Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:14:26 (8366)

2004-05-17 12:14:26# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason fór yfir þau frumvörp sem liggja fyrir þessum fundi. Honum tókst einkar vel að tala tiltölulega lítið um frumvörpin sjálf. Hann fór að mestu leyti inn á önnur atriði eins og kjötmarkaðinn. Hann fór nokkrum orðum um hann og minna kannski um frumvörpin sjálf.

En ég vildi spyrja hv. þm. Hann ræddi um fækkun framleiðenda, hagræðingu bænda og mikil niðurboð á kjötmarkaði og þau vandamál sem þar eru og ég geri alls ekki lítið úr. Ég geri alls ekki lítið úr því. En hv. þm. nefndi ekki einu orði þá gríðarlegu samþjöppun sem orðið hefur á smásölumarkaði og hvaða áhrif hún hefur haft á landbúnaðinn. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. þar sem ég þykist vita að hann þekki þessi mál og viti hvernig þeim er háttað: Hvaða áhrif telur hann að hin gríðarlega samþjöppun á smásölumarkaði hafi haft á íslenskan landbúnað undangengin ár?