Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:28:58 (8354)

2004-05-17 11:28:58# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hlý orð hv. þingmanns í minn garð. Jú, málið kemur seint fram en núgildandi mjólkursamningur gildir til 1. september 2005. Hér erum við að marka nýja framtíð eftir þann tíma. Mér fannst mikilvægt fyrst þingið er að störfum að klára þetta mál á vorþingi og hef fundið samstöðu og áhuga bæði þingmanna í stjórn og stjórnarandstöðu fyrir því að svo yrði gert til þess að skapa mjólkurbændum ljósari framtíð og eyða réttaróvissu.

Hvað varðar það sem hv. þm. minntist á þá hef ég vissulega gagnrýnt það mikla verðstríð sem geisað hefur á kjötmarkaði og leikið þann markað grátt, bæði búgreinarnar að hluta til og auðvitað verð til bænda. Það eru undirboð og sala á vörum undir kostnaði. En ég vil taka fram, hæstv. forseti, að í þeirri skýrslu sem ég vitnaði í --- Eiríkur Tómasson prófessor og Árni Vilhjálmsson lögmaður skiluðu mér henni --- þá fjölluðu þeir á lokablaðsíðu um leiðir sem þeir gætu séð fyrir sér, um svokallað inngripsverð af hálfu landbrh. Ef um einhvern tiltekinn tíma hefur verið óeðlilegt ástand á markaðnum þá gæti hann gripið þar inn í. Hugmyndir eru því auðvitað hér á borðinu. Þær eru í samræmi við margt sem gerist í nálægum löndum. Ég hef rætt það mál í ríkisstjórn og það hefur verið rætt í þingflokkum. En á þessu þingi verða ekki gerðar tillögur um það mál eða flutt frumvörp. Það verður gert síðar. Ég vil ekkert um það segja nú hvort það verður niðurstaðan. En það er ekki til umræðu hér að þessu sinni.