Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:19:03 (8204)

2004-05-14 17:19:03# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:19]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur í tæp 20 ár farið um og boðið sig fram til trúnaðarstarfa á þeirri forsendu ekki að hann sé frjálshyggjumaður, en að hann sé eindreginn andstæðingur óhóflegra ríkisafskipta af atvinnulífi. En hér mælir hann með því að samþykkt verði ströngustu fjölmiðlalög á Vesturlöndum. Hann reynir að breiða yfir þessa staðreynd, eðlilega, enda er trúverðugleiki hans sem stjórnmálamanns enginn orðinn eftir þessa kúvendingu, með því að benda á að staða einstakra fjölmiðlafyrirtækja á Íslandi kynni að stangast á við lög í Bandaríkjunum eða Þýskalandi. En, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, ef þessi lög giltu í Bandaríkjunum þá yrði að loka ABC, CBS, NBC og FOX, öllum stóru sjónvarpsstöðvunum í Bandaríkjunum. Í Þýskalandi yrði að leysa upp Berthelsmanshringinn vegna þess að þau lög sem þú mælir hér með eru ströngustu fjölmiðlalög á Vesturlöndum. Hvernig getur það samræmst málflutningi þínum í tæp 20 ár um að óhófleg ríkisafskipti af atvinnulífi séu til baga og séu andstæð hugsjónum þínum? Því verður þú, hv. þm. að gera grein fyrir hér í stólnum.

(Forseti (JBjart): Forseti minnir hv. þm. Helga Hjörvar á að beina orðum sínum til forseta en ekki til einstakra þingmanna.)