Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:42:44 (8360)

2004-05-17 11:42:44# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að bændurnir hafa mjög hagrætt á síðustu árum og þeir eru með sterkari bú til að mæta framtíðinni. Síðan er það spurningin hvort afurðastöðvarnar hafi hagrætt. Ég tel að þær hafi mjög hagrætt. Þeim hefur fækkað gríðarlega. Ég hygg að á sama tíma hafi þeim fækkað --- ja, sjö, átta afurðastöðvar hafa horfið af vettvangi. Síðan er ljóst að afurðastöðvarnar hafa ekki eða tóku ekki hækkun til sín til dæmis um síðustu áramót. Neytendur hafa því notið þess. Á sama tíma og bændurnir hafa fækkað þeim um þessa tölu og hagræðing hefur átt sér stað ---- ég er með opinbert yfirlit frá Hagstofu Íslands yfir þessa þróun sem ég var að nefna frá 1992 --- þá kemur í ljós að verð á landbúnaðarvörum hefur hækkað minna en annað, miklu minna, og verð á sumum landbúnaðarvörum hefur lækkað í verði á þessum tímabili, til dæmis á smjöri um 15%, á rjóma um 2%. Mjólk hefur hækkað um 20% meðan ýmsar aðrar afurðir, ekki síst innfluttar, hvort sem það er strásykurinn eða rúgbrauðið, hafa hækkað um þetta frá 100% upp í 140%. Stórlúðan hefur hækkað um 128% á þessu tímabili svo ég nefni dæmi. Bæði bændurnir og afurðastöðvarnar hafa því vissulega verið að lækka verð á mjólkurvörum. Það hefur komið fram á báðum stöðum. Afurðastöðvarnar standa enn sterkar. Það er mikilvægt fyrir neytendur vegna vöruþróunar. Það er öryggi fyrir bændur að eiga sínar sterku afurðastöðvar til þess að tryggja þeim að þær geti greitt afurðirnar. Auðvitað standa líka afurðastöðvar í mjólkuriðnaði vegna lagaskjólsins með allt öðrum hætti heldur en á kjötmarkaðinum eins og hér var rakið áðan.