Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:06:47 (8275)

2004-05-15 16:06:47# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við getum deilt um keisarans skegg en sú sem hér stendur hélt tvær ræður, báðar málefnalegar, las ekki upp neinar bækur, vildi eiga skoðanaskipti við hv. stjórnarliða og fékk það ekki af því að þeir komu sér ekki í ræðustól á þeim tíma sem við vorum að reyna að fá þá til að ræða málin málefnalega við okkur.

Við hv. þingmann vil ég segja að ég held að honum væri hollt að lesa umsögn síns gamla vinnustaðar um þetta mál. Í umsögn Verslunarráðs Íslands sem hv. þm. vann hjá áður en hann tók sæti á Alþingi er málinu hreinlega hafnað og það er sagt í niðurstöðuorðum Verslunarráðs að það leggist gegn því að frv. nái fram að ganga. Það er í mörgum greinum tíundað hvers vegna Verslunarráð leggst gegn frv. Ég vil segja við hv. þingmann að honum væri hollara að lesa þessa umsögn og skoða málið málefnalega með þeim gleraugum sem fyrrv. vinnufélagar hans hafa skoðað sem eru svipuð gleraugu og stjórnarandstæðingar á þingi hafa verið að nota. Það er auðvitað undarlegt til þess að vita að hér skuli hlutum steypt á stél sem raun ber vitni.