Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:16:52 (8253)

2004-05-15 15:16:52# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrr átti ég von á að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð legði fram þingsályktunartillögu um einkavæðingu ríkissjónvarpsins eða að félagi minn í þingflokki Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, mundi koma hér í ræðustól og lofa sjávarútvegsstefnu hæstv. sjávarútvegsráðherra en að Sigurður Kári Kristjánsson, hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, skyldi taka þá afstöðu í þessu máli að styðja þetta frumvarp þar sem alvarlegar praktískar skorður eru settar á atvinnulíf Íslendinga. Bæði smærri fyrirtæki sem stærri í fjölmiðlarekstri munu eiga undir högg að sækja. Ég kom inn á það í ræðu minni þegar ég nefndi rekstur útvarps Sögu, þegar ég kom inn á þá erfiðleika sem bíða hins stóra fyrirtækis Norðurljósa. Hér er hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lentur í kviksyndi og hann nær ekki til bakkans. Það hljóta að teljast orð að sönnu að varla geti sá maður talist trúverðugur hér eftir í íslenskum stjórnmálum.