Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:16:05 (8235)

2004-05-15 12:16:05# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:16]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þetta tal um 70% þjóðarinnar og Baugsliðið minnir mig nú bara á þá prósentutölu sem ég nefndi þegar forstjóri Baugs eða aðaleigandi --- ég veit ekki hvað á að kalla hann --- taldi að 10% hlutdeild í matvörumarkaði væri stórhættulegt fyrirbrigði, og nú ræður hann yfir að eigin sögn 47%.

Svona prósentutal í þessu tilliti að 70% þjóðarinnar standi með þessu eða hinu, er algjörlega marklaust í umræðum af þessum toga.,

Kjarni málsins er hins vegar sá að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var með hér sama málflutning og kemur fram í bréfi formanns Blaðamannafélags Íslands (Gripið fram í.) þegar hann skorar á fólk að senda áskorun þótt það sé ekki sammála endilega. ,,Bara valdið þið ófriði í þjóðfélaginu. Setjið allt á annan endann í þjóðfélaginu. Skapið þið þann ófrið í þjóðfélaginu sem nauðsynlegur er til þess að storka stjórnvöldum.`` Þetta var boðskapurinn í ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. (ISG: Er bannað að mótmæla ykkur.)