Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 14:04:36 (8243)

2004-05-15 14:04:36# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla í nokkrum orðum, ekki mjög mörgum, að reifa þrjú meginatriði sem ég tel vera. Í fyrsta lagi ætla ég að fjalla um stjórnarskrárþátt málsins, hann hefur talsvert verið ræddur. Síðan ætla ég að víkja að stöðu þess fyrirtækis sem málið snýst nokkuð um, Norðurljósa, sem vinnustaðar. Í þriðja lagi ætla ég að fjalla um meginmarkmiðið með frv.

Varðandi stjórnarskrárþáttinn höfum við stjórnarandstæðingar í þingsal talið mjög mikilvægt að efnt yrði til vandaðrar umræðu um þann þátt vegna þess að að sjálfsögðu eiga menn ekki að samþykkja lög sem stríða gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Í morgun kom efh.- og viðskn. saman til fundar til þess að fara í saumana á þessum þætti sérstaklega. Mér finnst hafa sannast þar hve mikilvægt er að gefa sér góðan tíma, gott svigrúm til umræðu um málið. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir sannfæringu þeirra sem telja þetta ekki standast stjórnarskrá og eðlilegt að þeir vilji þar af leiðandi ekki samþykkja frv. Ég er hins vegar ekki í þeim hópi sjálfur. Ég hef ekki verið sannfærður um að málið stríði gegn stjórnarskrá Íslands og reyndar er ég þeirrar skoðunar að menn séu að ganga of langt í því, ekki aðeins núna heldur ef litið er til lengri tíma, að reisa lýðræðislegu valdi skorður, löggjafanum skorður. Menn eru farnir að líta á eignarrétt sem grundvallarmannréttindi og gera þar engan greinarmun á stærðarhlutföllum ef við getum komist svo að orði.

Ég spurði að því á nefndarfundi í morgun hvort eignarréttur væri absalútt stærð, svo ég sletti, eða relatíf stærð, svo ég sletti aftur. Er sama að skerða rétt minn til eigna, heimilis og minna persónulegu eigna, og að skerða rétt stórfyrirtækis sem hefur öðlast eignarhald á nánast heilu samfélagi? Gildir hið sama um það? Ég tel svo ekki vera. Á fundinum og í umræðunni hafa menn tekið á ýmsum þáttum stjórnarskrárinnar, eignarréttinum, athafnafrelsinu, tjáningarfrelsinu og það sem vekur athygli mína er að lögspekingar sem telja þetta ekki standast stjórnarskrá setja samasemmerki á milli eignarréttar og tjáningarfrelsis. Ég tel þetta vera mjög vafasama túlkun vegna þess að eignarrétti er hægt að snúa upp í andhverfu sína að þessu leyti og nýta til þess að takmarka tjáningarfrelsið, ekki aðeins auðvelda þeim sem á viðkomandi fjölmiðil að nýta tjáningarfrelsið.

Í mínum huga snýst þetta að hluta til um togstreitu sem er á milli löggjafarvalds, lýðræðis, og bisnesshagsmuna. Mín skoðun er sú að túlka stjórnarskrána almannavaldinu, lýðræðinu, í hag. Þess vegna hef ég ekki sannfærst um að frv. stríði gegn stjórnarskrá landsins en ítreka að ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiði þeirra sem telja svo vera. Að sjálfsögðu eiga þeir ekki að samþykkja lög sem að þeirra mati standast ekki stjórnarskrá, svo það komi skýrt fram. Þetta er mín persónulega skoðun sem hægt væri að hafa mörg orð um hér en ég ætla ekki að fara fleiri orðum um a.m.k. að sinni

Þá er það staða fyrirtækisins sem frv. snýst um og menn hafa svolítið rætt um það og einnig í samhenginu við umræðuna um stjórnarskrá, hvort þetta sé sértæk löggjöf sem snúi að einu fyrirtæki á sama hátt og menn ræddu um SPRON á sínum tíma. Þá komu einnig aldeilis furðulegar túlkanir, að mínum dómi, á stjórnarskrá. Menn töldu meira að segja að vegna þess að tiltekið fyrirtæki, þ.e. SPRON, eða stofnfjárfestar þar höfðu fengið tilboð í eign sína á markaði hefði stofnast eignarréttur á grundvelli tilboðsins. Þess vegna mætti ekki hrófla við því fyrirtæki eða setja lög sem snertu það fyrirtæki sérstaklega. Og eins eru menn að velta því fyrir sér hvort þessari löggjöf sé beint að tilteknu fyrirtæki. Ég held að við eigum að vara okkur í röksemdafærslu af þessu tagi vegna þess að í veruleikanum eru menn að sjálfsögðu að fást við tiltekin fyrirtæki. Þess vegna er verið að setja löggjöf. Þess vegna var sett löggjöf um Microsoft í Bandaríkjunum, þ.e. um einokun á sviði hugbúnaðar, í ljósi þeirrar yfirburðastöðu sem það fyrirtæki hafði öðlast. Almenn löggjöf getur því snúið að tilteknu fyrirtæki og mér finnst það ekki vera neitt heilagt, aldeilis ekki. Þess vegna er verið að setja löggjöf, vegna þess að það er að verða til hringamyndun.

En aftur að öðru atriðinu sem ég ætlaði að reifa, þ.e. stöðu þessa tiltekna fyrirtækis sem hefur verið að búa um sig í þjóðfélaginu, við fengum þær upplýsingar í efh.- og viðskn. og gerðum grein fyrir því í ræðustól og í viðtölum í fjölmiðlum að skuldsetning fyrirtækisins væri háskalega mikil. Samkvæmt fyrstu fréttum væru eignir lífeyrissjóðanna í skuldum og hlutafé, að verulega litlu leyti reyndar í hlutafé, 2 milljarðar, 2.000 milljónir, og þetta væru óveðtryggðar eignir. Síðan kom fram leiðrétting um að þessi þáttur væri minni, hann væri sennilega helmingi minni, þ.e. eignir lífeyrissjóðanna þarna inni, en eftir sem áður væru skuldir sem ekki hefðu veð í fyrirtækinu um 3 milljarðar. Þó að þessi þáttur lífeyrissjóðanna væri heldur minni en okkur var sagt upphaflega og við lýstum yfir, er heildarskuldbindingin sem ekki hefur veð á bak við sig hærri en við héldum eða um 3 milljarðar.

Þá er komið að því að fjalla um þátt sem ég tel skipta mjög miklu máli og það er vinnustaðurinn. Á þessum fréttamiðlum eru um 700 manns starfandi og um 1.200 einstaklingar sem bera út blöð. Þetta er stór hópur af fólki og við höfum ábyrgð gagnvart því fólki. Við höfum verið að reyna að grafast fyrir um hvaða afleiðingar samþykkt laganna mundi hafa fyrir þennan vinnustað eða þessa vinnustaði. Í ljósi þess að hér var sagt í ræðu í gær að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefðu breytt málflutningi sínum í tímans rás þá langar mig til að leiðrétta þann misskilning. Svo er nefnilega ekki. Ég gróf upp viðtal og skrif sem ég setti niður um mánaðamótin janúar/febrúar og í ljósi þess að við vorum sökuð um þetta langar mig til að vísa í þessi skrif í örstuttu máli. Í viðtali við Ríkisútvarpið, í hádegisfréttum 31. janúar, er ég spurður út í þennan samruna á fjölmiðlamarkaði og er haft eftir mér að fæðing nýs fjölmiðlarisa séu mikil tíðindi, ég segi að það sé dýrt að reka fjölmiðil og að því leyti sem samruninn styrki rekstur fyrirtækisins sé breytingin til góðs. Síðan er vísað í hverjir eigi þetta og svo segi ég orðrétt, með leyfi forseta:

[14:15]

,,Og við skulum ekki gleyma því að það er ekkert séð fyrir endann á samþjöppunarferlinu þar.`` --- Vísað í Baug og Feng. --- ,,Við getum ekki gefið okkur að Morgunblaðið sé eilíft og ef nú svo færi að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi og markaðsvætt þá er sá möguleiki raunverulegur að eignarhald yfir öllum fjölmiðlum í landinu yrði í sömu höndum. Og í ljósi þessa þá hefur verið lagt til að fjölmiðlar og eignarhald verði skoðað af hendi löggjafans. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að besta leiðin og hugsanlega sú skynsamlegasta sé að tryggja öflugt og kraftmikið ríkisútvarp í eigu þjóðarinnar sem kjölfestu á þessu sviði og fagna því síðan þegar öðrum fjölmiðlum auðnast að treysta fjárhagsgrundvöll sinn.``

Þetta var tilvitnun í viðtal í útvarpi og daginn eftir, 1. febrúar, birti ég opinberlega örstutta grein sem ég ætla ekki að lesa nema að litlu leyti en þar er fjallað um þennan samruna á fjölmiðlamarkaðnum undir regnhlíf Norðurljósa, þ.e. Fréttar, útgáfufélags Fréttablaðsins og DV og Íslenska útvarpsfélagsins sem rekur Stöð 2, Bylgjuna, Sýn o.fl. Þetta er fyrirtæki sem veltir um 10 milljörðum kr. og hefur fjölda starfsmanna í sinni þjónustu. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þarna eru mikilvægir fjölmiðlar að sameinast og að því leyti sem þetta kemur til með að styrkja rekstur þeirra er þessi breyting jákvæð og til góðs. Það er óhemju dýrt að reka góða vandaða fjölmiðla og það er mikilvægt að fjölmiðlar hafi mjög styrkar fjárhagslegar stoðir svo þeir geti framleitt gæðaefni. Nú er okkur sagt að rekstri þessara fyrirtækja verði haldið aðgreindum þannig að óljóst er að hvaða marki samruninn kemur til með að styrkja fjölmiðlana, að öðru leyti en því að ,,eigandinn`` og þar með bakhjarlinn kann að styrkja sína stöðu. Vafalítið styrkir þetta þó fjölmiðlana óbeint.

Varðandi eignarhaldið þá eru um 60% í hinu nýja eignarhaldsfélagi tengd Baugi og Feng, aðilum sem eru orðnir firnasterkir og áhrifamiklir í íslensku atvinnulífi. Og það er ekkert séð fyrir endann á samþjöppunarferlinu þar. Það er ekki hægt að gefa sér að Morgunblaðið sé eilíft og ef nú svo færi að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi og markaðsvætt þá er sá möguleiki raunverulegur að eignarhald yfir öllum fjölmiðlum í landinu yrði á sömu höndum. Það væri mjög varhugaverð þróun og lýðræðinu beinlínis hættuleg. Í ljósi þessa hefur verið lagt til á Alþingi, að frumkvæði VG, að fjölmiðlar og eignarhald verði skoðað af hálfu löggjafans. Mikilvægt er að sú athugun fari fram.

Ég hef trú á því að afstaða margra komi til með að ráðast af örlögum Ríkisútvarpsins. Ég er þeirrar skoðunar að besta leiðin til að tryggja eðlilega þróun fjölmiðlunar í landinu sé að treysta í sessi öflugt og kraftmikið Ríkisútvarp í eigu þjóðarinnar, sem kjölfestu á þessu sviði og fagna síðan þegar öðrum fjölmiðlum auðnast að bæta fjárhagsgrundvöll sinn.

Með því að vísa algerlega á bug öllum hugmyndum um markaðsvæðingu Ríkisútvarpsins og með því styrkja og efla þá stofnun muni okkur takast að móta farveg fyrir framtíðarþróun sem sátt gæti skapast um.``

Ég rifja þetta aðeins upp í tilefni af orðum sem féllu í umræðunni í gær. Það var hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem taldi okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hafa uppi aðrar áherslur en við höfðum fyrr. Þetta er sem sagt frá því í lok janúar, um mánaðamótin janúar og febrúar. Síðan kemur þessi fjölmiðlaskýrsla og þar er á bls. 81, ef ég man rétt, reifuð þessi leið. Þar segir, ég ætla ekki að lesa hana upp, ég gerði það fyrr við umræðuna, en þar segir sem rökstuðningur fyrir þessari leið, með leyfi forseta:

,,Í þriðja lagi má benda á að yrði þessi leið ein fyrir valinu, fæli hún ekki í sér neina beina reglusetningu sem beindist gegn einkareknum fjölmiðlum. Hún samræmist þar með að því leyti vel meginreglum um frelsi markaðarins, að öðru leyti en því að almenningsútvarpi yrði tryggður hluti markaðarins, en einkaaðilar skipti honum að öðru leyti á milli sín í frjálsri samkeppni. Í fjórða lagi sýnist vera hægt að hrinda slíkum áformum í framkvæmd að mestu án breytinga á gildandi lögum.``

Þetta var sú nálgun sem ég skýrði frá að hugnaðist mér best í lok janúar, um mánaðamótin janúar/febrúar, og er enn skoðun mín. Hins vegar, og ég legg áherslu á það, ef fallið yrði frá því að reka sterkt ríkisútvarp finnst mér ekki koma annað til greina en setja löggjöf um eignarhald eins og við erum að ræða hér, ekki endilega nákvæmlega á þessum nótum, en þá fyndist mér skapast þörf á slíkri lagasetningu. Ég hef hins vegar verið fullur efasemda eins og heyra má á þeim rökstuðningi sem þarna var settur fram. Síðan hef ég líka velt því fyrir mér, í ljósi meginmarkmiða sem skilgreind eru með frv., hvort við erum að fara réttu leiðina með þessu. Mig langar til lesa aðeins upp þessar fáu línur um meginmarkmiðin, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið frumvarps þessa er að sporna við því að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamli gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Frumvarpið er reist á almennt viðurkenndum viðhorfum um mikilvægi fjölmiðla fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi í nútímalýðræðisþjóðfélagi. Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi. Þeir eru því mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis. Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum. Í frumvarpinu er byggt á því að íslensk löggjöf eigi að vera til þess fallin að vernda þessa hagsmuni.``

Undir þessi meginmarkmið skrifa ég algerlega. Spurningin er hins vegar hvernig því verði best náð. Ég hef velt því fyrir mér og gerði það t.d. í morgun á fundi efh.- og viðskn. þar sem stjórnarskrárþátturinn var ræddur, og þá fannst mér koma fram ýmis ágæt rök sem mér fannst sannfærandi á pragmatískum forsendum þó að ég sannfærðist ekki um að stjórnarskránni væri ógnað og þau eru þessi: Hvort er líklegra til að tryggja frelsi fjölmiðla, annars vegar að þeir séu reistir á ótraustum grunni og stöðugt í hættu að verða gjaldþrota eða hins vegar að þeir hvíli á styrkum, fjárhagslegum forsendum? Ég held að slíkur fjölmiðill standist betur áhlaupin. Slíkur fjölmiðill er líklegur til að búa við innra sjálfstraust, ráða góða starfsmenn, öflug starfsmannasamtök sem síðan verja hið frjálsa orð. Ég held hins vegar að fjölmiðill sem er stöðugt í hættu að verða gjaldþrota takist verr upp að þessu leyti þannig að stærð fjölmiðilsins getur skipt verulegu máli.

Þá kemur að þessu: Hvernig vildu menn helst að eignarhaldinu væri háttað? Ég held að allir mundu svara því þannig til, ég held að það sé enginn ágreiningur um það: Að það yrði sem dreifðast. Ég held að allir hljóti að telja það heppilegasta fyrirkomulagið. En hvernig stendur þá á því að menn vilja ekki drífa í því að setja lög um slíkt? Það er vegna þess að á Íslandi hefur það gerst á síðustu árum að aðeins örfáir einstaklingar hafa safnað nánast öllum auðnum í landinu á sínar hendur. Hvernig hefur það gerst? Það hefur gerst í gegnum kvótakerfið, þar hefur orðið geysileg samþjöppun á völdum og auð. Það hefur gerst með einkavæðingu. Við munum eftir því þegar Fjárfestingarbankinn var tekinn og einkavæddur, áður keyptu hann út eigendur Hagkaupa fyrir eina 3 milljarða til þess að koma þessari fjárfestingarhringekju í gang. Síðan munum við hvað gerðist með einkavæðingu bankanna, sem ég tel að hafi verið eitt versta spillingardæmi síðari tíma, þegar Framsfl. fékk því ágengt, eða ég held að hann eigi sök á því, að í stað þess að selja bankana á opnum markaði voru þeir fengnir í hendur svokölluðum kjölfestufjárfestum. Þeir keyptu 45,6% í báðum bönkum. Af hverju 45,6 í báðum? Af því að þetta voru helmingaskipti. Það átti að selja þá báða á 11,3 milljarða. Af hverju? Af því að þetta voru helmingaskipti. Og þegar öðrum tókst að þrúkka niður verðið gilti hið sama um hinn bankann líka, og reyndar varð verðið endanlega miklu lægra. Eins og við munum voru þeir seldir í dollurum og gengisþróun varð á þann veg að verðið í íslenskri mynt lækkaði um tæpan milljarð. Síðan gátu þessir nýju herrar í bönkunum farið að bjóða gjafir á kostnað ríkissjóðs því að eitt ákvæðið í samningunum var á þá lund að ef skuldsetningin væri meiri en menn hefðu ætlað og ekki innstæða fyrir þeim skuldum, þá var ákvæði um að verðið yrði fært niður og ef það yrði gert hjá öðrum yrði það gert líka hjá hinum. Sú eign sem þessir aðilar fengu fyrir um 10 milljarða er núna metin á 25 milljarða.

Það er þessi þróun sem hefur verið að eiga sér stað í íslensku þjóðfélagi og það er þess vegna sem eignarhaldið á fjölmiðlum er líka að þjappast saman. Það er þess vegna sem við náum því ekki fram að dreifa eignarhaldinu eins og allir vildu gera. Þetta er samhengið, þetta er birtingarformið á því sem hefur verið að eiga sér stað í íslensku efnahags- og fjármálalífi. Við erum aðeins að taka á yfirborðinu og ef við gerum það á þann hátt að það grafi undan eða veiki fjölmiðlana --- ég hef litlar áhyggjur af Baugi, það er farið að tala um Baug sem einhvern vesaling í þjóðfélaginu, sem á hálft efnahagskerfið, það er engin ástæða til að vorkenna Baugi, ekki nokkur --- en við eigum að bera hag fjölmiðlanna og starfsfólksins fyrir brjósti og það er þess vegna sem við segjum: Það er ábyrgðarhluti að hrapa að lagasetningu sem stefnir lífi þeirra, fjölmiðlanna, og starfsöryggi starfsfólksins í tvísýnu. Það er þess vegna sem við segjum: Förum varlega. Og jafnvel þeir sem eru á því að setja eigi löggjöf af þessu tagi, þeir hugsi líka sinn gang, og þess vegna vildi ég fá að heyra það úr munni hæstv. forsrh. að vegna þess að lögin eiga ekki að taka gildi fyrr en eftir tiltekinn tíma, tvö ár, hvers vegna getum við þá ekki orðið ásátt um það núna í ljósi alls þessa að skjóta afgreiðslu málsins á frest, gefa okkur sumarið til að fara betur í saumana á málinu svo þeir sem hafa áhyggjur af því að það stríði gegn stjórnarskrá geti skoðað það betur? Ég tel svo ekki vera. Ég hef skýrt frá því hvers vegna ég telji svo ekki vera, ég hef sannfærst um það eftir að hafa hlustað á lögspekinga fjalla um málið að svo sé ekki og vil ekki taka þátt í því að reisa löggjafarvaldinu og lýðræðinu of strangar skorður og fara að líta á réttindi bisnessfyrirtækja sem nánast heilaga ritningu, mér finnst það ekki. Ég vil túlka stjórnarskrána lýðræðinu í hag, en í ljósi þeirra álitamála sem vaknað hafa ber ég mikla virðingu fyrir sannfæringu þeirra sem eru á öndverðum meiði við mig hvað þetta varðar. Stjórnarskrána á að sjálfsögðu að taka alvarlega og við eigum að gefa okkur tíma til að skoða þessi mál.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Ég vildi í þessum fáu orðum gera grein fyrir meginsjónarmiðum sem hafa mótað afstöðu mína í málinu.