Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:38:04 (8358)

2004-05-17 11:38:04# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:38]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessi orð. Hann hefur greint það eins og fleiri að mikil þróun og mikil nýsköpun er í sveitunum. Mikill kraftur hefur síðustu ár einkennt íslenska bændur bæði við að breyta og er þeir búa sig undir harðari framtíð, þjóna neytendunum betur og reka bú sín betur. Ég finn að hv. þm. greinir þessa þróun. Vissulega er það rétt sem hann segir að þrýstingur erlendis frá getur stuðlað að því, þessir alþjóðlegu samningar.

Ég tel að þessi samningur sé búinn öllum kostum til þess að mæta þeirri þróun. Bændurnir hafa langan tíma og afurðastöðvarnar fá tíma og ákvæði eru þar slík að ef samningar eiga sér stað og sú þróun sem alþjóðasamningarnir boða tekur gildi á alþjóðavettvangi þá eru bændurnir búnir undir það í samstarfi við ríkisvaldið að breyta þessum samningi í þá átt.

Hvað varðar síðan breytingarnar þá er það samningsatriði að þær komist smátt og smátt til framkvæmda. Þær eru mikilvægar að mínu viti, bæði þessi gripastuðningur og ekki síður jarðræktin því að landbúnaðurinn er náttúrlega mikið verkefni. Eins og ég sagði áðan þá er fleira búskapur en að mjólka kýr. Fleira þarf að hafa í huga í ræktunarbúskapnum, gróandi jörð með öllu því besta, endurræktun og svo framvegis, sem gerir búið hagkvæmara.

Hvað varðar síðan verðlagninguna þá held ég að hér sé mikilvægt fyrst og fremst það sem ég rakti áðan, að mjólkuriðnaðurinn fái að skipuleggja sitt starf áfram til að halda vinnslunni í landinu þannig að hún tapist ekki, fái að starfa saman og svo er hitt auðvitað mjög uppi nú að hinir smærri aðilar í smásölu telja sig eiga líf sitt að hluta til undir því að eiga sama aðgang að dagvörunum og stóru keðjurnar, í smásöluversluninni, eiga sama rétt til að bjóða neytendum sínum þessa vöru á sama verði í litlu keðjunni eða hjá kaupmanninum á horninu. Og það er tryggt hér, hæstv. forseti.