Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:49:47 (8311)

2004-05-15 17:49:47# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:49]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í ræðu minni í dag að hinn pólitíski ófriður hefði gengið of langt. Hinn pólitíski ófriður á Alþingi og í þjóðfélaginu hefur gengið of langt í þessu máli og það gerðist í gær. Það gerðist í gær að það urðu skil í málinu og það gerðist í viðtali hæstv. forsrh. í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi. Ég held að allir hér inni skilji það og ég held að allir úti í samfélaginu skilji það. Það var innsiglað í umræðunni í dag hversu langt þetta er gengið. Það var innsiglað í þeim dylgjum og þeim óhróðri sem yfir okkur hefur verið velt hér af hæstv. ráðherrum, dómsmrh. og forsrh.

Ég verð að endurtaka það sem ég sagði í dag við þessa ágætu herramenn: Ekki meir, ekki meir. Takið þetta mál út (Forseti hringir.) og reynum að ræða það á skynsamlegum nótum en ekki með óhróðri og dylgjum og illmælgi.