Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:30:14 (8284)

2004-05-15 16:30:14# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér var skjalavörðurinn Björn Bjarnason, hæstv. dómsmrh., að verki sem heldur vel utan um gögn sín og m.a. utan um það bréf sem hann las upp í ræðustól áðan. Ég hef vitað lengi af því að hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason hefði þetta bréf undir höndum. Hann lét okkur vita af því í kosningabaráttunni í fyrra að hann hefði eitthvað slíkt í höndunum sem væri aldeilis hægt að nota gegn okkur ef honum hentaði svo. Hann veifaði þessu bréfi þá yfir hausamótunum á okkur þannig að við vissum vel að bréfið væri í höndum hans.

Við vissum líka vel í hvaða ástandi sá sem skrifaði það var þegar hann sendi bréfið til Björns og hvernig málum hans var háttað. Björn Bjarnason sem veit betur en hann gefur í skyn í ræðustólnum, hann veit hvernig þetta mál er tilkomið, kýs að koma í ræðustól Alþingis þegar við erum að ræða tiltekið mál, lesa upp bréf einstaklings með algerlega órökstuddar ávirðingar og bera þær á borð, ekki bara fyrir þing heldur fyrir þjóð. Þvílík smekkvísi.