Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:23:03 (8239)

2004-05-15 12:23:03# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:23]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég átti við, þegar ég talaði um að skaprauna stjórnvöldum, var að þetta er fyrst og fremst til þess fallið að skaprauna forseta Íslands. Þetta er fyrst og fremst til þess fallið að skapa honum vanda. Það er hermt upp á hann í þessu bréfi að hann sé skuldbundinn vegna einhverra yfirlýsinga sem hann gaf í kosningabaráttunni, að ef einhver viss fjöldi fólks skrifi undir þessa áskorun þá sé honum skylt að synja lögum.

Er það þessi mikla brúarbygging sem á að brúa gjána milli þings og þjóðar? Er um það að ræða, að það verði að fylla þá tölu sem hér er nefnd í þessu bréfi? Ég held að þetta sé fyrst og fremst gert, þegar upp er staðið, til að skaprauna herra forseta Íslands, að hann sitji uppi með vandamálið ef þetta nær fram að ganga sem formaður Blaðamannafélags Íslands er að segja. Það hefur ekki áhrif á okkur sem erum hér á þingi.