Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:12:14 (8365)

2004-05-17 12:12:14# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. að mjög mikilvægt er að bera hagsmuni allra þessara aðila, framleiðenda, ríkissjóðs og neytenda, fyrir brjósti, en ekki bara skammtímahagsmuni, ekki bara jólainnkaupin eða páskainnkaupin heldur allt árið um kring og til næstu ára og áratuga. Það held ég að sé gert með því að búa þessari búgrein og matvælaframleiðslu og dreifingu á henni sanngjarnan ramma.

Ég tek hins vegar undir þau sjónarmið sem hv. þm. ýjaði að og það er að hætta þessarar greinar núna liggur í gríðarlegri skuldsetningu og hagræðingarkröfu sem er kannski ekki á réttu róli en hefur þau áhrif að það er mjög erfitt fyrir ungt fólk, fyrir nýtt fólk, að koma inn í þessa grein. Um leið og grein fer að búa sér þá umgjörð að hún verði mjög hættulega skuldsett þannig að bankakerfið ráði nánast afkomu hennar með vaxtastigi og öðru þá er hún á hættulegri braut og ef staða hennar er líka sú að það er nánast ógerningur eða mjög erfitt fyrir nýja aðila að koma þar inn þá erum við líka á hættulegri braut. Þessa tvo þætti tel ég vera þá mestu hættu sem steðjar nú að íslenskum mjólkurframleiðendum. Og ég tel að hæstv. landbrh. sé ekki með hátt kvótaverð nógu rækilega í huga þegar hann er að búa þessari atvinnugrein umgjörð.