Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:12:50 (8250)

2004-05-15 15:12:50# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að fá þessa spurningu. Það hefur ekki orðið nein kúvending á mínum sjónarmiðum varðandi samkeppnislög þrátt fyrir að þetta frumvarp hafi verið lagt fram. Það er nefnilega þannig að við sem tengjum okkur við frjálshyggju erum almennt mótfallnir (Gripið fram í.) samkeppnislögum á þeim markaði sem er frjáls og þar sem engar aðgangshamlanir eða skortur á til dæmis náttúruauðlindum er til staðar sem hamlar því að menn geti komist inn á markaðinn. Á markaði sem er frjáls og fullkominn tel ég því að engar samkeppnisreglur þurfi. (Gripið fram í.) Hins vegar er það svo að við sem erum hvað frjálslyndastir í pólitík erum samt sem áður þeirrar skoðunar að það kunni að vera reglur á einstökum mörkuðum sem gera það að verkum og eiga að gera það að verkum að eignarhald eigi að vera dreift. Tökum sem dæmi sjávarútveg. Hafa frjálshyggjumenn verið mikið að setja út á svokölluð þök í kvótakerfinu til að tryggja að enginn (Forseti hringir.) einn eigi þá auðlind? Ég kannast ekki við það. Samkeppnislögin og þau sjónarmið sem ég hef sett fram eru því enn þá jafngild eftir sem áður. (Gripið fram í: Ágætt að heyra að ...)