Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:24:20 (8208)

2004-05-14 17:24:20# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:24]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það er óvenjulegt og skemmtilegt að horfa á menn í málþófi við mál sem þeir styðja sjálfir, vera án efnisumfjöllunar annarrar en þeirrar að flytja varnarræður við gagnrýni Verslunarráðs, Heimdallar og frjálshyggjufélagsins, en eyða tíma sínum að öðru leyti í að sletta út og suður og fara auðvitað með mikilli ræðumennsku með himinskautum eins og stóð í greininni. (Gripið fram í: Er ekki málfrelsi hérna?) Hér er fullt málfrelsi. Það er rétt. (Gripið fram í: Já.) Það málfrelsi hefur forseti þingsins sjálfur, að ég tali nú ekki um formann þingflokks Framsóknarflokksins og hinn hérna húsvörðinn í húsinu, formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, kallað málþóf.

Ég stóð hér upp vegna þess að hv. þm. minntist á málefni SPRON. Við urðum að rifja það upp fyrir honum hér í salnum að hann treysti sér ekki til að ganga í berhögg við það mál þegar það var hér flutt heldur sat hjá. Hann lýsti þar með andstöðu við þingmeirihlutann í málinu, þar á meðal stóran meiri hluta í eigin flokki. Ég vil bara spyrja: Hvers vegna var það? Rifji hann það upp fyrir okkur af hverju gerði hann það.