Atvinnuleysistryggingar

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 18:24:03 (8325)

2004-05-15 18:24:03# 130. lþ. 116.4 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv. 34/2004, Frsm. GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, með síðari breytingum.

Málið er í sjálfu sér einfalt og þarf kannski ekki mikillar útskýringar við en í stuttu máli einskorðast efni frv. við hækkun hámarksbóta atvinnuleysistrygginga sem kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997. Lagt er til að fjárhæð hámarksbóta í lagaákvæðinu verði hækkuð úr 2.752 kr. í 4.096 kr. á dag. Hámarksbótum atvinnuleysistrygginga hefur nokkrum sinnum verið breytt frá því sem segir í núgildandi ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna með auglýsingu félagsmálaráðherra og hafa frá 1. janúar 2004 verið 3.681 kr. Hækkun hámarksbóta er því 11,3%.

Frumvarpið er lagt fram í tengslum við kjarasamning Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaður var 7. mars sl., en þá lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún mundi beita sér fyrir þeirri hækkun atvinnuleysisbóta sem frumvarpið kveður á um.

Í stuttu máli munu bæturnar taka gildi frá 1. mars 2004 og nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir þetta skrifa Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðjón Hjörleifsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Helgi Hjörvar, með fyrirvara, og Gunnar Örlygsson með fyrirvara.