Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:52:14 (8313)

2004-05-15 17:52:14# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að rifja upp fyrir fólki í þingsal hvað hæstv. forsrh. sagði í þessu viðtali og hvernig hann fjallaði þar um forsetann, hvernig hann fjallaði um það fólk sem næst honum stendur í því viðtali. Það vita auðvitað allir sem sáu það og voru í rauninni svo slegnir þegar þeir heyrðu það að það minnti helst á viðtalið á bolludaginn fyrir ári síðan þegar þjóðin var líka mjög slegin yfir því hvernig hæstv. forsrh. leyfir sér að tala til þjóðarinnar og leyfir sér að tala um þá menn, og ég endurtek þar aftur varðandi forseta Íslands, sem eru þjóðkjörnir til þeirra starfa sem þeir sinna. Þeir eru þjóðkjörnir til þeirra starfa sem þeir sinna og hæstv. forsrh. verður að sýna ákveðið jafnaðargeð þegar hann fjallar um þá og þau embætti sem þeir gegna.