Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:27:24 (8281)

2004-05-15 16:27:24# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmrh. vitnaði í orð mín um stjórnarskrárþátt fjölmiðlafrv. frá því fyrr í dag. Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar sjálfur að frv. stæðist ekki stjórnarskrá. Hins vegar vek ég athygli á því að innan þings sem utan eru mjög margir á því að frv. standist ekki stjórnarskrá landsins. Allflestir lögspekingar sem komið hafa til þingnefnda til að fjalla um frv. vara okkur við því að samþykkja það á þeirri forsendu. Ég vil taka slík varnaðarorð alvarlega og ég vil bera virðingu fyrir sannfæringu manna sem telja að þeir séu að brjóta stjórnarskrá með samþykkt frv. Þetta er ein ástæða fyrir því að stjórnarandstaðan telur að málið sé vanreifað og eigi að skjóta frekari umfjöllun um það á frest og láta það bíða haustsins.