Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:29:20 (8264)

2004-05-15 15:29:20# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera þá kröfu til hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að hann kynni sér nefndarálitið og kynni sér ræðu formanns allsherjarnefndar hér við upphaf 2. umr. Þar voru færð rök fyrir því af hverju miðað væri við tvo milljarða og af hverju miðað væri við 5%. Þetta hefur allt saman komið fram í umræðunni þrátt fyrir að hv. þm. kannist ekki við það.

Ég leyfi mér að mótmæla því að frumvarpið sem við ræddum hér í febrúar, SPRON-lögin, hafi ekki verið sértækt. Það snerist bara um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Það snerist um einn löggerning sem var í pípunum. Það er ótrúlegt að hv. þm. sem er formaður stjórnmálaflokks haldi því fram að þau lög hafi verið almenn. Ég held því hins vegar fram að þessi lög yrðu almenn. Ég færði rök fyrir því hér í ræðu minni og hef gert það áður í andsvörum að þessi lög verði frv. samþykkt varða miklu fleiri fyrirtæki en þetta eina tiltekna sem gjarnan er til umræðu.