Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 16:04:27 (8197)

2004-05-14 16:04:27# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir frumvarpið og nefndarálit minni hluta allshn. Eins minntist ég á till. til þál. um könnun á starfsumgjörð fjölmiðla sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, varamaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, var fyrsti flutningsmaður að. Sú tillaga var lögð fram fyrir síðustu áramót og hún sýnir glöggt að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum haft ákveðið frumkvæði við að koma að þeirri hugmynd að skoða þurfi starfsumgjörð fjölmiðla.

Við höfum haft áhyggjur af þeirri þróun sem orðið hefur á mjög skömmum tíma, m.a. því hvernig eignarhaldið hefur þjappast saman. Í því felst engin áfellisdómur á þá sem reka þá fjölmiðla í dag en það er betra að byrgja brunninn áður en barnið fellur ofan í hann. Við getum litið til þess sem hefur gerst í öðrum löndum --- Ítalía er frægt dæmi --- þegar lagaumhverfið hefur boðið upp á að eignarhald á fjölmiðlum færist á fáar hendur eða til aðila sem hafa verið markaðsráðandi á öðrum sviðum. Miðað við þróunina hjá okkur, bæði á fjölmiðlamarkaðnum, í smávöruverslun, í heildsölu og víðar þar sem rekstraraðilar verða stærri og sterkari og öflugri, stundum til góðs og stundum ekki, þá verðum við að vera vakandi og skoða þetta umhverfi vandlega. Er þetta það sem við viljum? Viljum við að hugsanlega verði hér innan skamms tíma Ríkisútvarpið, vonandi kemur ekki til þess að það verði einkavætt, og einn stór og sterkur aðili meirihlutaeigandi í einkarekstrinum sem er þar fyrir utan?

Í dag eru nokkur fyrirtæki á ljósvakamarkaði en þar er mikil samkeppni og mikill áhugi á að verða þar ráðandi. Ísland er fámennt, við erum lítill markaður og auðvitað er erfitt að berjast innan þess markaðar um tekjur. Tekjurnar koma annaðhvort af áskrift eða auglýsingum, sem gefa mestu tekjurnar. Það segir sig sjálft að þetta er ekki stór biti og ekki miklir fjármunir til að margir aðilar geti verið ráðandi. Samkeppnin á þessum markaði er hörð. Þá er spurningin: Hvernig viljum við hafa leikreglurnar til að tryggja að þetta fari ekki á versta veg? Ég vil enn og aftur taka fram að við erum tilbúin í þessa vinnu.

Mér fannst ræða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hann flutti í gær mjög athyglisverð. Hann stóð með okkur stjórnarandstöðuþingmönnum í að mótmæla því að hér hefði farið fram málþóf þótt þessi umræða hafi staðið í nokkra daga. Ef menn hafa hlustað á ræðurnar sem hér hafa verið fluttar þá vita þeir að þær hafa verið málefnalegar og hann tók undir það.

Málið er þetta: Þegar þingmál er lagt fram með þeim hætti sem hér hefur verið gert, að samstarfsflokkur hæstv. forsrh. kom ekki að undirbúningi málsins, hvað þá aðrir, þá er ekki von á góðu. Einhvers staðar verður umræðan að fara fram. Hún hefur núna farið fram í þingsölunum, í fjölmiðlum og úti í þjóðfélaginu þessa fáu daga. Við tökum okkur allt of stuttan tíma til að gera svo veigamiklar breytingar.

Ég tek undir það að frumkvæðið að því að koma á þeirri vinnu sem hæstv. menntmrh. beitti sér fyrir, að setja saman skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, úttekt á stöðunni í dag og tillögur um hugsanlegar leiðir, hafi verið ágætt. Þessi skýrsla er til margs nýtanleg. En hún er ekki nægilegur grunnur til að fara út í löggjöf með svo stuttum fyrirvara, hvað þá þegar frv. tekur aðeins tillit til fárra atriða úr skýrslunni en ekki til heildarmyndarinnar. Skýrslan er fín og við skulum hafa hana til skoðunar áfram. Við skulum bara vinna málið betur og kalla fleiri að verkinu. Byggjum á þeirri umræðu sem farið hefur fram.

Ég finn að allir þingmenn eru tilbúnir til að leggja sig fram við að koma að málinu og vinna að þjóðarsátt um eignarhald á fjölmiðlum. En eigi svo að verða þá getum við ekki afgreitt þetta núna. Það er ekki mögulegt að leggja fram breytingatillögur við frumvarpið eða breytingartillögurnar. Í raun er málið ekki þingtækt eins og staðið hefur verið að því. Það þarf að fara í miklu fleiri þætti og ræða þá betur. Það er ekki til neins að koma með breytingartillögur.

Hvers vegna, frú forseti, eru menn að keppa um útvarps- og sjónvarpsrásir ef rekstur þessara fjölmiðla er jafnerfiður og lýst hefur verið? Hvers vegna eru menn þá að fjárfesta í fjölmiðlum? Það er vegna þess að eignarhald í fjölmiðlum gefur mönnum ákveðið vald. Það vald er vandmeðfarið. Ég er ekki að halda því fram að núverandi eigendur fjölmiðlanna sitji yfir ritstjórunum og ritstýri fjölmiðlunum, hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi eða blaðaútgáfu. Ég tel ekki að þeir stjórni daglegum rekstri frá orði til orðs. En þeir hafa áhrif og í þeim felast völd og eftir því keppa menn.

Áhrifin geta komið fram með ýmsum hætti. Það þarf ekki eingöngu að vera vegna tekna af auglýsingum. Þeir aðilar sem eiga fjölmiðla í dag berjast um auglýsingatekjurnar. Það að hafa mjög sterkan fjárfesti sem einnig er sterkastur á matvælamarkaðnum gefur ákveðið svigrúm til að hafa auknar auglýsingatekjur. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að samkeppnisstaða fjölmiðla á markaðnum er mjög mismunandi eingöngu vegna þessa. Ég tel að það sé vísbending um að við þurfum að setja leikreglur.

Völd og áhrif geta líka birst með fréttavali. Hverjar eru áherslurnar? Hvað er dregið fram? Hverju er ýtt til hliðar? Það eru líka völd. Í þeirri umræðu sem hér fer fram sýnist mér hún koma í ljós, valdabaráttan sem birtist í umræðunni um frv. Í dag birtast mismunandi áherslur í fjölmiðlunum eftir því hverjir eigendurnir eru. Við getum ekki horft fram hjá því.

Eins og frumvarpið er, þrátt fyrir breytingartillögurnar, hafa komið fram í fjölmörgum skriflegum umsögnum, þótt þær umsagnir hafi verið unnar með miklu hraði, hjá gestum sem komið hafa fyrir þingnefndir og í fjölmiðlum, alvarlegar ábendingar um að frumvarpið standist ekki stjórnarskrána eða aðra íslenska löggjöf, tilskipanir frá Evrópusambandinu og alþjóðlegar skuldbindingar.

[16:15]

Það að einhver vafi skuli leika á því að frv., þrátt fyrir breytingartillögurnar, geti stangast á við svo mikilvæga þætti á að segja okkur að geyma þetta. Við þurfum að skoða þetta. Við ættum ekki að þjösna í gegn frv. sem við höfum ekki meiri vissu um en þetta.

Það hefðu verið eðlileg og góð vinnubrögð að skoða alla þætti málsins áður en frumvarpið var lagt fram. Það var ekki gert eða virðist a.m.k. ekki hafa verið hlustað á það. Því ber okkur að gera það nú á milli 2. og 3. umr. eða leggja þetta frv. til hliðar.

Ég tel, eins og ég sagði áður, að undirbúningur að nýrri löggjöf um fjölmiðlarekstur á Íslandi verði að vera hafinn yfir flokkadrætti og hafinn yfir núverandi eigendur einkarekinna fjölmiðla. Við verðum að horfa til framtíðar og til nýrrar tækni. Við megum ekki vera rígbundin við stöðuna í dag við lagasetninguna, með frv. sem miðar eingöngu að því og láta pólitískan pirring stjórna ferð okkar. Það gengur ekki. Við eigum að vera yfir þetta hafin. Þegar við setjum lög þá eiga þau að gilda fyrir alla. Löggjöfin verður að lúta meðalhófsreglunni og vera réttlát. Það gengur ekki að hlaupa til vegna þess að mönnum finnist sér pólitískt, efnahagslega eða valdapólitískt misboðið eða ógnað. Hins vegar eigum við að fara í þessa vinnu. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum tilbúin til þess.

Að lokum, virðulegi forseti, legg ég til að þegar við höfum lokið 2. umr. þá taki allshn. málið aftur til sín og farið verði yfir umsagnir þeirra tveggja þingnefnda sem fengu málið til umsagnar, menntmn. og efh.- og viðskn. Taka þarf málið upp á ný með hliðsjón af þeim álitum og ábendingum sem komið hafa fram í umræðum á þingi. Síðan verði málinu frestað til haustsins. Við höfum þá sumarið og hugsanlega eitthvað fram á næsta vetur til að vinna það betur.

Hér hefur margoft komið fram að Norðmenn tóku sér fjögur ár til þess að láta umræðuna gerjast, fara yfir þetta, afleiðingarnar o.s.frv. Ég ætla ekki að fara yfir allt það ferli en málið þarf tíma. Vinna þarf að nýju frumvarpi út frá meðalhófsreglunni svo að það brjóti ekki stjórnarskrána og taka tíma til að vinna frv. Tíminn sem liðinn er frá framlagningu hefur sýnt okkur að margt kemur í ljós þegar menn fara að skoða málið.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur haft frumkvæði í málinu. Við viljum fara í þessa vinnu. Við höfum áhyggjur af þeirri samþjöppun sem orðið hefur á fjölmiðlamarkaði, líkt og á öðrum sviðum þjóðlífsins. Djúp gjá hefur myndast milli efnafólks og hins almenna launþega. Sú gjá er alltaf að breikka. Ef við ætlum að tala um fjölbreytni þá er ekki aðeins krafa um fjölbreytni á fjölmiðlamarkaðnum. Við þurfum líka að ræða um fjölbreytnina í þjóðlífinu, í atvinnu, í menntun o.s.frv. Með þessum sterku aðilum erum við að kalla á fábreytni en ekki fjölbreytni.

Við viljum leggja okkar af mörkum. Við bjóðum fram krafta okkar. Við viljum vinna að nýrri löggjöf með það að markmiði að ná þjóðarsátt um rekstrarumhverfið, um fjölbreytnina, um að auka framboð á íslensku efni, sérstaklega á ljósvakanum. Við viljum tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði allra fjölmiðla og Ríkisútvarpsins einnig. Við viljum ekki undanskilja það. Í því samhengi viljum við vinna að því að finna leiðir til að styrkja Ríkisútvarpið til að standa undir þeim skyldum sem það hefur í dag og þeirri menningarlegu stöðu sem það á að hafa.