Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:27:54 (8211)

2004-05-14 17:27:54# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi nú farið ágætlega yfir það. Ef ég hef ekki gert það nógu vel þá get ég gert það seinna varðandi þá einstöku stöðu sem Ísland er í. Ég gerði það alla vega í 1. umr. Ég fór nú ágætlega yfir þann þáttinn.

Þegar menn skoða þau lög sem eru annars staðar þá komast þeir að þeirri niðurstöðu að þau er hvergi eins. Það er engin ein lína. Það er nú kannski vandinn við þetta. Oft er gott að geta stutt sig við eitthvað sem gerist annars staðar ef menn þurfi að finna einhverjar leiðir hér sem henta þokkalega íslenskum aðstæðum.

Það sem liggur hins vegar alveg hreint og klárt fyrir er að það er hvergi þannig miðað við þau lönd --- kannski á Ítalíu, en annars er það ekki þannig að einn aðili geti verið með allt fyrir utan ríkisútvarpið, ríkisfjölmiðilinn á sinni hendi. (Gripið fram í: Og Moggann.) Ja, alveg þess vegna. Á morgun gæti þetta allt saman sameinast undir Norðurljós, hver einasti frjálsi fjölmiðill. Ég hélt að flestir væru sammála um að það væri ekki æskilegt. Þess vegna eru menn að fara í þessa vegferð.