Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:28:23 (8305)

2004-05-15 17:28:23# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég rifja það upp af þessari síðustu spurningu hv. þm. að sú var tíðin að ég gerði það að umræðuefni í hinum virðulegu sölum Alþingis hvort ekki ætti að útvega Samkeppnisstofnun slík úrræði. Þá var því svarað til af hæstv. viðskrh. að næg úrræði væru nú þegar fyrir hendi.

Það er hins vegar rangt skilið hjá hv. þm. að ég hafi sagt að samkeppnislögin og Samkeppnisstofnun ein sér eigi að duga í þessum efnum. Ég taldi upp fern úrræði en ég sagði hins vegar alveg sérstaklega að samkeppnislögin og Samkeppnisstofnun ættu að duga til þess að uppræta samkeppnishamlandi aðgerðir eins og gætu birst í því að fyrirtækjarisi sem væri bæði með fjölmiðlafyrirtæki og fyrirtæki í óskyldum rekstri beitti fjölmiðlunum til þess að ívilna fyrirtækjum í óskyldum rektri, t.d. í gegnum beinar eða óbeinar auglýsingar. Það felur í sér samkeppnishamlandi aðgerðir sem Samkeppnisstofnun ætti þá að reyna að uppræta og hefur til þess margvísleg úrræði.

Spurningin sem hv. þm. varpaði til mín um það hversu mikla útbreiðslu eða stóra markaðshlutdeild fyrirtæki ættu að hafa til þess að ráðist væri gegn þeim, ég ætla ekkert að segja um það, það er annarra yfirvalda í samfélaginu að gera. Ég vil hins vegar að það komi alveg skýrt fram að ég tel að samþjöppun á eignarhaldi í fjölmiðlun getur hugsanlega, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, til lengri tíma haft óæskileg áhrif og það er nákvæmlega af þeim sökum sem við höfum lagt fram ákveðnar hugmyndir til að koma í veg fyrir það. Ég tel að staðan sé ekki sú á markaðnum í dag, hún getur komið upp og það er þess vegna sem við höfum tíma til að ræða málið frekar, en ég tel (Gripið fram í.) að aðferðir Samf. sem við höfum skýrt í umræðunni séu áhrifaríkari en (Forseti hringir.) þær leiðir sem farnar eru í frv. forsrh. enda eru menn hvarvetna að hverfa frá þeim.