Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 16:30:29 (8203)

2004-05-14 16:30:29# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Mér skilst að alveg sérstaklega hafi verið kallað eftir því af þingmanni Samf. í umræðum hér síðla í gærkvöldi að ég mundi tala. (Gripið fram í: Og þótt fyrr hefði verið.) Ég verð að viðurkenna að ég fagna því. Ég hef haft ýmis samskipti við Samf., bæði þingmenn hennar og borgarfulltrúa, og það er alveg ný upplifun fyrir mig að menn biðji sérstaklega um að ég ræði málin úr þessu horni. Fram til þessa hafa þeir kvartað nokkurn veginn í hvert einasta skipti sem ég hef komið hingað upp. Ég býst við og met það svo að hér sé um enn eina stefnubreytinguna hjá Samf. að ræða, þó að það sé kannski í mikilvægu máli, og býst fastlega við því að þau taki því vel þegar ég tek til máls hér á þingi og annars staðar.

Ég held að hér sé um afskaplega mikilvægt mál að ræða. Það væri æskilegt og gott ef menn kæmust inn á það að fara að ræða um efnisatriði málsins. Það verður fróðlegt fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að skoða það, fara yfir það þegar þar að kemur. Ég held að þetta verði pottþétt eitthvað sem menn munu staldra við. Menn munu skoða fréttaflutninginn og hvort sem verður í blöðum, ljósvakanum eða umræðum á Alþingi held ég að 90%, jafnvel 95%, umræðunnar séu um eitthvað allt annað en efni málsins. Það er ótrúlegt að í þau fáu skipti sem maður hefur haft tækifæri til að ræða þetta á einhverjum vettvangi --- það kemur mjög á óvart miðað við það umfang sem málið hefur fengið hvað umræðan um efnisatriðin hefur komist lítið áleiðis. Ég var í ágætum útvarpsþætti áðan með nokkrum öðrum viðmælendum. Það var greinilegt að þar var fullt af misskilningi í gangi um einhverja hluti sem maður áttaði sig engan veginn á að gæti verið einhver misskilningur um eða að menn áttuðu sig ekki á.

Það er eðlilegt að spyrja í máli eins og þessu: Af hverju eru menn að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum? Það er mjög eðlileg spurning, grundvallarspurning. Niðurstaða flestra sem skoða þau mál er sú að menn vilja sjá dreifða eignaraðild, að því leytinu til þó sérstaklega að við séum ekki með sömu eigendagrúppuna. Þá skiptir engu máli hvaða aðilar það eru, þeir mega ekki vera með allt of stóran hlut af kökunni. Það er ekkert í hróplegu ósamræmi við það sem gerist og gengur annars staðar í atvinnulífinu. Það eru margs konar skorður sem við setjum til að ná því markmiði í atvinnulífinu almennt en það er kannski sýnu mikilvægara að gera það í fjölmiðlum.

Ef maður talar bara um hlutina eins og þeir eru vitum við að þegar við skoðum fréttir dagsdaglega, lesum fréttir, hefur maður eðli málsins samkvæmt engan sérstakan tíma til að fara yfir og skoða nákvæmlega hvað býr að baki. Maður verður að geta treyst því sem stendur í fjölmiðlum. Það er engin trygging fyrir því að svo sé, alveg sama hvort það er ríkisfjölmiðill eða frjáls fjölmiðill, hver ritstýrði eða hver á hann o.s.frv. Við höfum enga tryggingu fyrir slíku. Það er þó betra og öruggara fyrir mann, almennan þegn, að vita til þess að þeir eru þó nokkrir. Það eru nokkrar eigendagrúppur sem vonandi gagnrýna þá hver aðra ef svo ber undir og veita hver annarri aðhald. Ef það er bara einn aðili sem segir okkur fréttir höfum við ekki mikið val. Ef þið bara skoðið blöðin, farið í gegnum þau á hverjum degi og gegnum fréttirnar vitið þið að það er ótrúlegt magn af upplýsingum sem við fáum. Það er enginn sem hefur þann tíma, sem betur fer --- menn hafa nóg annað að gera --- að fara í gegnum það allt saman og kanna hvernig þau mál standa.

Svo sannarlega er það þannig að alveg eins og fólk er misjafnt eru fjölmiðlamenn misjafnir, sem betur fer, og alveg eins og stjórnmálamenn, hv. þm. Jóhann Ársælsson og allir aðrir einstaklingar. Það eru engir tveir eins sem betur fer. (KLM: Hverjir eru stærstir?)

Það er líka einn þáttur í þessu sem snýr kannski sérstaklega að íslensku þjóðfélagi, og það hefur verið nefnt, að við horfum fram á það og það er eðlilegt ástand að mínu áliti --- við höfum ekkert val í því, það er ekki markmið en það er eðlilegt ástand --- að vegna smæðar okkar, vegna smæðar markaðarins, verðum við með miklu fleiri markaðsráðandi aðila en gengur og gerist annars staðar. (Gripið fram í.) Það er eitthvað sem liggur fyrir. Bara þegar menn eru komnir í ákveðna stærð, fyrirtæki, geta veitt ákveðna vöru og þjónustu á einhverju verði sem við æskjum eru þau oft og tíðum orðin markaðsráðandi. Þess vegna er mjög mikilvægt að þessir aðilar stjórni ekki umræðunni um sjálfa sig. Þeim þarf að veita aðhald eins og öllum öðrum, eins og okkur stjórnmálamönnunum og flestu í þjóðfélaginu. Það er enginn hafinn yfir gagnrýni. Ekki nokkur einasti aðili.

Þetta er ástæðan fyrir því að menn eru í rauninni að fara út í þetta. Að gamni mínu vil ég aðeins lesa hvaða rök Samf. færði fyrir nauðsyn þessa áður en hún tók U-beygju í sínum málum. (Gripið fram í: Hver eru þín eigin?) (Gripið fram í.) Ég heyri að það fer um þessa ágætu hv. samfylkingarmenn sem hér sitja en ég vona bara að þeir haldi ró sinni. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér upp úr nokkrum ummælum hv. þingmanna Samf. Hér les ég upp úr ummælum hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur frá 19. nóvember 2003. Þar segir:

,,Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að taka sérstaklega á eignarhaldinu og að fjölmiðlarnir verði í mismunandi eða fjölbreyttri eignaraðild. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá frétta...`` (MÁ: ... umræðu, Guðlaugur Þór.) Virðulegi forseti. Er einhver leið að hemja hv. þingmann meðan ég les þetta þannig að fólk geti þá heyrt hvað ég er að segja? (MÁ: ... af þessari umræðu.) Það er augljóst að hv. þingmanni finnst mjög leiðinlegt að ég lesi upp úr því sem frá þeim kemur. (MÁ: ... umræðan um það Björn Bjarnason sagði.)

(Forseti (JBjart): Forseti biður þingmenn um að halda aftur af sér svo að þeir trufli ekki ræðumann.) (Gripið fram í: ... skulum gera.)

Það gæti kannski verið hugmynd fyrir einhvern þingmann að fá hv. þm. Mörð Árnason til að vera ræðuskrifara sinn en ég er ekki í þeim hópi sem hefur áhuga á því þannig að ég ætla bara að semja ræður mínar sjálfur. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Er einhver leið að ... (MÁ: ... stjórnina ...) Viðkvæmni Samf. fyrir því að maður lesi upp úr þeirra eigin orðum er alveg ótrúleg. (Gripið fram í.) Þó að virðulegur forseti hafi reynt að að róa hv. þm. Mörð Árnason og Einar Má Sigurðarson er það hið erfiðasta mál. Ég ætla að hinkra og gá hvort þið róist ekki. (MÁ: Ég er rólegur.) (Gripið fram í: ... fá meiri uppfærslu.) (Gripið fram í: Sigurður Kári ...)( Gripið fram í: ... fá hann?)

Virðulegi forseti. Ég hef þá lesturinn aftur og það eru aftur orð Margrétar Frímannsdóttur, eitt sinn talsmanns Samf. Sá ágæti þingmaður sagði, með leyfi forseta:

,,Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að taka sérstaklega á eignarhaldinu og að fjölmiðlarnir verði í mismunandi eða fjölbreyttri eignaraðild. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá fréttastofunum ef tryggð er dreifð eignaraðild og mismunandi eignaraðild á fjölmiðlunum.`` --- Ég vil lesa þetta aftur, sérstaklega fyrir hv. þm. Einar Má Sigurðarson:

,,Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá fréttastofunum ef tryggð er dreifð eignaraðild og mismunandi eignaraðild á fjölmiðlunum.``

Svo vil ég vísa í orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem segir, með leyfi forseta:

,,Fákeppni og samþjöppun valds er líka að verða meira áberandi í fjölmiðlastarfsemi sem er vissulega mjög varhugavert fyrir lýðræðið og eðlilega skoðanamyndun í landinu.``

Annar hv. þm. Samf., Guðmundur Árni Stefánsson, segir, með leyfi forseta:

,,Það gefur augaleið að ritstjórnarstefna þessara fjölmiðla tekur beint og óbeint mið af eigendum sínum, ekki með beinum hætti endilega, heldur einfaldlega með markaðslegum sjónarmiðum.``

Bara aftur fyrir hv. þm. Mörð Árnason:

,,Það gefur augaleið að ritstjórnarstefna þessara fjölmiðla tekur beint og óbeint mið af eigendum sínum ...`` (MÁ: Hvað er þetta, úr Mogganum?) (Gripið fram í.)

Síðan er hér einnig frá ágætum þingmanni, hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, sem segir:

,,Það ber einnig að rannsaka fjárhagslega tengingu fjölmiðlafyrirtækja við önnur fyrirtæki því það er augljóst að slík tenging hefur bein áhrif á tjáningarfrelsið.``

Þetta er alveg sérstaklega fyrir hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem því miður er ekki núna í salnum. Ég vil lesa það samt aftur af því að ég er ekki viss um að hv. þm. Einar Már Sigurðarson hafi náð þessu alveg:

,,Það ber einnig að rannsaka fjárhagslega tengingu fjölmiðlafyrirtækja við önnur fyrirtæki því það er augljóst að slík tenging hefur bein áhrif á tjáningarfrelsið.``

Þetta eru röksemdir Samf. fyrir nauðsyn þess að setja lög um eignaraðild á fjölmiðlafyrirtækjum. Við þekkjum það að oftsinnis hafa menn hér komið upp frá Samf. og krafist þess að fyrirtæki verði skipt upp, þó að sé ekki endilega fjölmiðlafyrirtæki. Við erum að tala t.d. um Baug. Það er nú fræg orðræða hér þegar formaður Samf. fór þess á leit við forsrh. að hann gerði það.

Við getum skoðað hvort þetta sé algjört einsdæmi í íslenskri löggjöf. Er frv. sem hér liggur fyrir alveg nýtt, eitthvað sem við höfum aldrei séð áður, að við séum með slíkar leikreglur í atvinnulífinu? Er það kannski svo? (Gripið fram í.)

Nefna dæmi, sagði hv. þm. Hér er ég t.d. með lagabálk sem þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir og var samþykktur 20. desember 2002, lög um fjármálafyrirtæki. Það eru 115 greinar. (Gripið fram í.) Hér er svo sannarlega, virðulegi forseti, um að ræða ýmsar kvaðir. Það er ekki eins og að þeir aðilar, þau fjármálafyrirtæki, hafi ekki fundið fyrir þessu með einum eða öðrum hætti. Ástæðan fyrir því að menn fóru út í þessa löggjöf, sem er sambærileg við það sem gengur og gerist annars staðar, er að menn töldu að með þessu væri verið að vernda frelsið, meðal annars, menn væru að vernda fólkið í landinu. Menn komu því sem þeir kalla dagsdaglega kínamúra innan stofnana --- t.d. er fjármálafyrirtækjunum óheimilt að reka önnur fyrirtæki eins og þekkt er. 115 greinar, virðulegi forseti.

Önnur löggjöf sem þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir er samkeppnislöggjöfin. Þar er þetta svo sannarlega (EMS: ... fyrir þig?) --- svo sannarlega eru ýmsar reglur fyrir atvinnulífið, íþyngjandi reglur, og mörgum hefur þótt nóg um. Svo sannarlega er þetta ekki hafið yfir gagnrýni, þessi lagabálkur. Þarna var það sama, menn töldu sig vera að setja ákveðnar leikreglur til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.

Bara í morgun, virðulegi forseti, stýrði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson iðnn. þar sem við vorum að klára mál sem fól í sér að við vorum að skipta upp fyrirtæki, nánar tiltekið Landsvirkjun. Við gengum frá í okkar nefnd tillögu um það, frv. að því, að kljúfa það fyrirtæki upp, og önnur, og búa til almennar leikreglur á orkumarkaðnum, sambærilegar þeim sem menn hafa gert í öðrum löndum. Við þekkjum það í sjávarútvegsmálunum að þar erum við með ýmsar kvaðir, m.a. með hámarkseign á kvóta og öðru slíku. Nú skyldu menn alltaf fara varlega í þessum málum.

[16:45]

Ég vek athygli á því að þegar þau lög voru sett var engin slík ,,affera`` í fjölmiðlum. Það var alls ekki svo að þingflokkur Samf. færi hér hamförum út af því, hvað þá þingflokkur Vinstri grænna. Virðulegi forseti. Ég varð ekki var við það og þykist nú fylgjast þokkalega með stjórnmálum. (Gripið fram í: Hvað með Frjálsl.?) Hv. þm. spurði um Frjálsl. Ég verð að viðurkenna að enda þótt Frjálsl. sé alltaf að verða meira og meira áhugamál mitt man ég ekki nákvæmlega hver afstaða þeirra var í þeim málum, en ég efast um að þar hafi verið höfð stór orð uppi, a.m.k. liggur það alveg hreint klárt fyrir að það var ekkert í líkingu við það sem við sjáum nú. Það er algjörlega hreint og klárt.

En gæti verið að þessi fjölmiðlalöggjöf sé miklu strangari og með meiri kvaðir en gengur og gerist í hinum stóra heimi, (Gripið fram í: Já.) í þeim vestrænu löndum sem við berum okkur saman við? Ef svo er, virðulegi forseti, þá eru menn bara að segja einhverja tóma þvælu í skýrslunni. Ég vil biðja menn, bæði fjölmiðlamenn og aðra áhugamenn um málið, að skoða sérstaklega bls. 73--79 og fara aðeins yfir hvernig reglur eru í öðrum löndum. Ég fullyrði að þetta módel, sú staða sem við erum með uppi hér, gengi hvergi þar.

Hv. þm. Jóni Gunnarssyni er farið að líða illa undir þessari ræðu og ég skil það vel og kallar ,,en Ríkisútvarpið, en Ríkisútvarpið``. Það virðist vera að í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við sé ríkisútvarp að undanskildum Bandaríkjunum. Ég ætla aðeins, með leyfi virðulegs forseta, að fara yfir hvernig þetta lítur út í þessum löndum.

Fyrst aðeins varðandi stöðuna hér. Við erum með Ríkisútvarp þar sem hljóðvarpið er með 52% hlustun og sjónvarpið með 73% áhorf. Síðan erum við með Norðurljós þar sem hljóðvarp er með 44% hlustun og sjónvarp með 37% áhorf. Fréttablaðið með 70% lestur, DV í kringum 20%, það stendur 17% í skýrslunni --- ég var leiðréttur af forsvarsmönnum DV í þætti áðan, það er víst komið upp í 21%, Morgunblaðið með 56% og Skjár 1 21%. (MÁ: Þetta er ekki sami markaðurinn, það á að bera saman sambærilegar tölur ...) Hv. þm. Mörður Árnason er að væna mig um að gera eitthvað annað en að lesa upp úr þessari skýrslu. Ég vil bara biðja hv. þm., virðulegi forseti, að kynna sér efni skýrslunnar. Ef ég hef farið rangt með eitthvað skal ég fúslega leiðrétta það því ég hef engan áhuga á því, og mér þætti mjög gott ef hér væri komin efnisleg umræða um málið.

Förum þá aðeins yfir hin löndin. Hvernig lítur þetta út í Bandaríkjunum? Þar er hámarksáhorf á sjónvarp á landsvísu 35%. Við erum að tala um Bandaríkjamenn sem eru 300 milljónir hvorki meira né minna. Þeir eru með stranga löggjöf hvað þetta varðar. Þar eru menn með kapalsjónvarp og hámarksáhorf 30%. Viðkomandi aðilar mega ekki eiga fleiri hljóðvarpsstöðvar en 20 AM- og 20 FM-stöðvar, sem er náttúrlega ekki nokkur skapaður hlutur í því stóra landi. Viðkomandi mega ekki eiga meira en 40% af rásunum sem kerfið ber. Og ef við förum í eitthvað sem er kannski nær okkur þó að það sé samt sem áður stærra, þ.e. héruðin. Hér er um héraðshljóðvarpsstöðvar að ræða, mjög nákvæmar reglur gilda um eignarhald á fleiri en einni héraðshljóðvarpsstöð innan sama héraðs. Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka þetta. Mjög nákvæmar reglur gilda um eignarhald á fleiri en einni héraðshljóðvarpsstöð innan sama svæðis.

Um sjónvarp á ákveðnu svæði. Meginreglan er ein stöð en, virðulegi forseti, tvær ef til staðar eru átta. Ef til staðar eru átta sjálfstæð fyrirtæki eru tvær í lagi. Bannað er að eiga hljóðvarp og sjónvarp á sama svæði. Aðila sem á kapalsjónvarp er ekki heimilt að eiga sjónvarp á sama svæði. Það sér hver maður að þær reglur eru mun strangari en það sem við erum að leggja til. Það liggur alveg fyrir.

Þýskaland, virðulegi forseti, hámarksáhorf á sjónvarp 30%. Þar er eignarhaldið undir lögsögu einstakra sambandslýðvelda.

Síðan er Frakkland. Þar eru dagblöðin, upplag á landsvísu 30%. Útvarp, hámark fjórar rásir á landsvísu. Svo eru reglur þar sem viðkomandi má ekki eiga meira en tvennt af eftirfarandi: Sjónvarpsstöðvar sem til samans ná til meira en 4 millj. íbúa, þarna eru 60--70 millj. íbúar. Útvarpsstöðvar sem ná til meira en 30 millj. íbúa. Kapalsjónvarpsleyfi sem til samans ná til meira en 6 millj. íbúa. Dagblað sem er meira en 20% af heildarupplagi dagblaða. Þetta eru fjórar katigoríur og menn mega ekki eiga meira en í tveimur af þeim. Það eru sambærilegar reglur um svæðisbundna fjölmiðla.

Þá kemur Bretland. Sá sem ræður yfir 20% af upplagi dagblaða getur átt allt að 20% í félagi sem hefur sjónvarpsleyfi. Það þætti nú ansi strangt hér. Sama reglan um svæðisbundin dagblöð og sjónvarp. Svo eru fleiri svæðisbundnar takmarkanir og áhersla er lögð á fjölbreytni í eignaraðild.

Menn hafa bent á Finnland sem land með lítið af reglum. Það liggur hins vegar alveg fyrir að það hefur verið mikil tregða, virðulegi forseti, til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar þar að veita útvarpsleyfi til dagblaðaútgáfu og til fyrirtækja á fjarskiptamarkaði.

Í Danmörku, virðulegi forseti, þeir sem hafa leyfi þar til að reka sjónvarp eða hljóðvarp verða að hafa þann rekstur sem sitt eina markmið. Fyrirtæki sem eru í rekstri óskyldum fjölmiðlarekstri mega ekki eiga ráðandi hlut í félagi sem hefur leyfi til að reka útvarp og sjónvarp. Svo er verið að tala um að hér sé þetta það strangasta í heimi, allt það strangasta úr öðrum löggjöfum sé tekið hér inn. Þetta stendur allt í skýrslunni, virðulegi forseti.

Hér er ég búinn að fara yfir löndin, reglurnar um áhorf fyrir löndin sem og svæðin, virðulegi forseti. Ég hvet hv. þm. Jón Gunnarsson, sem ég veit að vel læs, til að fara sérstaklega yfir þetta.

Þær reglur sem lagðar eru fyrir þingið núna, virðulegi forseti, gera ráð fyrir því að ekki sé heimilt að eiga dagblað og ljósvakafjölmiðil. Hámarkseign er 25% ef undan eru skilin markaðsráðandi fyrirtæki með meira en 2 milljarða í veltu, þá 5%. Það sem maður lærir þegar maður skoðar þetta á milli landa er að það eru engar reglur eins. Það er augljóst að menn hafa verið að taka mið af mismunandi aðstæðum á hverjum stað fyrir sig og þrátt fyrir að ýmislegt sé samræmt í Evrópusambandinu hafa menn ekki farið í það á þessum vettvangi.

Nú er það þannig að ef maður stæði í því að setjast niður sjálfur að skrifa þetta, þá er þetta ekki einfalt, virðulegi forseti. Það má deila um þetta allt saman og hvað sé skynsamlegasta leiðin.

Það kemur mér á óvart eftir að vera búinn að hlusta á umræðuna, því ég var að vitna í þingmenn Samf. sem færðu rök fyrir eignaraðildinni, og allir þekkja viðhorf vinstri grænna, en ég held að flestir sem að þessu máli koma vilji sjá dreifðari eignaraðild, að það er engin efnisleg umræða um málið. Þetta er bara allt meira og minna eitthvert hjal þrátt fyrir að þessir aðilar hafi á öðrum stundum talað sérstaklega fyrir þessu. Það kemur mér á óvart og hvað breyttist, virðulegi forseti? (JÁ: Hvað breyttist hjá þér?) Hvað breyttist, virðulegi forseti. Og hv. þm. Jóhann Ársælsson sem er nú fylgjandi höftum, held ég, á flestum sviðum, (JÁ: Síðan hvenær?) ég hef nú hlustað á hv. þm. bæði í nefndum og einu sinni var ég í framboði þar sem hann var líka í framboði og hafði af því mikla ánægju og gleði að hlusta á málflutning þess manns. Ég spyr: Hvað breyttist? Vinstri grænir sem allt í einu tóku upp á því að geta ekki rætt neitt nema málsmeðferð og formsatriði, þeir aðilar hafa nú lítið annað rætt og við erum ekki að tala um neina smáóratora, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem getur rætt hér lengi og oft um vandann og hættuna af samþjöppun á hinum og þessum sviðum, í hinum og þessum geirum, er allt í einu ófær um að taka efnislega umræðu um það hvernig hann vildi sjá þessa löggjöf. Þetta er hið furðulegasta mál.

Ef við förum aðeins yfir það sem umræðan hefur snúist mest um, varðandi málsmeðferðina, hraðann o.s.frv. Virðulegi forseti. Ég hef ekki verið neina áratugi á þingi en á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér hef ég séð að ef vilji er fyrir því þá vinna menn hratt. (Gripið fram í.) Gott dæmi um slíkt er að ég var þeirrar ánægju aðnjótandi, í forföllum hins ágæta hv. þm. Hjálmars Árnasonar, að gegna störfum formanns félmn. Á einni viku, virðulegi forseti, gengum við frá breytingum á lögum um fæðingarorlof, við gengum frá frv. um að breyta húsbréfakerfinu í peningalán og ýmsu fleira í mjög góðri sátt og samvinnu með stjórnarandstöðunni. Þar voru engir amlóðar af hálfu stjórnarandstöðu, virðulegi forseti. Þar voru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrv. félmrh., hv. þm. Ögmundur Jónasson, hv. þm. Helgi Hjörvar og fleira gott fólk sem hafði miklar meiningar, skoðanir og þekkingu á þessu máli. Við unnum þetta hratt og vel, að ég tel, á viku.

Ég sá þessa aðila fara hér hamförum, var það ekki rétt fyrir jólin, virðulegi forseti, til að setja lög á SPRON. Halda menn því fram, virðulegi forseti, að allt hafi verið óumdeilt í því máli? Halda menn því fram, virðulegi forseti, að allir lögfræðingar landsins hafi verið sammála þar? (Gripið fram í: Studdir þú lögin?) Virðulegi forseti. Ég get upplýst að ég studdi ekki það mál. (MÁ: Varstu á móti því?) Ég treysti mér ekki, virðulegi forseti, til að greiða atkvæði í því máli. (MÁ: Af hverju ekki?) Ég hef nú tjáð mig um það á hinum ýmsu stöðum og get svo sem farið í gegnum það aftur, en ég ætla nú samt að halda mig við ræðu mína.

Ég vek athygli á því að á þeim tíma kom enginn hv. þm. af hálfu stjórnarandstöðunnar og las upp úr bókum. Það var enginn, virðulegi forseti, sem las Frelsið hér í ræðustól. (EMS: Hefði nú verið ástæða til.) Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson greiddi hins vegar atkvæði með því og fannst það allt hið besta mál. Það þvældist ekkert fyrir hv. þm., ekki neitt, hraðinn á því máli. Tveir sólarhringar. Ég man ekki eftir því að þessir aðilar hafi kallað eftir því að það væri betur unnið að því máli í nefndinni.

Virðulegi forseti. Misminnir mig, var eitthvað um það að hv. þm. Samf. hafi komið hér og heimtað betri umræðu í nefndinni, fleiri sérfræðiálit, að salta málið? Ég man ekki eftir því. (MÁ: Hafðirðu eitthvað á móti því?)

[17:00]

Hv. þm. Mörður Árnason er aftur farinn að ókyrrast. Ég veit ekki hvort ég á að stoppa í smástund til þess hann geti aðeins róað sig niður, virðulegi forseti. En ég vonast til þess að hann fái að fara í andsvar hér á eftir eins og aðrir. Þá getur hann fengið að komast að. En lái mér hver sem vill að þetta kemur mér nokkuð á óvart. Þetta kemur mér nokkuð á óvart því ég hef setið t.d. í umræðuþáttum, bara svo við tökum eitt dæmi, eins og áðan, þar sem þingmenn Samfylkingarinnar forðast eins og heitan eldinn að ræða efnisatriði málsins þrátt fyrir að hv. þingmenn sem ég las meðal annars hér upp færu beint fram á að sett yrðu lög um eignarhald fjölmiðla og færðu fyrir því gild rök. Hér eru miklu fleiri ummæli. Virðulegi forseti. Það er ekki eins og menn hafi ekki rætt þetta í þeim herbúðum. Það er ekki eins og menn hafi ekki skoðað þetta í þeim herbúðum. Það er ekki eins og menn hafi ekki haft skoðun á því í þeim herbúðum. En nú þegar er tækifæri til að gera það sem menn hafa rætt um, vinstri græna hefur dreymt um, hvað gerist þá, virðulegi forseti? Hvað gerist þá, virðulegi forseti, allt í einu? (Gripið fram í: Fáum ekki kast.) Það er ótrúlegt þó ... Nú kemur mér ekkert á óvart þegar Samfylkingin er annars vegar. Það kemur ekkert á óvart að þeir taki nokkra snúninga og nokkrar beygjur. Ég hef bara verið nógu lengi að fylgjast með þeim ágæta flokki til þess að ég áttaði mig á því. En að sjá hv. þm. Ögmund Jónasson og vinstri græna, að þessir aðilar, að þeir hugsjónamennirnir, þeir hlaupi allt í einu frá.

Nú skal ég upplýsa það án þess að það hafi neitt með efnisatriðin að gera að ég kann bara mjög vel við þá þingmenn vinstri grænna sem ég þekki og ég met þá sem persónur. En þegar kemur að pólitík þá er það bara þannig að ef Samfylkingin blæs á þá þá hristast þeir slíkt að það mælist á Richter, virðulegi forseti. Það er eins og Ragnar skjálfti sé bara upptök skjálftans. Þeir þora aldrei, virðulegi forseti, að standa á sinni sannfæringu ef svo færi, virðulegi forseti, að Samfylkingin mundi nú hugsanlega blása eitthvað á þá. (ÖJ: Þetta er geysilega málefnaleg ræða.) Ég vitna þá bara hreinlega í öll þau ummæli, allt það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sagt í umræðu um atvinnulífið, um efnahagslífið, um fjölmiðlana í gegnum tíðina og ég get ekki komist að neinni annarri niðurstöðu, hv. þm. Ögmundur Jónasson. Við þekkjum það báðir, (Gripið fram í.) virðulegi forseti, (Gripið fram í.) það er að segja bæði ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, að þetta er ekki eina málið sem svona er fyrir komið. (ÖJ: Heldur?) Það liggur alveg fyrir og við þekkjum það á vettvangi sveitarstjórnarmála, svo dæmi séu tekin. (Gripið fram í.)

Hvað sem því líður þá held ég og ég (Gripið fram í.) vona að umræðan sé búin að fara það marga hringi um málsmeðferð og aðra slíka þætti að við séum komin niður á þá niðurstöðu að við þurfum að ræða þetta efnislega. Nú liggur það hreint og klárt fyrir, virðulegi forseti, að hægt er að fara margar leiðir í þessu. En það (Gripið fram í.) liggur alveg hreint og klárt fyrir að hér erum við að horfa upp á að staðan á íslenska fjölmiðlamarkaðnum er ekki sambærileg við neitt það sem gerist annars staðar þannig að flestir sem það mál skoða held ég að komist að þeirri niðurstöðu að einhverjar reglur þurfi að setja. Það held ég að sé niðurstaðan. Mér þykir í umræðunni, eins og ég sagði áður, nokkuð hafa skort á, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að menn vilji ræða þetta efnislega og einn sérkennilegasti vinkillinn sem er kominn í þetta mál er málefni sem tengjast forseta Íslands, virðulegi forseti. Það er nú einn sérkennilegasti vinkillinn.

Ég vil lesa útskrift úr Morgunblaðinu, af mbl.is. Þar segir að forsetinn segist ekki geta yfirgefið landið vegna óvissu um lok Alþingis. Það sem kom frá forsetaskrifstofunni er þetta, með leyfi forseta:

,,Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands, sem send var fjölmiðlum í gærmorgun segir: ,,Vegna óvissu um hvenær Alþingi lyki afgreiðslu mikilvægra mála gat forseti Íslands ekki yfirgefið landið í morgun og verður hann því ekki viðstaddur atburðina í Kaupmannahöfn síðar í dag.``.

Virðulegi forseti. Spyr sá sem ekki veit: Hvað er nákvæmlega að gerast? (Gripið fram í: Til hamingju með giftinguna!) Virðulegi forseti, misstir þú af einhverju? (MÁ: Ætlar ekki forseti að svara þessu?) (Gripið fram í: Brúðkaupinu.) (Gripið fram í: Já af hverju svarar ekki ...) Virðulegi forseti. (MÁ: ... svar við þessu. Þetta er spurning.) Þetta er alveg hið sérkennilegasta mál. Það er bara orðið það neyðarástand að forseti lýðveldisins getur ekki farið í brúðkaup hjá okkar helstu vinaþjóð vegna einhverrar óvissu sem kom upp á Alþingi. (SJS: Það er nú gott að vita af honum heima.) (MÁ: Það er gott að hafa hann.)

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn kalla hér að þeir vilji hafa hann heima. Ég hef nú ekki verið að gagnrýna forseta lýðveldisins fyrir að vera allt of mikið í burtu. En það má kannski til sanns vegar færa. Ég er þó ekkert viss um að það sé hins vegar gott ef menn eru mikið að melda sig á slíkum stöðum, eins og forsetinn gerir, ef hann síðan sér sér ekki fært að mæta. En aðalatriðið er að ég er bara ein spurning yfir því hvaða mál það er sem kallar á það að forseti lýðveldisins sitji heima.

Ég vona bara að ágætir erlendir blaðamenn fari nú ekkert að grúska í þessu og þýða þetta yfir á sín tungumál og birta þetta í sínum fjölmiðlum (Gripið fram í.) því ég held að það muni rigna hér spurningum yfir stjórnvöld hvað í ósköpunum hafi komið fyrir á þessu ágæta landi úr því forseti lýðveldisins verður að sitja heima (Gripið fram í.) út af einhverri óvissu. Já, virðulegur forseti. Hér er kallað að þetta hafi komið í dönsku pressunni og það er ekki vel.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa ágæta grein sem var í Morgunblaðinu í morgun eftir stuðningsmann forsetans. (Gripið fram í: Er ekki upplestur eitthvað ...?) (ÖJ: Já, já, bókmenntir. Nútímabókmenntir.) Virðulegi forseti. Ég hef fundið fyrir ákveðinni tilhneigingu hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Það er einstaklega viðkvæmt að ég lesi upp sérstaklega ummæli þeirra sjálfra og einnig ef ég les upp eitthvað sem snýr að forseta lýðveldisins. Það hefur verið kvartað yfir því og það liggur fyrir --- það hefur komið fram --- það er kvartað yfir því af Samfylkingunni að ég taki ekki þátt í umræðum. Þó hef ég nú verið svona þokkalega duglegur í andsvörum og tekið þátt í 1. umr. Ég vona nú að þeir geti alla vega haldið sig við það að vera sjálfum sér samkvæmir og að leyfa mér þó að lesa og halda ræðuna úr því eftirvænting var slík að ég kæmi hingað upp.

Virðulegi forseti. Fyrirsögn greinarinnar er: Forseti í boði. Hún er eftir Hrafnkel A. Jónsson sem er héraðsbókavörður á Egilsstöðum. Þetta hljómar svo, með leyfi forseta:

,,Veturinn 1996 tók ég þá ákvörðun að styðja Ólaf Ragnar Grímsson til framboðs í embætti forseta Íslands. Ég ásamt fleiru góðu fólki skipulagði baráttuna á Austurlandi og rak síðan kosningaskrifstofu fyrir framboðið á Eskifirði. Yfirstjórn kosningabaráttunnar var í Reykjavík undir stjórn Sigurðar G. Guðjónssonar, núverandi forstjóra Norðurljósa hf. Margt undarlegt hefur verið að reka á fjörur varðandi framboð Ólafs frá þessum tíma, nú á síðustu mánuðum. Það ótrúlegasta er þó líklega uppljóstrun Einars Karls Haraldssonar í greinaflokki Árna Þórarinssonar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins að framboð Ólafs hafi verið hugsað sem æfing fyrir stofnun stórs vinstri flokks.

Á úthallandi vetri var mér boðið að rita nafn mitt á meðmælendalista Ólafs Ragnars vegna komandi forsetakosninga, eftir að hafa skrifað nafn mitt spurði ég út í undirbúning framboðsins og var þá sagt að því stjórnaði sem fyrr núverandi forstjóri Norðurljósa hf., Sigurður G. Guðjónsson. Þegar ég lýsti óánægju minni með þessi nánu tengsl forsetans við Baugsveldið uppskar ég dómadagslestur um illsku forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra og fleiri meintra óvina Baugsauðhringsins. Eftir að hafa setið undir þessari framboðsræðu strikaði ég nafn mitt út af listanum.

Þetta atvik hafði vikið úr huga mínum fyrir mikilvægari hlutum þegar ég heyrði í fréttamiðlum sagt frá frétt í DV um að forseti Íslands íhugaði að neita að staðfesta lagasetningu vegna margumrædds ,,fjölmiðlafrumvarps``, skyndileg breyting forsetans á ferðaáætlun sinni og heimkoma staðfestir að DV hefur haft ,,traustar`` heimildir fyrir frétt sinni. Þessar athafnir forsetans eru augljóslega til þess ætlaðar að hafa áhrif á þá umræðu sem fram fer á Alþingi og í fjölmiðlum þessa dagana. Tæpast hefur hann verið að koma heim til að reka úr túninu á Bessastöðum. Mér er brugðið, ég hefði látið segja mér það þrem sinnum að forseti Íslands léti nota embætti sitt með þessum hætti. Ég tel að forseti Íslands hafi enga heimild til slíkra athafna og hafi aldrei verið kosinn í þetta virðulega embætti á þeim forsendum. Alþingi á að hafa frið fyrir forseta Íslands við setningu laga. Líki okkur ekki lögin skiptum við um þingmenn í næstu kosningum. Þannig virkar lýðræðið, það er sama hvað minni hluti á Alþingi talar lengi og hversu mikil stóryrði hann hefur uppi. Valdahlutföllin eru dómur kjósenda, honum verður ekki áfrýjað til annarra en kjósenda í næstu alþingiskosningum.

Í lokin langar mig til að þeir virtu lögskýrendur sem farið hafa með himinskautum síðustu dagana í túlkun laga svari mér um það álitamál hvort forseti Íslands geti verið vanhæfur til að neita að staðfesta fjölmiðlafrumvarpið. Ég hef séð haft eftir Sigurði Líndal og Ragnari Aðalsteinssyni og vafalaust fleiri vitrum mönnum að þessi lagasetning sé sértæk og beinist að einu tilteknu fyrirtæki, Norðurljósum hf. Þar sem svo háttar til að forstjóri Norðurljósa hf., Sigurður G. Guðjónsson, er fyrrverandi og núverandi stjórnandi og fjármálastjóri kosningabaráttu Ólafs Ragnars Grímssonar þá vaknar sú spurning hvort hagsmunatengsl Ólafs Ragnars Grímssonar og Sigurðar G. Guðjónssonar geri forseta Íslands ekki vanhæfan til að skipta sér af umræddu fjölmiðlafrumvarpi.`` (SJS: Hver á að leysa hann af?) (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Svo mörg voru þau orð. (ÖJ: Ertu með fleiri ...) Ég verð að segja eins og er að ég er ekki búinn að átta mig á þessu upphlaupi eða nýju stöðu sem er komin til út af þessari fréttatilkynningu frá forseta Íslands. Ég vona nú að það komi einhver skýring á næstunni. Ég held að það hljóti að vera. Ég vona að vangaveltur þess ágæta manns Hrafnkels A. Jónssonar, héraðsbókavarðar á Egilsstöðum, sem fram koma í skrifum hans eigi ekki við nein rök að styðjast og að við sjáum á næstunni að allur vafi verði tekinn af um slíkt. Það segir sig sjálft að hugmyndin er sú eðli málsins samkvæmt að fólkið kýs sér hér þingmenn til að fara með stjórn landsins. Við gerum upp um þessi mál í það minnsta á fjögurra ára fresti. Þannig er það. Þegar til kosninga er komið þá verða menn að standa fyrir máli sínu og við tökum lýðræðislega umræðu á þingi. Það liggur alveg fyrir að það er sá háttur sem hér hefur verið á landi og hér á að vera á landi. Ég vona að það séu engir slíkir hlutir uppi að það komi til að menn fari með einhverjar breytingar á slíku. Ég bíð því spenntur eftir skýringu og ég efast ekki um að það hljóti að koma einhver skynsamleg skýring á þessum málum öllum þannig að menn þurfi ekki að velta þessum hlutum neitt meira fyrir sér.

[17:15]

Virðulegi forseti. Ég hef farið hér yfir málið held ég svona þokkalega vel að ég met. Það eru fleiri á mælendaskrá eftir því sem ég best veit og við munum ræða þetta mál eitthvað áfram, bæði í þingsölum og í fjölmiðlum og úti á meðal fólks. Því held ég að mjög æskilegt væri að menn færu að ræða efnisatriði málsins. Það liggur alveg fyrir að í máli eins og þessu (Gripið fram í: Efnisatriði ...) er engin ástæða til frekar en í öðrum málum að menn séu sammála. Það er engin ástæða til þess.

Af því hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon situr hér í salnum þá býð ég spenntur eftir því að heyra hvað í raun vinstri grænir vilja gera í þessu máli því það er algjörlega útilokað, virðulegi forseti, eftir að ég er búinn að sjá menn vinna hér í SPRON-málinu, m.a. hv. þm. Ögmund Jónasson og Steingrím J. Sigfússon og má telja fleiri mál til, að einhver raunveruleg ástæða sé fyrir því að þeir hagi málflutningi sínum með þeim hætti að þeir séu ósáttir við málsmeðferðina. Það er algjörlega útilokað eftir að vera búinn að horfa á vinnubrögð í öðrum málum að sá sem hér stendur kaupi það, algjörlega útilokað.

Ég kom hér með kenningu og með réttu sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson að það var kannski ekkert mjög málefnalegt. Það er hins vegar tilfinning mín. Ég held að hv. þingmenn vinstri grænna þori ekki í þessu máli, svo það liggi alveg fyrir. Ég ætla ekki að kalla þá þeim nöfnum sem forsætisráðherra var kallaður hér í dag, enda er það ekki mín skoðun. Það ætla ég ekki að gera. En það liggur alveg fyrir, virðulegi forseti, að það er mín skoðun að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð þori ekki í þessu máli (ÖJ: Hverju?) að taka á málinu og koma hér inn í umræðuna (Gripið fram í: Hver þorir ekki í þessu máli að hafa sjálfstæða skoðun ...?) með einhverjar tillögur ef þeir hafa þá einhverjar um það hvernig beri að haga þessu máli.

Við þekkjum allir og ég vek athygli á því, (Gripið fram í: Öll.) allir þingmenn sem bæði eru konur og karlar, virðulegi forseti, að ég var að lesa hér upp úr ræðum og málflutningi Samfylkingarinnar þar sem þeir voru að færa rök fyrir því að (Gripið fram í.) það væri nauðsynlegt, virðulegi forseti, að koma á reglum um eignarhald fjölmiðla. (ÖS: Já, við erum með tillögur um það.) Það er því fróðlegt að sjá þennan viðsnúning hjá þeim flokki. En kannski þarf hann ekki að koma neitt á óvart.