Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 18:41:30 (8331)

2004-05-15 18:41:30# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[18:41]

Bryndís Hlöðversdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér á að greiða atkvæði um er flutt af hv. þm. stjórnarandstöðunnar í allshn. Við leggjum til að málinu verði vísað frá Alþingi og næsta mál á dagskrá tekið fyrir.

Umræða síðustu viku um málið staðfestir allt sem stjórnarandstaðan bendir á í nefndaráliti sínu. Málið er illa undirbúið. Það brýtur að öllum líkindum í bága við fjölmörg ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins og mannréttindasáttmála Evrópu, það brýtur auk þess líklega í bága við EES-reglur. Það felur í sér afturvirkni og brot á meðalhófsreglu. Það mun leiða til aukinnar fábreytni á fjölmiðlamarkaði og fara þannig þvert gegn markmiðum sínum. Það er sértækt og beinist gegn einu tilteknu fjölmiðlafyrirtæki og fréttaflutningi þess.

Málflutningur sjálfstæðismanna og framsóknarmanna á Alþingi staðfestir þetta en þeir hafa kvartað sáran yfir umfjöllun umrædds fjölmiðlafyrirtækis sem skaprauni stjórnvöldum svo notað sé þeirra eigin orðalag. Þetta er ekkert annað en krafa um opinbera ritskoðun sem felur í sér gróft brot á helgustu mannréttindum. Við stöndum vörð um tjáningarfrelsið, ríkisstjórnin verður að búa við gagnrýni og lýðræðislega umfjöllun í samfélaginu, ella ræður hún ekki við að stjórna þjóðarskútunni. Hingað og ekki lengra, virðulegi forseti. Við segjum já við því að vísa málinu frá þinginu og ég óska eftir nafnakalli um þá tillögu, virðulegi forseti.