Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 15:35:17 (8192)

2004-05-14 15:35:17# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Síðustu orðaskiptin um Skjá 1 vöktu athygli mína. Ég hlustaði á viðtal við forsvarsmann þess fyrirtækis. Hann bar sig mjög illa undan samkeppninni á þessum markaði. Hann minnti mig dálítið mikið á kaupmennina á horninu sem kvörtuðu fyrir nokkrum árum yfir því að samkeppnin við stóru fyrirtækin á markaðnum hefði farið illa með þá. En straumur tímans verður ekki stöðvaður í þessu. Samkeppnisþjóðfélagið er óvægið. Skjár 1 hefur sjálfur tekið þátt í þessari samkeppni. Skemmst er að minnast þess að þar voru þeir ekki blankari en svo að þeir spenntu upp verðið á því að fá að senda út knattspyrnukeppni. Aðrar stöðvar halda því fram að það sé ekki nokkur grundvöllur fyrir því verði. Það er því umhugsunarefni hvort taka eigi allt of mikið mark á því í þessari umræðu þegar kvartað er undan samkeppni á markaðnum.

Ég hélt aðra ræðu hér fyrr og ætla ekki að hafa ræðu mína núna mjög langa. Mig langar í upphafi að segja það að siglingin á hæstv. forsrh. í þessu máli hefur minnt mig dálítið á sögu sem ég las einu sinni um hvíta hvalinn, Moby Dick. Mér finnst sem þessi sigling hafi hafist einn bolludaginn og hef sagt það áður. Það var þannig með skipstjórann í sögunni af Moby Dick að hann var hvalveiðimaður og ætlaði að drepa hval. Hann lenti í návígi við hvalinn og svo illa vildi til að hvalurinn slapp en hafði áður bitið fótinn af skipstjóranum. Þetta var mikill missir fyrir skipstjórann og einhvern veginn þá gat hann aldrei gleymt þessu. Hann fylltist miklum hefndarhug og sigldi með áhöfn sinni um heimsins höf og elti hvalinn. Áhöfnin var pískuð áfram í þessum eltingarleik við hvalinn og hefndarhug skipstjórans, allt þar til þeir komust í færi við hvalinn. En viðureignin endaði þannig að skip og skipstjóri týndust í hafið. Ekki ætla ég að spá þessari siglingu því sama. En mér finnst einhvern veginn að leiðangurinn sem hér er farinn og náð hefur alla leið inn á Alþingi beri meiri svip af hefndarhug en hollt getur verið.

Mig langar að fara yfir nokkur atriði í þessu frv. og útvarpslögin, þ.e. 6. gr. útvarpslaga, eins og hún virkar að mínu viti eftir að búið er að breyta henni með þeim hætti sem hér er til stofnað. Í 1. málsgr. 6. gr. laganna segir:

,,Til útvarps, sem á uppruna sinn hér á landi, þarf leyfi útvarpsréttarnefndar, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum, sbr. lög um Ríkisútvarpið.``

Þetta þýðir að reglurnar sem við erum að tala um gilda einungis um dagskrá eða útvarp sem á uppruna sinn hér á landi. Það hefur svo komið fram í þessum umræðum og verið dregið vel fram að hér er á boðstólum gífurlega mikið af efni, margar sjónvarpsstöðvar sendar út, sem þessi ákvæði heyra ekki undir. Þannig að við erum einungis að fást við þann lista hluta af því sjónvarpsefni sem fólk getur haft aðgang að á Íslandi núna og mun verða ennþá meira í framtíðinni, með þeim lögum sem hér er talað um að setja.

Í greininni, eins og meiri hluti allshn. vill hafa hana eftir að hafa fjallað um málið, stendur:

,,Óheimilt er að veita leyfi til útvarps til fyrirtækis sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur fjölmiðlarekstri.``

Það kom fram í skilgreiningu í skýringunum með sjálfu frumvarpinu, að mig minnir, að þar væri um að ræða fyrirtæki sem hefði sem svaraði til meira en 50% umfangs síns í öðru en fjölmiðlarekstri, að þá ætti það ekki kost á að fá útvarpsleyfi.

Ég skil það svo að fyrirtæki sem hafa útvarpsleyfi verði þá að gæta þess að vera ekki í starfsemi sem verður meiri en 50% að heildarumfanginu hjá viðkomandi fyrirtæki.

Allshn. breytti þessari 1. gr. lagafrumvarpsins, eða gerir tillögu um það, með þeim hætti að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu sem séu undir tveimur milljörðum í veltu skuli geta fengið útvarpsleyfi. Skilgreiningin á því hvernig veltan er reiknuð er, með leyfi forseta:

,,Telja skal með veltu móður- og dótturfyrirtækja fyrirtækja innan sömu fyrirtækjasamstæðu og fyrirtækja sem markaðsráðandi fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðan hefur bein eða óbein yfirráð yfir.``

Hér er sem sagt allt talið, eða hvað? Ég lít svo á. Líka eign í sjálfum fjölmiðlinum. Ég get ekki lesið annað úr þessu orðalagi en að um það sé að ræða. Hafi menn lesið þetta þannig að 2 milljarða kr. velta liggi til grundvallar þá skreppur saman sá fyrirtækjahópur sem getur átt í fjölmiðlum, t.d. ef við segjum að um sé að ræða fjögur fyrirtæki, sem fæst geta verið eigendur að fjölmiðli. Það er augljóst að með því að leggja veltu fjölmiðlafyrirtækisins við aðra veltu fyrirtækisins verður ekki um að ræða 2 milljarða kr., eftir að fyrirtækið hefur tekið þátt í rekstri fjölmiðilsins, nema taka þá veltu með í reikninginn. Ef við t.d. hugsum okkur umfang Norðurljósa, sem eru 6 milljarðar kr. eða svo, þá mundu fyrirtækin fjögur sem eignuðust Norðurljós ekki mega hafa hærri veltu en 600 millj. kr. eða eitthvað svoleiðis. Við erum þá að útiloka frá eignarhaldi á fjölmiðlum öll fyrirtæki sem hafa eignarhlut fram yfir einhverjar svona tölur, eftir því hvaða virði er í viðkomandi fjölmiðli.

Ég er ekki viss um að menn hafi áttað sig á þessu. Ég tel að með því að þessi ákvæði hafi þá afleiðingu að fyrirtæki sem velta 500--600 millj. kr. á ári og þar fyrir neðan geti ekki tekið þátt í fjármögnun svona fyrirtækis að neinu marki þá séum við að þrengja þennan hóp og fækka mjög þeim aðilum sem lagt geta fé í fjölmiðlafyrirtæki. Þeir verða smærri og ólíklegri til að vilja taka þátt í þessum rekstri. Einnig vegna þess skerðingarákvæðis sem þarna er, þ.e. að þau fyrirtæki mega ekki hafa annað að aðalmarkmiði en að reka fjölmiðilinn. Þau geta ekki sett áhættufé í fjölmiðlarekstur með sama hætti og fyrirtæki eru að gera heldur verða þau að hafa fjölmiðlarekstur að aðalmarkmiði. Annað umfang má ekki fara yfir 50% markið.

[15:45]

Að mínu viti er þrenging af þessu tagi mjög alvarleg. Ég hef áður fjallað um prentfrelsið í tengslum við þetta mál. Hér stendur:

,,Jafnframt er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef það eða fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu er útgefandi dagblaðs, á hlut í útgefanda dagblaðs eða það er að hluta eða öllu leyti í eigu slíks fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu.``

Þetta hef ég kallað brot á prentfrelsinu og nota gömlu skilgreininguna sem menn notuðu hér áður. Í stjórnarskrá lýðveldisins, áður en hún var endurskoðuð árið 1995, var í 72. gr. stjórnarskrárinnar talað um prentfrelsi. Sú grein var svona, með leyfi forseta:

,,Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti; þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða.``

Þegar stjórnarskráin var endurskoðuð var þessu ákvæði breytt. Nú er ekki talað um prentfrelsi þar en því var ekki breytt með það í huga að rýra rétt manna til þess að gefa út á prenti heldur til að það væri ljóst að um væri að ræða réttindi manna til að setja hugsanir sínar fram, ekki bara á prenti, heldur með öllum hætti. Nú lítur ákvæðið sem er í stjórnarskránni þannig út, hæstv. forseti:

,,Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.``

Svona er ákvæðið orðað núna í stjórnarskránni. Ég tel að þetta orðalag sé ekki síður skýrt og ákveðið en það var í hinni eldri útgáfu stjórnarskrárinnar.

Það er ljóst í mínum huga að með því að setja í lög það sem hér stendur til munu einhverjir, í þessu tilfelli fyrirtæki sem reka fjölmiðla, ekki hafa rétt til að gefa út blöð. Með því eru þau réttindi tekin frá þeim sem getið er um í stjórnarskránni. Það er gert með því að hegna fyrirtækjunum með því að taka af þeim útvarpsleyfið ef þau fara að gefa út blöð. Við getum séð fyrir okkur hvaða ferill kemur upp. Fyrirtæki sem eiga fjölmiðil gefa út blað, því að ekki þarf til þess neitt leyfi, útvarpsréttarnefnd tekur af þeim leyfið til að útvarpa á grundvelli þessa ákvæðis sem hér er sett fram og á að verða að lögum. Í kjölfarið fara fram málaferli sem að mínu viti geta ekki leitt til annars, á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar, en að það verði gert ómerkt sem menn ætla að gera.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að tala meira um þetta. Það er annað sem mig langar að fjalla um í þessari ræðu minni. Núna stendur í útvarpslögunum:

,,Útvarpsréttarnefnd getur veitt lögaðilum og einstaklingum tímabundið leyfi til útvarps.``

Það er sem sagt ljóst að tvenns konar aðilar geta fengið leyfi, annars vegar einstaklingar og hins vegar fyrirtæki. Lagatextinn sem hér liggur fyrir fjallar eingöngu um fyrirtæki. Allar skorðurnar sem settar eru í frv. sem hér liggur fyrir snúast þess vegna um fyrirtæki. Vegna þess að það stendur í útvarpslögum að hægt sé að veita lögaðilum og einstaklingum leyfi til útvarps þá er að mínu viti augljóst, samkvæmt þessum lagabókstaf, að ákvæðin í frumvarpinu beinast ekki að einstaklingum. Þar er hvergi talað um einstaklingana. Í útvarpslögum er hins vegar ákvæði um að einstaklingar geti fengið útvarpsleyfi.

Að mínu viti er þetta mikið umhugsunarefni af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að reglurnar sem hér stendur til að setja þrengja mjög að því að fyrirtæki geti fengið útvarpsleyfi, eins og ég lýsti áðan. Á hinn bóginn er yfirlýstur tilgangur þeirra sem tala fyrir því máli sem hér er á dagskrá sá að koma í veg fyrir samþjöppun, eignasamþjöppun og einsleitni á þessum markaði. Þeir hafa talað um að setja skorður við eign fyrirtækja í fjölmiðlum. Það er sem sagt þannig að ef einstaklingur ákveður að nota nafn sitt til að eiga fjölmiðil, hefur til þess afl og hefur allar eigur sínar á eigin nafni og rekstur sem hann hefur með höndum, þá má hann eiga 100% í fjölmiðli. Þá gilda ekki heldur um hann þau ákvæði sem ég fór yfir áðan, sem ég tel brjóta gegn prentfrelsinu. Það er ekki heldur talað um að einstaklingum sé bannað að eiga dagblöðin.

Velkomin á markaðinn Murdoch Íslands. Þeir sem eiga fjármuni á eigin nafni og kaupa fjölmiðla á Íslandi mega, ef þeir reka allt sitt í eigin nafni og ekki undir fyrirtækisheiti, eignast alla fjölmiðla sem tiltækir eru á markaðnum og gefa út öll blöð sem þeim sýnist. Ég held því ekki fram að þetta sé nú heppilegt en ég held því fram að það geti ekki verið að þeir sem bera fram þetta frv. hafi viljað slíkt ástand. Þess vegna er ástæða til að spyrja um með hvaða hætti menn fjölluðu um þetta og hvernig þeir komust að þeirri niðurstöðu að þetta gæti allt saman staðist.

Með því að lesa frv. hef ég komist að þessari niðurstöðu. Það kann vel að vera að menn hafi við þessu svör, þá verð ég sjálfsagt leiðréttur. Hæstv. forsrh. leiðrétti mig við 1. umr. málsins vegna þess að ég hafði við lestur frv. komist að þeirri niðurstöðu að þessar reglur hlytu að þurfa að gilda fyrir alla, líka einstaklingana, og einstaklingar gætu þess vegna ekki fengið útvarpsleyfi vegna þess að þeir væru þar með komnir undir aðrar reglur en þarna er talað um. Ég hélt þessu fram í ræðu minni en var leiðréttur af hæstv. forsrh. og hef því ekki ástæðu til að ætla að sú niðurstaða sem ég hef nú komist að sé röng.

Hæstv. forseti. Til viðbótar ætlaði ég að tala um það að mér finnst að við þurfum mjög langa og ítarlega umræðu um fjölmiðlun á Íslandi og aðgang að henni, í samhengi við nútímann. Við höfum á markaðnum fjölmargar íslenskar sjónvarps- og útvarpsstöðvar en enn þá fleiri erlendar sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Engri af þeim reglum sem hér er um fjallað er ætlað að taka neitt á því. Ég er ekki að leggja til að það verði gert en legg hins vegar til að menn fari yfir þessi mál með það í huga að reyna að átta sig á því hvort hér sé ekki um að ræða fortíðarhugsun sem verði bókstaflega spaugileg innan skamms tíma. Nútíminn er óumflýjanlegur. Aðgangur manna á Íslandi, án hamla, að mörgum rásum og sjónvarpsrásum sem fer fjölgandi er svo mikill að boðvaldsreglur á útsendingar íslenskra fyrirtækja verða undarlegar í því ljósi.

Eins og ég sagði, hæstv. forseti, þá er ég búinn að fara yfir málin í fyrri ræðu minni og vísa til þess sem ég hef sagt þar. Ég ætla ekki að endurtaka það hér.

Í lokin langar mig að segja að viðbrögð almennings við þessu frv. hafa verið mikil. Að mínu viti eru þau til komin af einni meginástæðu. Það er vegna þess að fólkið í landinu lítur þannig á að starfsemi bæði sjónvarps og útvarps Norðurljósa sé þjónusta sem það vill hafa. Fólk hafði áhyggjur af þessari þjónustu fyrir stuttu, að þetta fyrirtæki mundi velta um koll og að á markaðnum yrði ekki stöð í sambærilegum gæðaflokki og stærð og Norðurljós hafa verið. Þegar í ljós kom að fjárhagslega sterkur aðili vildi hjálpa til við að rétta þetta fyrirtæki við og setja síðan á markað, eins og síðar kom fram, urðu menn því fegnir. Þegar menn sáu að það virtist ætla að takast var mönnum létt. En þegar ríkisstjórnin mætti til leiks með þetta frv., sem við höfum hér til umræðu, þá fengu menn áfall. Það hefur ekki verið hægt að skýra með neinum skynsamlegum hætti í sölum Alþingis að við geti tekið fyrirtæki sem hefur fjárhagslega burði, undir þeim leikreglum sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að setja á með frv.