Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:34:08 (8216)

2004-05-14 17:34:08# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Heimsmynd hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er mjög einföld. Ég sagði einföld, ég sagði ekki einfeldnisleg en kannski hugsaði ég það. Samkvæmt þeirri heimsmynd samanstendur heimurinn annars vegar af þeim sem vilja reglur og hins vegar hinum sem eru á móti reglum. Vinstri grænir hafi verið fylgjandi reglum, nú séu þeir skyndilega á móti reglum. Hvers konar viðsnúningur er hér á ferðinni? spyr þingmaðurinn. Nú skulum við yfirfæra þetta á tungumál hagfræðinnar. Þá er væntanlega annars vegar um að ræða þá sem vilja óheftan markað og hins vegar hina sem vilja reisa markaðnum einhverjar skorður. Við erum í þeim hópi, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, en til þess að ná tilætluðum markmiðum. Ef við fáum frv. eins og hér er á ferðinni sem nær ekki tilætluðum markmiðum, í þessu tilviki að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði, og ef frv. í ofanálag (Forseti hringir.) gengur í bág við stjórnarskrá landsins og teflir atvinnuöryggi mörg hundruð manns í tvísýnu, segjum við stopp.