Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:31:14 (8355)

2004-05-17 11:31:14# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:31]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Um það frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem hæstv. ráðherra hefur líka mælt fyrir og varðar mjólkurframleiðsluna vil ég fyrst spyrja ráðherra hvort hann sé ekki vonsvikinn yfir því að hafa ekki náð að halda samningnum óbreyttum að fjármagni til. Hér er gert ráð fyrir 1% niðurskurði á ári út samningstímann. Ef við lítum til Evrópuumræðu Framsóknarflokksins, að minnsta kosti sumra þar þá telja menn að hægt sé að fá meiri styrki inn í landbúnaðinn með því að ganga í Evrópusambandið. En þarna er hæstv. ráðherra að bakka út og framlag ríkisins inn í þennan heildarpakka til mjólkurframleiðslunnar er að lækka um 1% á ári.

Í öðru lagi vil ég nefna að staða nautakjötsframleiðslunnar er í miklum vanda og miklu uppnámi. Að óbreyttu getur farið svo að nautakjötframleiðsla leggist af hér á landi og við verðum algerlega háðir innfluttu nautakjöti. Nú er reyndar kveðið á um að færa hluta af þessum greiðslum yfir á grip, á þá framtalda kú væntanlega, eftir því sem ég hef skilið það, bæði í kjötframleiðslu og í mjólkurframleiðslu. Hefði ekki verið hægt að láta það ákvæði varðandi nautakjötsframleiðendur koma strax til framkvæmda þannig að þeir sem eru með holdakýr og framleiða nautakjöt fengju nú þegar aðgang að þeim stuðningi sem gert er ráð fyrir að komi síðar meir inn í samningnum?

Ég vildi síðan benda á að ráðherra hefur fellt niður eða úr þessum lögum hefur fallið niður öll heimild til þess að beita tollvernd eða inngripi í innflutning landbúnaðarvara með tollum. Það hefur algerlega fallið niður og ekki er minnst á það í þessum lögum og hlýtur það að veikja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar þegar fram í sækir.