Atvinnuleysistryggingar

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 18:25:55 (8326)

2004-05-15 18:25:55# 130. lþ. 116.4 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv. 34/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það ber auðvitað að fagna því að hæstv. félmrh. skuli hér leggja til aukningu á atvinnuleysisbótum. Það verður hins vegar að rifja upp að þetta er ekki að frumkvæði hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnarinnar, heldur er þetta afrakstur kjarasamninga. Það er fyrst og fremst afl verkalýðshreyfingarinnar sem veldur því að þetta frv. er lagt fram.

Ég fagna því hins vegar að Framsfl. skuli með þessum hætti stíga svolítið skref í áttina að því að efna það loforð sem hann gaf í samþykkt á landsfundi sínum --- (Gripið fram í: Flokksþingi.) flokksþingi sínu á síðasta ári. Þá var samþykkt, svo ég rifji það upp, sérstaklega fyrir hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og Hjálmari Árnasyni, formanni þingflokks Framsfl., að það væri stefna Framsfl. að atvinnuleysisbætur mundu nema lægstu launatöxtum.

Nú eru lægstu launataxtar, herra forseti, komnir upp í 100 þús. kr. Þá mætti auðvitað spyrja: Hvernig stendur á því að hæstv. félmrh. stendur ekki við þetta loforð og leggur fram frv. sem efnir það? Auðvitað ber að fagna því að hérna skuli vera um svolitla hækkun að ræða en það vantar töluvert mikið upp á að hæstv. ráðherra efni loforð sitt.

Af hverju er þá nauðsynlegt að ráðast í frekari hækkun en þá sem hér er lögð til?

Það má rifja upp að Framsfl. hefur feril í þessu máli. Eitt fyrsta verk sem flokkurinn réðst í þegar hann settist í ríkisstjórn 1995 var að taka fram niðurskurðarskærin og klippa á tengsl atvinnuleysisbóta og launavísitölu. Þetta hefur leitt til þess að atvinnuleysisbætur eru í dag miklu lægri en þær hefðu verið hefði sama kerfi ríkt og var við lýði m.a. á sælum dögum hæstv. þáverandi félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ef sama kerfi væri ríkjandi í dag og var þá væru atvinnuleysisbætur 15 þús. kr. hærri í hverjum mánuði. Á hverju ári væru atvinnuleysisbætur 180 þús. kr. hærri en þær eru í dag. Þetta þýðir í reynd að fyrir tilstilli Framsóknar er búið að rýra bæturnar frá því sem þær hefðu verið um sem svarar tveimur mánaðarlegum bótum á ári.

Þessu til viðbótar hefur síðan Sjálfstfl. og sérstaklega hæstv. fjmrh. komið til aðstoðar til að halda niðri þessum Íslendingum sem búa við hvað lökust kjör því að frá 1995 hefur skattkerfið breyst með þeim hætti að atvinnulaust fólk greiðir á hverju ári í tekjuskatt sem nemur mánaðarlegum bótum þannig að ekki er vanþörf á því að aðeins verði gefið í.

Það má líka rifja upp að kaupmáttur almennra launa jókst frá 1999--2002 minnir mig um 10%. Á sama tíma jókst kaupmáttur lífeyrisþega almannatryggingakerfisins um 2% en kaupmáttur atvinnuleysisbóta bara um 1%.

Það þarf að gera betur, herra forseti, og ég kem þess vegna aðallega hér upp til þess að mæla fyrir brtt. við þetta frv. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fram brtt. ásamt hv. þm. Helga Hjörvar, Valdimar Leó Friðrikssyni, sem hér sat sem varamaður, Gunnari Örlygssyni og Ögmundi Jónassyni.

Tillagan gerir ráð fyrir því að ný frumvarpsgrein bætist við frv. sem, ef samþykkt yrði, leiddi til þess að þeir sem atvinnulausir eru fengju í desember sérstaka uppbót sem nemur 30% á bætur þess mánaðar. Ég vil sérstaklega rifja það upp að í dag fá lífeyrisþegar svona uppbót þannig að hér er um jafnræðismál að ræða. Ég held þess vegna, herra forseti, að í lok þessa róstusama dags ættu hv. þm. að reyna að finna friðinn í hjarta sínu og sameinast um góð verk og samþykkja þessa tillögu sem þeir hv. þm. hafa lagt til.

Ég vil svo segja það, herra forseti, að það er nauðsynlegt að þetta frv. verði samþykkt hið fyrsta til að hægt sé að greiða út atvinnuleysisbætur eftir helgi. Þess vegna mun Samf. ekki frekar ræða þetta mál í dag og styðja það af alefli að frv. verði lokið og það gert að lögum hið fyrsta á þessum degi.