Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:05:23 (8229)

2004-05-15 12:05:23# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er engu líkara en hæstv. dómsmálaráðherra væri að ganga af göflunum hér í ræðustól. Hver er það sem er að ýta þessu að forseta lýðveldisins að staðfesta ekki lögin? Ég hef ekki orðið var við nokkurn mann sem hefur sagt það hér í þessum sal. Hins vegar las hæstv. ráðherra upp tölvubréf sem maður að nafni Róbert Marshall sendi félögum sínum. Er það tilefni til þess að hæstv. dómsmálaráðherra komi hérna og missi næstum stjórn á sér í ræðustól? Það er ekki nokkur maður í þessum sal, herra forseti, sem hefur verið að láta í ljósi skoðanir á því hvort forsetinn eigi að hafna lögunum eða staðfesta þau. Hér erum við einfaldlega í miðri umræðu og hún á eftir að breytast. Ég er sannfærður um að hæstv. forsætisráðherra á eftir að sjá að sér. Ég tel að þetta mál hljóti að gjörbreytast áður en það kemur til endanlegrar afgreiðslu, ef það kemur þá nokkurn tíma til endanlegrar afgreiðslu, herra forseti.

Mér finnst hins vegar að hæstv. dómsmálaráðherra ætti að bera betra skyn á lögunum heldur en hann virðist hafa. Það er engin þörf á því að reifa það hér hvort forseti lýðveldisins þurfi að láta þingið fyrir fram vita af því hvort hann ætli að synja eða staðfesta lög. Á þá að ganga fyrir forsetann í hvert einasta skipti sem hér koma lög til afgreiðslu í þinginu og spyrja forsetann hvaða skoðun hann hafi á því? Að sjálfsögðu ekki.

Hér er ekki um synjunarrétt að ræða. Hér er um málskotsrétt að ræða og forsetinn þarf ekki og eftir atvikum á ekki að hafa neina sérstaka skoðun á því. Það er réttur hans, ef það verður gjá milli þings og þjóðar, að vísa málum til atkvæðagreiðslu þjóðarinnar. Það væri þá eftir atvikum þjóðin sem synjaði málsins. Það virðist að hæstv. ráðherrar séu svo farnir á taugum yfir þessu máli að þeir gefi sér það að þjóðin mundi synja staðfestingar málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu.