Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 10:05:41 (8342)

2004-05-17 10:05:41# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, KLM (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[10:05]

Kristján L. Möller (um fundarstjórn):

Forseti. Ég kem til að mótmæla því að hér sé 2. dagskrármál tekið á undan 1. máli. Hér hafa þingmenn fengið dagskrá þar sem stjórn fiskveiða er 1. mál á dagskrá og út frá því höfum við, a.m.k. þingmenn Samf., unnið og undirbúið okkur undir það, í morgun m.a. og í gær. Tölvupóstur barst í gær frá skrifstofu Alþingis um að ekki væri gert ráð fyrir hefðbundnum fundi þingforseta með formönnum þingflokka eins og gert er ráð fyrir venjulega á mánudögum, að ræða um störf þingsins og skipuleggja vinnuvikuna. Það er með öllu ólíðandi, virðulegi forseti, að þingflokkar þurfi að átta sig á því um leið og gengið er í húsið, við það að sjá að öll forusta landbrn. gengur í salinn, og að fyrir hálfgerða tilviljun sé sá forseti sem sestur var í forsetastól, varaforseti Birgir Ármannsson, sem einhverra hluta vegna hefur verið skipt út núna, um það spurður hvort ekki væri ætlunin að fara eftir hinni prentuðu dagskrá þannig að stjórn fiskveiða komi fyrst á dagskrá. Þá fyrst, hálfri mínútu áður en fundur er settur, eigum við þingflokksformenn og þingflokkar að fá að vita að 2. málið verður tekið fyrst á dagskrá.

Virðulegi forseti. Við höfum orðið vör við margt í síðustu viku um hvernig haldið er á þingstörfum og keyrt áfram eftir happa-glappaaðferð, því miður. Oft og tíðum hefur ekki verið hlustað á tillögur okkar stjórnarandstæðinga sem komu á daginn seinna meir að voru bestu tillögurnar og hefði verið best að fara eftir þeim til að þingið þróaðist vel og til að liðka fyrir umræðu. Hér á sem sagt að halda áfram á sömu braut og þess vegna vil ég spyrja, virðulegi forseti: Hver er ástæðan fyrir því að það þarf að breyta þessu núna? Í öðru lagi spyr ég hvort ekki hefði verið ástæða fyrr í morgun til að hafa samband, úr því að ekki er hægt að halda formlega fundi, við formenn þingflokka og leita að lágmarki eftir samþykki við þessu ráðslagi. Ég krefst þess, virðulegi forseti, að það verði farið eftir dagskrá og 1. mál samkvæmt prentaðri dagskrá, um stjórn fiskveiða, verði tekið á dagskrá þingsins enda höfðu menn ekki hugmynd um annað, nema e.t.v. sá hæstv. forseti sem nú er kominn í forsetastól og er tekinn við stjórn fundarins.