Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 18:43:14 (8332)

2004-05-15 18:43:14# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Kolbrún Halldórsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Afstaða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í málinu er skýr. Við teljum fjölmiðlana gegna veigamiklu hlutverki í lýðræðislegri umræðu sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála og þjóðmála almennt. Við teljum fjölmiðlana líka hafa mikilvægu menningarhlutverki að gegna. Við höfum talað fyrir því að tryggja þurfi frjóan jarðveg fyrir fjölbreytta umræðu og fjölbreytt dagskrárframboð í íslenskum fjölmiðlum og kraftmikla íslenska dagskrárgerð.

Við höfum þó ævinlega undirstrikað mikilvægi þess að öflugt ríkisútvarp verði til staðar sem hafi lagalegum skyldum að gegna umfram aðra fjölmiðla í menningarlegu tilliti jafnt sem lýðræðislegu. Við höfum verið reiðubúin til að skoða lagasetningu til að tryggja ákveðna þætti í þessum efnum en við höfum hafnað þeim aðferðum sem beitt hefur verið við framlagningu þess frv. sem við nú greiðum atkvæði um. Við höfum mótmælt því hvernig hæstv. forsrh. hefur beitt óbilgjörnum aðferðum og beinlínis haft uppi tilburði til að ritstýra umræðunni t.d. með því að heimila ekki óhefta umræðu um skýrslu fjölmiðlanefndarinnar sem birt var í síðasta mánuði. Við höfum mótmælt óðagotinu og offorsinu sem einkennt hefur framgöngu hans í málinu og hefur verið fylgt eftir af samherjum hans í þjóðþinginu.

Minni hluti allshn. rökstyður í löngu máli í nefndaráliti sínu hversu mörg álitaefni eru uppi varðandi efnisatriði frv. auk þess sem málsmeðferðin er harðlega gagnrýnd. Álitamálin snúast um það hvort frv. standist ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins, Evrópurétt, mannréttindasáttmála Evrópu, almenna meðalhófsreglu og það hvort markmið lagasetningarinnar náist með þeim meðulum sem frv. býður upp á.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs telja óvissuna um þessi álitamál það mikla og ávirðingar málsmetandi umsagnaraðila svo alvarlegar að málið sé ekki talið tækt til þinglegrar meðferðar í þeim búningi sem það er lagt fram í. Breytingartillögur meiri hluta allshn. breyta þar engu um. Þess vegna stöndum við að framkominni tillögu minni hluta allshn. um að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá. Þegar það væri frá gætum við reynt að spóla til baka og byrjað upp á nýtt, látið sem frv. hæstv. forsrh. hafi aldrei komið fram og hafið umræðuna sem enn hefur ekki farið fram um skýrslu fjölmiðlanefndar menntmrh. og þær skýrslur aðrar sem liggja fyrir um fjölmiðlana okkar. Ég efast ekki um að þannig kæmu fram skynsamlegar tillögur um eftirsóknarvert fjölmiðlaumhverfi á Íslandi. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs erum tilbúin til að taka þann tíma sem þarf til þess en höfnum því að stíga um borð í þann rússíbana sem hæstv. forsrh. hefur boðið upp á.