Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:26:35 (8210)

2004-05-14 17:26:35# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Þannig ég vitni í hv. þm. þá sagði hann þetta hér um ræður annarra: ,,Engin efnisumræða um málið.`` Hann endurtók það. ,,Engin efnisumræða um málið. Þetta er meira og minna eitthvert hjal.`` Þetta var nú svona einkennandi fyrir ræðu hans áðan.

Við höfum óskað eftir raunverulegri efnisumræðu, t.d. því að rétt sé farið með tölur, að það hefðu verið samanburðarhæfar tölur sem hann las hér úr skýrslunni vegna þess að maður þarf auðvitað að hafa kynnt sér það til þess að vita um hvað maður er að ræða, að hann hafi þegar hann var að þylja hér um ástandið annars staðar gert grein fyrir þeim fyrirvörum og þeirri niðurstöðu sem skýrsluhöfundarnir komust að og sem við höfum rakið hér fram og aftur, þ.e. að ástandið á Íslandi er einstakt. Það er vissulega einstakt. En það er einmitt einstakt í hina áttina frá því sem hv. þm. talaði um.

Í SPRON-málinu fer hv. þm. undan í flæmingi vegna þess að ein helsta ástæðan fyrir því að þeir þó þorðu að sitja hjá, þeir félagar sem það gerðu í Sjálfstæðisflokknum og ganga á móti Davíð í málinu, var sú að þeim þóttu lögin of sértæk. (Forseti hringir.) En hafi þeir farið frá þeim lögum af því þau voru sértæk þá eru þeir núna að ráðast á eitt fyrirtæki með skurðaðgerð.