Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 11:34:21 (8226)

2004-05-15 11:34:21# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[11:34]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hv. þm. svaraði ekki spurningunni sem til hennar var beint. Hún gerði það ekki, vék ekki einu orði að því og reyndi ekkert til að svara spurningunni, ekki neitt.

Það vekur nokkra athygli þar sem þetta mál var ekki að detta inn í umræðu núna í dag. Það er ekki eins og menn hafi ekki fjallað um þetta. Fyrir liggur skýrsla sem öll þjóðin hefur aðgang að og svo sannarlega þeir þingmenn sem eru á Alþingi Íslendinga og svo sannarlega sá hv. þm. sem hér talaði.

Spurningin var einföld. Hún var mjög einföld. Við erum hér að bera saman þetta frumvarp við löggjöf í öðrum löndum sem svo sannarlega er á mörgum stöðum mun strangari en frumvarpið gerir ráð fyrir og svo sannarlega liggur það fyrir að umhverfið sem við búum við í dag mundi aldrei rúmast í þessari löggjöf sem við berum okkur saman við.

Ég spyr þá: Er það svo, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að þessi löggjöf í þessum löndum stangist á við lýðræði, málfrelsi, tjáningarfrelsi, eignarréttindi og atvinnufrelsi eins og hv. þm. var að halda fram að þetta frumvarp, ef það yrði að lögum, mundi stangast á við? Er það svo?

Staðreyndin er auðvitað sú, eins og allir vita, að nú --- ekki fyrir nokkrum mánuðum, ekki fyrir einhverjum missirum heldur núna --- er Samfylkingin allt í einu á flótta undan reglum hvað þetta varðar.

Ég las hér í gær upp ummæli, og get gert það aftur, forustumanna Samfylkingarinnar þar sem þeir fara fram á reglur hvað þetta varðar og færa rök fyrir því hvers vegna það skyldi vera. En allt í einu, virðulegi forseti, eru menn á flótta undan eigin ummælum og á flótta undan því að taka málefnalega afstöðu í þessu máli. Ég bíð eftir svari við þessari spurningu, virðulegi forseti.