Ég held að staða Ríkisútvarpsins sé mikilvæg í því tilliti. Eitt mikilvægasta hlutverk Ríkisútvarpsins er að tryggja ákveðinn fjölbreytileika á fjölmiðlamarkaðnum. Þess vegna hefur verið svolítið ánægjulegt að sjá að einkastöðvar hafa náð að vaxa við hliðina á Ríkisútvarpinu.

Hins vegar má velta því fyrir sér hver sú samsuða er og ég er tilbúinn til þess að fara í þá umræðu með hv. þm. á öðrum nótum en hv. þm. hefur yfirleitt fjallað um þau mál.