Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:45:22 (8361)

2004-05-17 11:45:22# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:45]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur mælt fyrir tveimur frumvörpum sem lúta að umgjörð landbúnaðarframleiðslunnar og verðlagningu og sölu og jafnframt lúta þau að kjörum framleiðenda og vinnslustöðva. Ég vil ítreka það að ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með að þetta skuli komið fram. Við höfum verið að kalla eftir því á undanförnum vikum og mánuðum að ráðherra kæmi fram með frumvörp. Það var orðið afar brýnt. Það er aðeins um það bil ár þangað til mjólkursamningurinn rennur út og landbúnaðarframleiðslan er með þeim hætti að þar þarf að gera áætlanir langt fram í tímann. Gripur sem fæðist í vor, til dæmis kýr, er ekki farin að skila mjólk fyrr en eftir kannski tvö, þrjú ár og þess vegna þurfum við svona langtímaskipulagningu. Þess vegna er ráðherra alveg með síðustu skipunum að koma þessu fyrir þingið. Kannski hefur hann haft áhrif á það að umræður lengdust svona mikið hér síðustu dagana um allt annað mál til að fá svigrúm til að koma þessu að. Svona geta hlutirnir snúist á haus. Kannski hefur landbúnaðarráðherra með afstöðu sinni innan Framsóknarflokksins til útvarpslaganna verið að skapa svigrúm til að koma þessu frumvarpi fram. En látum það gott heita.

Fyrst vil ég ræða aðeins fyrra frumvarpið um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem kveður í stórum dráttum á um að halda megi óbreyttu fyrirkomulagi við verðlagningu, verðmiðlun og sölu á mjólkurvörum og að hægt sé að ákveða ákveðið heildsöluverð á mjólk þannig að mjólk geti verið í boði á nokkuð hliðstæðu verði eða sama verði um allt land og að það verðlagningarkerfi skapi í sjálfu sér ekki grunn til verðstríðs á innanlandsmarkaði eða á milli verslana eins og við höfum mátt upplifa með aðrar landbúnaðarvörur þar sem stórir aðilar í krafti markaðshlutdeildar sinnar sem þeir hafa lagt á borð með sér hafa krafist verulegs afsláttar á innkaupsverði og síðan getað selt það aftur út á lágu verði og þar með líka keyrt út af markaðnum minni aðila sem ekki hafa sama svigrúm til þess að færa á milli vöruflokka eða standast óeðlilega samkeppni. Ég fagna því að þetta ákvæði skuli vera framlengt og einnig fagna ég því að það skuli vera stutt rökum sem hæstv. ráðherra hefur greint frá í þeirri álitsgerð um samkeppnisumhverfi í landbúnaði og stöðu búvöruframleiðslu sem hann kynnti hér.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum á undanförnum árum og undanförnum missirum lagt á það þunga áherslu og verið með tillöguflutning og hvatningar til ríkisstjórnarinnar, til hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, um að láta gera úttekt á réttarstöðu þessara vara á markaðnum til að kanna hvort það sé í rauninni svo að í krafti samkeppnislaga hafi verið hægt að stunda botnlaus niðurboð á innlendum landbúnaðarvörum á innlendum mörkuðum eins og við höfum upplifað á kjötmarkaðnum og hvort menn teldu að þeir gætu sótt það í skjól laga að það væri hægt. Við þekkjum það að á undanförnum árum hafa bankasamsteypur myndað nokkurs konar hring um framleiðslu ákveðinna kjötgreina, svínakjöts og fuglakjöts, þar sem sami aðilinn, kannski banki, fjármálastofnun eða angar hans, hefur átt búin, fóðurinnflutningsfyrirtækið, jafnvel flutningsfyrirtækið sem flutti fóðrið til landsins, sláturhúsið og síðan sölukeðjuna sem seldi. Þannig hefur myndast eignabundinn hringur um alla þættina og þess vegna hefur verið hægt að færa til verð og verðmyndun innan hvers hrings eftir því hvað hentaði hverju sinni til þess að ná tökum á einhverjum markaði. Afleiðingin hefur verið sú að hér hefur ríkt nánast lögmál frumskógarins á undanförnum missirum á kjötmarkaði til mikils tjóns bæði fyrir neytendur og framleiðendur. Ég held að okkur mundi þykja skarð fyrir skildi ef við ættum að fara að vera í stórauknum mæli háðir innflutningi á kjöti og þeim landbúnaðarvörum sem við getum framleitt hér.

Nú beita löndin sem flutt er inn frá beita líka niðurgreiðslum með beinum eða óbeinum hætti þannig að ekki hafa menn verið að keppa þar á hreinum samkeppnismarkaði. Inngrip fjármálastofnana í kjötframleiðsluna eins og þau sem við höfum upplifað á síðustu missirum hafa haft nú þegar gríðarlega slæmar afleiðingar fyrir byggð og búsetu og atvinnulíf í sveitum og fyrir öryggi þjóðarinnar í matvælaframleiðslu. Þess vegna höfum við krafist þess í ár, í fyrra, í hittiðfyrra að ráðherrar og ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að gera úttekt á þessum málum og kanna hvort ekki væri hægt að grípa inn, hvort hægt sé í skjóli lagasetningar að rústa íslenskum kjötmarkaði eins og stefndi í. Reyndar hefur orðið mikið tjón á þeim markaði. Það var þó ekki fyrr en núna fyrst á þessu ári að hæstv. landbúnaðarráðherra dreif sig loks í það eftir að hafa verið hvattur til þess mjög eindregið af samtökum bænda um allt land að grípa til aðgerða, kanna réttarstöðu sína og hvort hægt væri að grípa til aðgerða. Þá dreif hann í því í lok marsmánaðar árið 2004 að skipa nefnd til að kanna tengsl laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum við samkeppnislögin. Það er fagnaðarefni að sú nefnd skuli hafa unnið það hratt að nú þegar liggur fyrir álit frá henni.

Fyrir okkur sem unnum íslenskum landbúnaði, íslensku atvinnulífi til sveita, íslensku mataröryggi, er það fagnaðarefni að þessi nefnd skuli komast að þeirri niðurstöðu að sanngjörn sérlög gætu gilt um innlenda landbúnaðarframleiðslu og staðið ofar almennum lögum, samkeppnislögum. Á þeim forsendum er einmitt verið að flytja frumvarp til laga um að við getum haldið þessum jöfnuði sem við höfum verið með á verðlagningu og sölu á mjólkurvörum um landið. Á þessum forsendum getum við einmitt haldið henni uppi því að með því erum við að tryggja bæði rétt neytenda og framleiðenda óháð búsetu.

Því miður leggur landbúnaðarráðherra ekki í að taka á málinu varðandi kjötframleiðsluna. En í skýrslu þessarar nefndar sem ég hef vitnað til er ekki talið að það brjóti lög að beita tímabundnum aðgerðum, hófsömum aðgerðum til að koma í veg fyrir langvarandi niðurboð á kjötmarkaði og rústun innlends kjötmarkaðar og innlendrar kjötframleiðslu eins og annars gæti stefnt í ef menn hefðu túlkað samkeppnislögin sér í hag hvað það varðar. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé á döfinni. Hann svaraði í stuttu andsvari áðan að það væri ekki ætlunin af sinni hálfu núna við framlagningu þessara frumvarpa að taka á stöðu kjötframleiðslunnar og öryggi hennar. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki með í bígerð nú þegar hann er kominn á svona góðan skrið að taka líka á umgjörð kjötframleiðslunnar og tryggja sér lagalegan grunn til að geta stýrt henni í heillavænlegri farveg ef hún væri að fara út af sporinu. Vera má að hluti af þessum málum heyri undir hæstv. iðnaðarráðherra og þá treysti ég á að landbúnaðarráðherra beiti afli sínu til þess annaðhvort að taka þau mál úr höndum iðnaðarráðherra ellegar að stýra því svo að á þeim málum verði tekið.

Ég vil benda á umræðu sem varð á síðasta búnaðarþingi um þetta mál. Á síðasta búnaðarþingi var einmitt mál sem hét: Framleiðsluöryggi, samkeppni og sjálfbær þróun í íslenskum landbúnaði, með leyfi forseta:

,,1. Erindi Svínaræktarfélags Íslands.

Búnaðarþing 2004 samþykkir að beina þeim tilmælum til stjórnvalda að skipuð verði nefnd til að kanna umgjörð og starfsskilyrði kjötframleiðslunnar í landinu. Markmiðið verði að leita leiða til að tryggja, eftir því sem unnt er, að íslensk kjötframleiðsla verði rekin á forsendum sjálfbærrar þróunar og að framleiðendur og neytendur búi við ákveðið framleiðsluöryggi og lágmarkssamkeppnisskilyrði. Reynt verði að finna leiðir til að hindra fákeppni í kjötframleiðslu hér á landi.

Sérstaklega verði hugað að eftirfarandi:

1. Að sett verði þak á hámarkshlutdeild hverrar framleiðslueiningar innan sömu framleiðslugreinar, í því skyni að ná fram markmiðum um framleiðsluöryggi og til að hindra fákeppni.

2. Að komið verði á fót sérstöku innra eftirliti með því að vara sé ekki seld langtímum saman undir sannanlegu kostnaðarverði. Jafnframt verði hugað að breytingum á samkeppnislögum í sama tilgangi.

3. Að öll kjötframleiðsla í landinu lúti sömu grundvallarskilyrðum varðandi starfsleyfi.

4. Að skilyrði verði sett í starfsleyfi bús, að það hafi yfir að ráða nægilega stóru landi til að dreifa á búfjáráburði, í samræmi við íslenskar aðstæður.``

Þetta erindi frá Svínaræktarfélagi Íslands til búnaðarþings er síðan styrkt ítarlegum greinargerðum. Ég tel þetta erindi á vissan hátt marka tímamót í umræðunni um kjötframleiðslu hér á landi.

Þarna er dregið fram að öryggi framleiðenda og neytenda er ekki endilega bundið því að menn fái óheft leyfi til þess að láta stærðarmörkin ein ráða. Væri eitthvert öryggi fólgið í því fyrir neytendur ef fjöldi svínakjötsframleiðenda væri kominn niður í einhverja lágmarkstölu? Hann er núna kominn niður í átta til tíu sem ráða í rauninni framleiðslunni. Þá hverfur öryggi greinarinnar og líka öryggi neytenda. Þá er komin fákeppni þarna upp. Þetta getur líka gerst í nautakjötsframleiðslunni og í mjólkurframleiðslunni. Ég hefði því viljað að hæstv. ráðherra hefði gaumgæft þau atriði sem þarna eru lögð til enn þá frekar við sína lagasetningu um að setja kjötmarkaðinum eðlileg íslensk starfsskilyrði til að tryggja bæði stöðu framleiðenda og neytenda. Þetta tel ég eitt brýnasta málið til að takast á við nú þegar við höfum lokið umfjöllun um þau mál sem hér liggja fyrir.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum flutt þingsályktunartillögu fyrst á þessu þingi og ég vona að hv. landbúnaðarnefnd afgreiði hana út til lokaafgreiðslu í þinginu. Þetta er tillaga til þingsályktunar um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum. Þar leggjum við eftirfarandi eindregið til, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.``

Þessi tillaga okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er síðan studd ítarlegri greinargerð og er nú til meðferðar í hv. landbúnaðarnefnd. Þarna leggjum við einmitt fram kröfu um að stuðningur hins opinbera við landbúnað færist í stórauknum mæli frá framleiðslutengdum þáttum til almennra varanlegra þátta umhverfismála og annarra sérgreindra atriða sem ekki geta beint flokkast undir magntengda framleiðslu.

[12:00]

Þetta er reyndar hinn sami tónn og er verið að slá í nýjum samningi um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum hvað lýtur að mjólkinni. Þar er einmitt verið að stíga fyrstu skrefin í að færa stuðnings ríkisins frá því að vera beint framleiðslutengdur á mjólkurlítra til annarra þátta eins og hæstv. ráðherra nefndi. Það er að vísu ansi lítið skref sem stigið er því einungis er ætlað að taka það um 20% af samningnum á þessu samningstímabili af framleiðslutengdum stuðningi og yfir á annan stuðning óframleiðslutengdan. Það er mjög lítið skref. Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður þessum GATT-viðræðum og hvert eru þær að stefna eins og þær nú eru? Eftir því sem ég hef lauslega fregnað liggja fyrir óformleg drög af hendi hæstráðanda þeirra sem vinna að því að koma á nýjum GATT-samningi. Það liggja fyrir óformleg drög að nýjum samningi og ég vildi heyra hjá hæstv. ráðherra hvað stefnir í að þau drög kveði á um hlutfallið á milli framleiðslutengds stuðnings og annars stuðnings, það er að segja heimildir ríkisvaldsins til þess að styðja landbúnaðinn. Hvernig standa þau mál nú varðandi þessi ákvæði? Það hlýtur að skipta okkur gríðarlega miklu máli annars vegar að hafa áhrif á þann samning út frá hagsmunum okkar að sjálfsögðu og náttúrlega út frá hagsmunum heimsbyggðarinnar í heild. Einnig er mikilvægt að við séum ekki í þessum samningi að gera eitthvað sem getur torveldað okkur aðlögun eða það að grípa þau tækifæri sem ný ákvæði GATT-samkomulags geta gefið okkur. Þar á ég til dæmis við hlutfallið á milli greiðslna sem eru beint tengdar framleiðslu á mjólkurlítra og hins vegar tengdar öðrum þáttum.

Annað atriði sem ég vil líka koma að í þessari ræðu minni er að mér eru það vonbrigði að ráðherra skuli ekki hafa náð að halda óbreyttu fjármagni inni í samningnum. Það er alltaf erfiðara að vinna nýtt fjármagn inn. Mér eru það vonbrigði að heildarframlagið eigi að minnka um 1% á ári í þessi ár eftir því sem mér hefur skilist. Við heyrum það hins vegar svo líka frá röddum þeim sem hlynntar eru inngöngu Íslands í Evrópusambandið, frá hæstv. viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins til dæmis, að ef við göngum í Evrópusambandið muni íslenskur landbúnaður fá svo og svo mikið af auknum opinberum styrkjum. Að vísu verður það fyrst og fremst til sauðfjárræktarinnar en þó einnig til ýmissa grænna hluta tengdra mjólkurframleiðslunni. Þess vegna mér finnst það skjóta skökku við að lækka þá upphæð sem gengur inn í þennan samning ekki síst í ljósi þeirrar óvissu sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar þessa alþjóðlegu samninga og þá umgjörð sem búgreinin getur orðið að lúta í kjölfar þeirra.

Svo er það staða nautakjötsframleiðslunnar. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki svo auðvelt að ætla að færa fjármagn frá mjólkurframleiðslu til nautakjötsframleiðslu. Engu að síður er þetta nátengt. Nú er í þessu frumvarpi lagt til að hluti af hinum grænu greiðslum fari yfir á grip, á kú, óháð því hvort kýrin er mjólkurkýr eða hvort kýrin er að ala kálf til kjötframleiðslu. En sá styrkur á ekki að koma til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi eftir eitt ár og þá síðan í þrepum út frá því. Ég hefði telið eðlilegt að að minnsta kosti þeir sem nú stunda kjötframleiðslu og eiga í virkilegum erfiðleikum í samkeppni við bankareknar kjötframleiðslugreinar hefðu átt að fá þennan stuðning strax til þess að mæta þeim (Forseti hringir.) vanda sem þar er og til að tryggja innlenda kjötframleiðslu.

Frú forseti. Ég kem svo að þeim þáttum sem ég á eftir í síðari ræðu minni.