Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:31:43 (8285)

2004-05-15 16:31:43# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki veifað þessu bréfi neitt. Ég talaði við einn hv. þm. síðasta vor um þetta mál og hef ekki verið að veifa þessu máli neitt. Ég hef verið með þetta mál og þetta bréf í höndunum og inni í tölvu minni í tvö ár. Ég hef ekki verið að veifa því neitt. Ég taldi hins vegar, í tilefni af þeim umræðum sem hér fóru fram og hvernig menn hafa nálgast þetta mál og hvaða dylgjur hafa verið um fjármál flokka og annað slíkt, tímabært að draga það fram. Ég heyrði náttúrlega og vissi alltaf að það væri vandmeðfarið því nú er farið að tala um það að bréfritarinn hafi verið í einhverju ástandi. Ég skil ekki í þessu. Á að kenna boðbera hinna válegu tíðinda um þetta? Málið snýst ekkert um það. Málið snýst um að þetta er það sem hann fékk og þess vegna kýs ég að ræða þetta hér líka. Bæði er í salnum hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og einnig hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem var framkvæmdastjóri Samf. á þessum tíma þannig að bæði hafa þau tækifæri til þess að skýra mál sitt. Mér finnst lágt lagst ef það er skýrt á þann veg að sá einstaklingur sem á í hlut, bréfritari, eigi eitthvað bágt. Hann var þó ráðinn kosningastjóri Samf.