Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:31:37 (8214)

2004-05-14 17:31:37# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:31]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt með þeim hætti að maður getur lesið í spilin og séð hver framvindan er í orðum og ræðum hv. stjórnarliða. Það er nú þannig að eldri og reyndari refir í þinginu úr liði stjórnarliða hafa greinilega upplýst sína ungu þjóna um með hvaða hætti skuli svara í þessu máli. 5% reglan er slík að áhyggjur fjölmargra fjármálasérfræðinga í landinu eru afgerandi. Við erum að tala um fé án hirðis. Við erum að tala um stórfyrirtæki sem eiga ekki möguleika á því að ná manni í stjórn. Þannig er nú það. Með 2 milljarða ákvæðinu er líka búið að útiloka 100 stærstu fyrirtækin í landinu í fjárfestingum í greininni. (SKK: Það er rangt.) Nei, þetta er rétt hjá mér, hv. þm. Sigurður Kári. Þeir hafa ekki áhuga á 5% reglunni. Takið eftir einu: Hverjir hafa yfir áhættufé að ráða? Það eru hinir 100 stærstu. En lystin er orðinn mikil í að slá ryki í augu almennings á hinu hv. Alþingi.