Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:39:59 (8293)

2004-05-15 16:39:59# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:39]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Nú fer málið að flækjast svolítið þegar farið er að draga stjórn Aflvaka inn í það. Ég hef setið í stjórn þess fyrirtækis og séð það. Ég veit ekki til þess að þetta mál hafi nokkuð verið á dagskrá þess og veit ekki hvaðan hv. þm. hefur upplýsingar sínar þegar hann ræðir um að þetta sé vandamál Aflvaka eða fyrirtækja á vegum borgarinnar.

Hvernig má það vera? Var Aflvaki í samvinnu við Jón Ólafsson og Sigurð G. Guðjónsson um þetta mál sem maðurinn er að tala um í bréfinu? Ég held að málið verði flóknara eftir því sem samfylkingarmenn ræða þetta meira. Ég hef ekki orðið var við að þessi krafa hafi verið á hendur Aflvaka hf. sem er ekki fyrirtæki sem sinnir þessum málum sérstaklega. Hv. þm. setti á ræðu hér 10. maí og sá fyrir sér eitthvert leikrit sem varð væntanlega til þess að forseti Íslands kom til landsins. Síðan er sagt við okkur að við megum ekki tala um það mál. (Gripið fram í.) Hann verður að skýra þetta líka betur, þessa rullu. Hver samdi þennan texta fyrir hv. þingmann? Ekki veit hann neitt um borgarmál í Reykjavík.