Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:30:40 (8265)

2004-05-15 15:30:40# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PHB
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Hún er búin að vera afskaplega löng. Menn eru búnir að ræða mikið um stjórn fundarins. Það vill oft verða þannig í svona löngum umræðum að góðir punktar, gullkornin, týnast í öllum orðaflaumnum. Það er miður. Mér finnst það mjög miður því það hafa komið nokkur góð gullkorn. Hér höfum við heyrt lesið upp úr bókum, Frelsinu, Furstanum og Góða dátanum Svejk og fleiri. Þetta er allt ágætt en þetta hefði mátt vera styttra og hnitmiðaðra.

Herra forseti. Ég er á móti takmörkunum í atvinnulífinu en þróunin sem við horfum upp á er afskaplega hröð og ég ætla að fara í gegnum hana. Af hverju erum við að koma með þetta frumvarp og af hverju eru menn með svona deildar meiningar hér á Alþingi? Það er eins og menn horfi mismunandi augum á forsendurnar. Forsendurnar eru eftirfarandi:

Í júní 2002 kaupir einhver aðili Fréttablaðið. Nærri ári seinna, í maí 2003, er upplýst hver það var. Sá sami aðili kaupir í nóvember 2003 dagblaðið DV. Í fyrstu tölublaði þess birtist frétt um að þessi sami aðili sé búinn að kaupa Norðurljós og þar með Stöð 2 og fjöldann allan af útvarpsstöðvum. Þetta er ekkert hægfara þróun. Þetta er ekkert hægfara. Þetta er mjög hröð þróun og að mínu mati er þetta uggvænleg þróun. Síðan kemur í ljós núna að forstjóri Skjás 1 segir að þeir muni ekki lifa lengi við það að einhver aðili sé að dæla milljörðum inn í Stöð 2 og Norðurljós og hækka verð á aðföngum og lækka verð á framleiðsluvörunum, það er að segja auglýsingum.

Morgunblaðið á í mjög erfiðri samkeppni við ókeypis blað sem dreift er með þessum sömu peningum. Þetta er að mínu mati dálítið óhugguleg þróun. Menn hafa bent á RÚV sem andpól í þessu. En gefum okkur að þessi sami aðili næði nú öllum fjölmiðlum nema RÚV og svo kæmist hann með hjálp góðra vina sinna til valda í stjórnmálunum. Þá mundi hann ráða RÚV líka. Þá erum við komin í sömu stöðu og sumir hafa haft áhyggjur af á Ítalíu, það er að segja það er Berlusconi sem ræður bæði ríkismiðlum og öðrum miðlum. Þá er spurningin: Hvar fer fram hin vitræna og gagnrýna umræða sem er grundvöllur lýðræðis? Það er þess vegna sem ég hef áhyggjur, það er þess vegna sem ég styð þetta frumvarp og það er þess vegna sem við þurfum að fara hratt fram með þetta. Við höfum ekki mörg ár til að taka á þessu vandamáli. Þetta er það sem menn þurfa að taka afstöðu til. Ætla þeir að sætta sig við þetta ástand? Er þetta gott ástand? Er þetta góð þróun? Vilja menn hafa þetta svona áfram eða telja þeir að taka þurfi á þessu?

Allur ágreiningur, öll umræðan snýst í raun um þetta og ekkert annað. Síðan er spurningin hvaða ráðstafanir og hversu sterkar ráðstafanir eigi að vera. Hér hafa verið færð rök fyrir því að ritstjórnarlegt frelsi sé ekki nægileg vörn, auk þess sem það mundi líka skerða réttindi eigenda til þess að koma sínum skoðunum á framfæri og minnka áhuga manna til að fjárfesta í fjölmiðlum. Ef eigandinn upplifir það að fjölmiðillinn sem hann á berst jafnvel gegn honum sjálfum og hann getur ekki gert neitt í því þá vilja menn ekkert fjárfesta í fjölmiðlum. Það gefur auga leið.

Hér hefur ítarlega verið rætt um SPRON þannig að ég þarf ekkert að ræða um þá 180 gráðu beygju allrar stjórnarandstöðunnar, bæði Samfylkingar, Frjálslyndra og Vinstri grænna.

Ég þarf heldur ekki að ræða um afstöðu Vinstri grænna til eignarréttarákvæða og hvernig þau eru notuð aftur og aftur. Ég ætla heldur ekki að koma inn á það --- það hefur verið ítarlega rætt --- að það þarf ekkert að skerða verðmæti fyrirtækja umtalsvert þó settar séu á þau ákveðnar takmarkanir um að vissir aðilar megi ekki eiga í þeim. Það hefur heldur engin áhrif á rekstur fyrirtækis þó skipt sé um eigendur.

Herra forseti. Ég vildi bara koma þeim sjónarmiðum á framfæri að það eru forsendur þessa frumvarps sem menn eru að deila um. Er þessi þróun á fjölmiðlamarkaði uggvænleg eða ekki? Eru menn ánægðir með að einn aðili geti eignast allt, alla fjölmiðla með tímanum, mjög hratt? Höfum við mörg ár til þess að ræða þetta fram og til baka eða er sá tími mældur í missirum eða jafnvel mánuðum? Ég tel að þróunin sé svo hröð að við þurfum að mæla þetta í mánuðum.

Mér finnst að þeir hjá þessu stóra fyrirtæki, þessu mikla fyrirtæki sem kemur nú við flest svið þjóðlífsins, setji sjálfa sig, starfsmenn sína og alþingismenn í mjög erfiða stöðu með því að kaupa upp fjölmiðla. Þeir setja starfsmennina í mjög tortryggilega stöðu, þeir setja sjálfa sig í tortryggilega stöðu og þeir setja okkur þingmenn í mjög vandasama stöðu. Þetta hefðu þeir átt að láta ógert.

Í flestum fyrirtækjum er bókarinn ekki látinn vera gjaldkeri. Það er ekki vegna þess að menn telja að bókarinn sé einhver glæpamaður, alls ekki. Menn vilja komast hjá því að tortryggileg staða myndist. Það nákvæmlega sama gildir um fréttamenn. Þegar fréttamenn þessa stóra fyrirtækis fjalla um mál þá er ekki þar með sagt að þeir séu ekki heiðarlegir og allt það og óháðir og ég veit ekki hvað og hvað. En þeir eru í þeirri stöðu að þeir verða endalaust að fjalla um eiganda sinn eða fyrirtækið sem þeir vinna hjá og þar af leiðandi eru þeir settir í tortryggilega stöðu. Það vil ég koma í veg fyrir.