Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:21:40 (8238)

2004-05-15 12:21:40# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:21]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru margir sem skaprauna vesa\-lings ríkisstjórninni þessa dagana.

Varðandi ummæli hv. þm. um formann Blaðamannafélagsins þá er hann ekki aðeins að nýta rétt sinn sem borgari, virðulegur forseti, með ummælum sínum um þetta mál, heldur er hann líka að framfylgja skyldu sinni sem formaður Blaðamannafélagsins. Blaðamannafélag Íslands hefur mótmælt þessu frv. og lýst yfir andstöðu við það. Það væri undarlegur formaður í slíkum félagsskap sem ekki mundi fylgja eftir þeirri baráttu félagsins sem hafin hefur verið innan þess.

Virðulegur forseti. Samf. er í liði með Baugi, segir hæstv. ráðherra. Ég nefndi fleiri sem Samf. er í liði með í þessu tiltekna máli. Ég nefndi hér til sögunnar útgefendur Morgunblaðsins, virðulegur forseti. Við erum stolt af því að vera í liði með þeim fjölmörgu sem hafa mótmælt þessu frv. Það er bara orðið þannig, virðulegi forseti, að þeir eru hins vegar afar fáir sem hafa tekið undir það og treysta sér til að lýsa yfir samstöðu með ríkisstjórninni í þessu máli.

Ég þarf ekki að telja upp aftur þá fjölmörgu sem hafa mótmælt þessu frv. Það eru sko fleiri heldur en Samf. og fleiri en Baugur.