Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 15:58:37 (8193)

2004-05-14 15:58:37# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ósammála ýmsu í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar en læt mér nægja að gera sérstakar athugasemdir við eitt atriði. Ég held að í því hafi falist ákveðinn misskilningur á frv. Hann lagði út af, ef ég skildi hv. þm. rétt, því að engar hömlur væru á því hvað einstaklingur gæti átt í ljósvakamiðlum miðað við frumvarpstextann. Hann vísað til orða í a-lið 1. gr. þar sem segir:

,,Óheimilt er að veita leyfi til útvarps til fyrirtækis sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur fjölmiðlarekstri`` o.s.frv., en alltaf er talað um fyrirtæki í greininni.

Það sem kann að valda þessum misskilningi er að notað er orðið ,,fyrirtæki``, enda vísar það ekki til manna í venjulegu tali. Hins vegar segir um þetta í athugasemdum við einstakar greinar frv.:

,,Hugtakið fyrirtæki er hér notað í sömu merkingu og í samkeppnislögum þar sem það tekur til einstaklinga, félaga, opinberra aðila og annarra, sem stunda atvinnurekstur, sbr. 4. gr. laga nr. 8/1993.``

Þetta þýðir að ef einstaklingur, t.d. eins og Murdoch af því hv. þm. nefndi hann sérstaklega, sem er auðmaður vill eiga fjölmiðla þá telst hann fyrirtæki í skilningi þessa frv. Ég held að það vandamál sem hv. þm. vísaði til sé ekki fyrir hendi miðað við frumvarpstextann.