Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 18:37:26 (8329)

2004-05-15 18:37:26# 130. lþ. 116.2 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, JÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Jóhann Ársælsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er í raun og veru hluti af þeirri niðurstöðu ríkisstjórnarinnar að setja á veiðigjald. Þannig hagar til að ef frv. verður ekki samþykkt þá bætast þau gjöld sem koma vegna veiðigjaldsins ofan á þau gjöld sem fyrir eru á sjávarútveginum.

Við reyndum ítrekað í nefndinni að fá upplýsingar um hvaða áhrif þetta hefði á fjármuni sem rynnu til ríkissjóðs frá sjávarútveginum á þessu ári en það tókst aldrei og okkur fannst því að taka ætti málið inn í nefndina á milli 2. og 3. umr. og fá fram þær upplýsingar. Það er ekki enn komið fram sem við báðum um og því treystum við samfylkingarmenn okkur ekki til annars en að sitja hjá við afgreiðslu málsins því við sjáum ekki hver niðurstaðan er í raun og veru í fjármunum. Við höfðum fyrir því yfirlýsingar stjórnvalda að veiðigjaldið ætti að koma sem gjald frá sjávarútveginum fyrir afnot af auðlindinni en við erum engu nær um það hvort sjávarútvegurinn greiðir meira eða minna en hann greiddi áður á þessu ári með því frv. sem hér liggur fyrir. Okkur finnst ótækt að upplýsingar af þessu tagi liggi ekki fyrir þegar verið er að fást við slíka niðurstöðu eins og við erum að gera hér.