Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:30:41 (8306)

2004-05-15 17:30:41# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Frú forseti. Hér hafa þegar orðið langar umræður um mál þetta. Ég er sjálfur þeirrar gerðar að ég á erfitt með að halda ræður, ég tala nú ekki um langar ræður, um mál sem ég hef ekki kynnt mér til hlítar. Hér er því haldið fram að þetta mál sé vanreifað og menn hafi ekki getað kynnt sér það til hlítar. Samt er staðfest í síðustu ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að menn hafa verið að tala um það af hálfu stjórnarandstöðunnar allt upp í tvo tíma. Ég trúi því ekki að menn komi upp í ræðustól og misbjóði þingmönnum og þjóðinni með því að tala um mál í 11/2--2 tíma án þess að hafa kynnt sér þau til hlítar. Ég hlýt að telja að það sé algjörlega víst og öruggt að menn hafi kynnt sér þau til hlítar áður en þeir tala um mál svo lengi. Fullyrðingar um að þetta mál sé vanreifað eða vankynnt eða liggi ekki ljóst fyrir hljóta að falla um sjálfar sig.

Það er auðvitað margt sem hefur skýrst á undanförnum dögum og reyndar líka jafnvel dularfyllstu mál sem maður á erfitt með að skilja. Einhvern veginn er það svo að á þeim finnast fyrr eða síðar skýringar. Ég hef eins og mjög margir aðrir lengi átt bágt með að skilja hvert var tilefni hinna frægu Borgarnesræðna. Ég tel að það mál hafi aðeins skýrst við þessa umræðu. Ég hef líka átt mjög erfitt með að skilja hvers vegna og hvernig á því stendur að Samf. hefur algerlega farið í för og föt Norðurljósa í allri þessari umræðu. Þar skilur hvergi á milli, ekki bókstaf á milli, og öll rök sem þaðan koma eru ekki bara tekin gild heldur étin upp hver á fætur öðrum af talsmönnum Samf. Kannski mun það gerast einn góðan veðurdag að menn fái einhverjar skýringar á því, rétt eins og menn eru aðeins farnir að fá skýringar á því hvers vegna Samf. ákvað fyrir síðustu kosningar að gera þrjú fyrirtæki, Jón Ólafsson, Baug og Kaupþing, sérstaklega að sínum fyrirtækjum. Hann er aðeins byrjaður að skýrast fyrir mönnum, sá mikli leyndardómur sem enginn maður skildi, hvar sem hann var í flokki, hygg ég vera. Kannski á þetta eftir að skiljast þegar fram í sækir, þessi furðulega andstaða sem við erum að horfa á hér, að heill stjórnmálaflokkur skuli með þessum hætti kokgleypa og gera að sínum rök eins fyrirtækis eða eins auðhrings í landinu. Þetta hefur maður aldrei séð.

Ég nefni dæmi. Þegar fyrirtækið Norðurljós hélt því fram eftir að skýrslan kom fram og síðan frv. að starfsfólkið yrði rekið kom hver talsmaður Samf. á fætur öðrum --- ég man sérstaklega eftir formanni Samf., fyrir utan hann --- og sagði að allt starfsfólkið yrði rekið, mundi missa vinnuna. (ÖS: Hvaða vitleysa.) Það reyndist vitleysa. Það reyndist nefnilega vitleysa. Það hefur enginn verið rekinn. Meira að segja kemur fram núna að formaður Samf. veit að það reyndist vitleysa. Það hefur enginn starfsmaður verið rekinn. Það er reyndar þannig, og það ættu allir menn að geta séð, að það fer ekki eftir því hver eigandinn er hvort fólk starfar við fyrirtæki, eins og látið var í veðri vaka.

Þegar fulltrúar Norðurljósa héldu því fram í byrjun að skaðinn af þessu máli gæti orðið 300 millj. --- 300 millj., mér fannst það kunnugleg tala af einhverjum ástæðum --- var sú fullyrðing étin upp strax. Ég get nefnt dæmi um hver gerði það. Síðan þegar þessi tala hækkaði í 700 og í 1.500 millj. voru þær tölur étnar upp strax og talsmenn Samf. gerðu þær að sínum. Á þessu hafa ekki fengist neinar skýringar.

Nú nýverið og nú síðast héldu fulltrúar Norðurljósa því fram að brtt. sem gerðar voru væru eins og sniðnar handa Skjá 1 en það hafa forráðamenn þess fyrirtækis reyndar hrakið. Um leið og þetta var sagt komu talsmenn Samf. fram, hér inn í þingið og opinberlega, og sögðu: Brtt. eru eins og sniðnar handa Skjá 1. Hvernig vissu þeir það? Hvað vita þeir svona mikið um Skjá 1? Ekki veit ég neitt um Skjá 1 en þeir fullyrtu þetta alveg eins og skot. Þegar fyrirtækið fullyrti að öll lán Norðurljósa væru í uppnámi, sem enginn banki hefur fullyrt, fullyrtu talsmenn Samf. um leið að öll lán þessa fyrirtækis væru í uppnámi. Aðallánveitandinn, Landsbankinn, hefur enga yfirlýsingu gefið. Kannski gæti talsmaður Landsbankans sem hér er nú staddur sem þingmaður Samf. eitthvað upplýst okkur um það atriði. Það er hugsanlegt, ég skal ekki um það segja. (Gripið fram í.) Ég skal ekki um það segja en það er hugsanlegt.

Umræðan hefur öll verið á þessa lund. Einhvern tíma, einn góðan veðurdag kannski, fáum við e.t.v. upplýst hvernig á þessu stendur. En það eru engin skil, ekki hin minnstu skil, á milli málflutnings Norðurljósa og Baugs og Samf.

Ég tók eftir því að þegar þetta frv. var lagt fram kom formaður Samf. og sagði að Ísland væri að verða bananalýðveldi. Þetta var ekki sagt með skynsamlegum hætti um Ísland af hálfu talsmanns þessa flokks. Þá spurðu menn: Bíðum nú við, hvenær er talið að þjóð verði að bananalýðveldi? Það er þegar auðhringar, einn, tveir eða þrír, hafa náð öllum völdum, náð undir sig fjölmiðlunum og stjórnmálaflokkum. Þá verða lönd, lýðveldi, að bananalýðveldum, ég tala nú ekki um þegar síðan eru skaffaðir bananarnir til að skreyta Alþingishúsið með af hálfu sömu fyrirtækja. Þetta er mikið umhugsunarefni, allt saman. Einn góðan veðurdag kannski mun þetta vonandi allt upplýsast.

Í 37 ræðum sem fulltrúar Samf. og stjórnarandstæðingar hafa flutt hefur verið fullyrt að þetta mál beindist að einu fyrirtæki. Síðan er komið með miklum undrunarsvip og sagt: Bíddu, eru menn að halda því fram í tilefni af hugsanlegum afskiptum forseta Íslands að þetta mál beinist að einu tilteknu fyrirtæki? Það segja sömu aðilar og hafa haldið þessu fram í 37 ræðum í salnum.

Beinist að einu fyrirtæki. Gætir ekki meðalhófs. Þetta eru fullyrðingar sem hér eru settar fram. Það er enginn leyndardómur í þessum málum, það er engin launung í þeim. Í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar segir að á Íslandi sé komið upp ástand sem ekki sé boðlegt og engin ríkisstjórn og ekkert löggjafarvald nokkurs staðar um heiminn mundi láta líðast. Ef menn bregðast við því ástandi geta menn auðvitað kallað að því sé beint gegn einu fyrirtæki. Meginspursmálið er samt þetta: Er það gert með almennum reglum sem allir aðrir verða að lúta jafnframt? Það er auðvitað mergurinn málsins.

Hér hafa menn haldið því fram að stjórnarskráin spilaði stóra rullu. Ótrúlegustu ákvæði stjórnarskrárinnar hafa verið tínd til, líka af mönnum sem bersýnilega þekkja ekkert til hennar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi að þegar EES-samningurinn var til umræðu sællar minningar og við sátum saman í ríkisstjórn með ágætum árangri hafi verið brugðist við með tilteknum hætti. Þá var um það að ræða að í íslenskum lögum er framsal valds til erlends valds ekki heimilt, eins og það er hins vegar í lögum margra annarra ríkja. Þess vegna urðu menn við þann samning að gaumgæfa það mál sérstaklega. Við fengum góða lögfræðinga til að annast þá úttekt. Það dugði ekkert til. Ásakanirnar héldu áfram, meira að segja af þeim sem voru fyrst á móti og svo með og hafa síðan nýverið hrósað sér af í blaðagreinum fyrir að hafa stutt þennan sama mikla samning. Það er að vísu misminni. Þá lá málið allt öðruvísi fyrir heldur en hér og nú.

Hvers vegna verður manni ekki um og ó þegar talsmenn stjórnarandstöðunnar segja að mál þetta brjóti í bága við stjórnarskrána? (Gripið fram í: Þú ert svo vanur.) Hvers vegna verður manni ekki um og ó? (Gripið fram í: Þið eruð margdæmdir.) Af því að við erum svo vön því að heyra það. Ég bað um að það yrði tekið saman fyrir mig í fljótheitum. (Gripið fram í.) Ég ætla að nefna það að gamni mínu, af því að mér finnst það svo viðeigandi, að stjórnarandstæðingar hafa talað í 3--4 sólarhringa og það er óþekkt að menn hafi reynt að stöðva mál þeirra með gjammi og frammíköllum, óþekkt. (Gripið fram í: Nú?) Það er óþekkt. Um leið og stjórnarsinnar tala, hver sem er, byrjar þetta gjamm fram í. Reyndar er einn aðalgjammarinn því miður fjarstaddur. En þá byrjar þetta gjamm og meira að segja á þessum væng herbergisins hefur varla verið líft fyrir gjamminu. En látum það nú vera, það gerir manni sjálfsagt ekkert til. (Gripið fram í.) Ég skal hinkra meðan þeir sem eru búnir að tala í fjóra sólarhringa fá extramál ef þeir vilja.

Ég var að tala um það hvers vegna manni yrði ekki um og ó. Það er vegna þess að við erum svo vön þessu. Ég lét taka það saman hvenær menn veifa stjórnarskránni. Það er auðvitað bara í allra stærstu málum, ekki satt? Það sé ekki hægt að afgreiða mál til þess að brjóta í bága við stjórnarskrána.

Mál um starfsréttindi tannsmiða. Þá var því haldið fram að það mál væri í vandræðum með stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Mál um fjáröflun til vegagerðar, afsláttur af þungaskatti. Þá var því haldið fram að það mál væri í vandræðum með stjórnarskrána. Það var svolítið skemmtileg sjón að sjá þennan. Jarðalög, lögræðisaldur. Þá var því haldið fram að það mál bryti í bága við stjórnarskrána. Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum, sauðfjárafurðir. Þá var því auðvitað haldið fram að þessi mál brytu í bága við stjórnarskrána. Almannatryggingar, tekjutrygging örorkulífeyrisþega, auðvitað brot á stjórnarskrá allt saman. Kjaramál fiskimanna og fleira, breytingar á ýmsum lögum, stangast algjörlega á við stjórnarskrá. Stjórn fiskveiða, krókaaflamarksbátar, brot á stjórnarskrá. Veiðigjald, brot á stjórnarskrá. Fiskveiðar utan lögsögu Íslands, norsk-íslenski síldarstofninn. Það var nú heldur betur brot á stjórnarskrá, norsk-íslenski síldarstofninn, það vantar ekkert upp á það. Allt í voðanum með stjórnarskrána út af norsk-íslenska síldarstofninum. Man ekki einhver eftir því? (Gripið fram í.) Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar, allt brot á stjórnarskrá í bak og fyrir að mati þessara manna. Fjármálafyrirtæki, heildarlög, allt saman brot á stjórnarskrá af hálfu þessara talsmanna. Vernd og friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, þar voru ekki bara stjórnarandstæðingarnir. Allt meira og minna brot á stjórnarskrá. (Gripið fram í: Jæja.) Meira að segja rjúpan var brot á stjórnarskrá. Álverksmiðjan í Reyðarfirði auðvitað, logandi brot á stjórnarskrá fram og til baka. Ábyrgðarsjóður launa, heildarlög, EES-reglur, aldeilis brot á stjórnarskrá, mikil brot á stjórnarskrá. Tekjuskattur og eignarskattur, viðmiðunarfjárhæðir, brot á stjórnarskrá auðvitað, stórfellt brot á stjórnarskrá.

Við gætum bara ekki afgreitt nokkurt einasta mál ef við hlypum eftir allri þessari vitleysu.

Nú vill þannig til varðandi þetta mál hins vegar að í nefndaráliti meiri hlutans er farið greinilega og vel yfir þessi atriði og hrakið fullkomlega að ástæða sé til að halda því fram að stjórnarskrá verði brotin með nokkrum hætti. Upp úr stendur eftir þessar umræður að mál þetta er vel reifað en þeir sem hafa fjallað um það efnislega og málefnalega og tekið mið af almennum efnislegum rökum en ekki fengið aðsendar athugasemdir utan úr bæ --- ég vek athygli á því að af 94 síðum í nefndaráliti Samf. eða stjórnarandstöðunnar eru 47 frá Norðurljósum, réttur helmingur --- þeir sem hafa hins vegar fjallað um þetta efnislega með málefnalegum rökum hafa sýnt fram á að þetta mál er vel undirbyggt, er í samræmi við almannaþarfir, er til langs tíma í almannaþágu, styrkir lýðræði, frelsi og frjálsa umræðu í landinu.