Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:23:00 (8207)

2004-05-14 17:23:00# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:23]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítið erfitt að svara hv. þm. ef hann hefur ekkert hlustað á ræðu mína. Ég hefði kannski, virðulegi forseti, átt að fara í gegnum gegnsæið. Það er gott. En ég hins vegar gerði það ekki. Það er nú bara þannig. Ég kannast ekki við að hafa dylgjað neitt um fjárhagsleg tengsl forsetans við einhver fyrirtæki. Ég las hins vegar upp hér ágæta grein. Þannig er það mál.

Varðandi bandarísku löggjöfina þá las ég hér upp um sjónvarp á ákveðnu svæði að meginreglan er að það sé ein sjónvarpsstöð, en tvær ef til staðar eru átta sjálfstæð fyrirtæki. Hér er bannað að eiga hljóðvarp og sjónvarp á sama svæði. Þetta kemur fram í skýrslunni og ýmislegt fleira.

Varðandi fjármál flokkana þá veit ég ekki betur en það sé bara hið eðlilegasta mál að ræða þau og ég held að menn hafi iðulega gert það. Hins vegar er það þannig að þrátt fyrir að menn hafi hér eftir því sem ég best veit á þingi komið sér saman um þau mál þá hafa sumir hag af því að blása ... (Forseti hringir.) alltaf upp og það er bara hið besta mál. Menn skyldu ræða það líka.