Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 16:28:11 (8202)

2004-05-14 16:28:11# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Þuríður Backman (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum komin á byrjunarreit aftur. Ég tel að við séum langt komin í 2. umr. um þetta frv. Á þeim dögum sem við höfum tekið okkur í að ræða frv. hefur margsinnis verið kallað eftir þátttöku stjórnarliða. Hvernig kemst maður á mælendaskrá? Jú, í upphafi fundar gefur maður merki og svo eftir því sem maður vill komast að. Maður gefur um það merki. Ég veit ekki til þess, hæstv. forseti, að stjórn forseta sé með þeim hætti að hann taki stjórnarliða af stakri tillitssemi við stjórnarandstöðuna og setji þá neðst á listann. Það er ekki þannig. Allir komast inn á mælendaskrá þegar þeir biðja um orðið. Stjórnarliðum væri í lófa lagið að vera með okkur í umræðunni og komast inn á þessa löngu mælendaskrá.

Ég vil minna á að við umræðurnar í gær, þegar ljóst var að ekki hefðu nema tveir eða þrír af stjórnarliðum talað, að meðtöldum formanni allshn., þá buðum við upp á að þeir stjórnarliðar sem gæfu sig fram og vildu koma inn í umræðuna hefðu forgang, við mundum hleypa þeim framar á mælendaskrána. (DrH: Ætlið þið að stjórna því?) Við vorum tilbúin ... (DrH: Ætlið þið að stjórna því?) Við buðum forseta upp á að taka tillit til þess að það væri löngu komið að stjórnarliðum og þeir kæmust fyrr á mælendaskrá ef þeir óskuðu. Hins vegar kemur til greina, þó maður sjái 23 á mælendaskrá, að setja sig neðstan. Einhvern tímann kemur að manni.