Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:07:39 (8230)

2004-05-15 12:07:39# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:07]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þeir sem þekkja trúarbragðasöguna vita að litið er á páfann sem hinn mikla brúarsmið á milli himinsins og jarðarinnar. (ÖS: Er ég ...?) Þetta tal um að forseti Íslands sé einhver brúarsmiður á milli þings og þjóðar er bara á misskilningi byggt. Það er hvergi rætt um það að einhver gjá á milli þings og þjóðar kunni að myndast og þá sé forsetinn hinn stóri brúarsmiður sem eigi að koma til sögunnar og brúa þetta bil. Það er hvergi fjallað um það neins staðar. Ég veit ekki hvaða kenningar þetta eru. Ég veit ekki hvers vegna menn allt í einu finna það upp að það sé líka í þessu máli einhver gjá milli þings og þjóðar. Hverjir eru að segja það? (Gripið fram í.) Þið eruð að halda því fram sem haldið því líka fram að þetta séu lögbrot og ég veit ekki hvað og hvað og stjórnarskrárbrot. Það er náttúrlega algjörlega rangt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ekki sé ástæða til að lesa hér bréf frá formanni Blaðamannafélagsins (Gripið fram í.) og lýsa þeirri skoðun sem þar kemur fram og gera hana að umtalsefni hér því kjarninn í hans bréfi er hinn sami og kjarninn í ræðu varaformanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ég sat hér og hlustaði á þá ræðu. Þetta bréf er stutt tölvubréf. En kjarninn í bréfinu er nákvæmlega sá sami. (BH: Og hvað með ...?) ,,Við skulum taka þetta mál hér út. Við skulum safna liði gegn þessu.`` Svo á hinn mikli stóri brúarsmiður að brúa bilið á milli þings og þjóðar og koma eins og frelsandi engill. Er það þess vegna sem hann treysti sér (Gripið fram í.) ekki til að fara í brúðkaupið, af því að hann er að smíða þessa brú? Ég hef ekki orðið var við það. Ég skil ekki þetta tal að hann sé brúarsmiður á milli þings og þjóðar. Ég hef aldrei heyrt þetta. Hvar stendur að hann sé það? Kaþólska kirkjan tók þá ákvörðun að páfinn væri svona brúarsmiður. Það hefur hvergi verið tekin ákvörðun um það hér að forseti sé þessi brúarsmiður.