Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:38:42 (8292)

2004-05-15 16:38:42# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hann er alveg með ólíkindum, sá málflutningur sem hæstv. dómsmrh. fylgir hér. Hann tekur þátt í að nefna leikritið sem var skrifað og átti að ganga upp með undirritun handhafa forsetavalds í dag eða á morgun. Því miður ruglaðist leikritið, því miður fyrir hæstv. ríkisstjórn. Við höfum orðið vitni að aumkunarverðum lestri hæstv. dómsmrh. þar sem hann fjallar um viðskipti þar sem aðili býðst til að selja ákveðið lén. Hans góða vinkona, Inga Jóna Þórðardóttir, og flokkssystir sem hann ýtti út úr borgarstjórn með svo eftirminnilegum hætti situr einmitt í stjórn Aflvaka og tók þátt í því að hafna þessu erindi. Hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason verður sjálfur að velja sér sinn drullupoll til að busla í. Vonandi gleymir hann ekki sundskýlunni. Mér finnst einhvern veginn að gusugangurinn muni fyrst og fremst slettast upp á hæstv. dómsmrh. að þessu sinni.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmenn um að sýna háttvísi í orðum.)